Meðalhóf og meðalmennska

Rekstur íþróttafélaga hér á landi gengur víðast hvar erfiðlega. Á dögunum birtust fréttir af því að launakröfur fótboltamanna væru hluti af vandanum. Svo þarf þó ekki að vera og tímabundinn rekstrarvandi hjá félögum má ekki verða til þess að festa íþróttaiðkun hér á landi í sessi sem áhugamál – eitthvað sem menn sinna bara eftir vinnu.

Íþróttadeild Stöðvar 2 birti á dögunum frétt um að launakröfur leikmanna í úrvalsdeild íslensku knattspyrnunnar væru orðnar sífellt hærri og að dæmi væru um að menn fengju á bilinu 3-500 þúsund á mánuði fyrir að leika fyrir lið í efstu deild.

Þótt fréttamaðurinn hafi ekki sett fram neina afstöðu í fréttinni til þessarar þróunar mátti heyra glögglega á uppsetningunni, sem og því sem haft var eftir viðmælendum í fréttinni – sem töluðu allir nafnlaust að því er virðist – að þetta þætti mikið áhyggjuefni. Liðin réðu illa við þetta, reksturinn gengi illa og launakröfurnar hækkuðu. Leikmennirnir væru m.ö.o að verða gráðugri og liðin fátækari.

Það er eitt að félögin eigi í rekstrarvanda og auðvitað þarf að taka á því en það má ekki verða til þess að heilbrigðar óskir leikmanna um að fá greitt fyrir að spila knattspyrnu verði að skammaryrði. Á milli meðalhófs og meðalmennsku getur verið þunn lína og það er miklu frekar til marks um eðlilegan metnað leikmanna að vilja fá greitt og ætti að vera til framfara fyrir alla.

Því miður er alltof algengt að heyra sögur af því að toppleikmenn hér á landi séu samhliða íþróttinni að vinna fullan vinnudag þar sem ekki sé hægt að lifa á því að stunda íþróttir. Það verður að passa að þetta verði ekki normið. Miklu frekar ætti að gera þeim sem skara fram úr kleift að helga sig íþróttinni og geta lifað á henni enda útheimtir það mikla vinnu að æfa íþróttir á meistaraflokksstigi, daglegar æfingar og gríðarlega skuldbindingu. Mælt í vinnustundum jafnast það auðveldlega á við hálfan eða jafnvel heilan vinnudag. Það er svo matsatriði hve há launin eigi að vera og auðvitað þarf það að taka eitthvað mið af því hvað viðkomandi félag ræður við.

Svo má auðvitað velta því fyrir sér hvort liðin mættu ekki hugsa umgjörðina í kringum sína leiki og atburði eitthvað öðruvísi. Miðaverð á leiki í dag er ekki ýkja hátt, það kostar yfirleitt 1000-1500 krónur að fara á völlinn en svo kemur eitthvað aukalega inn með sjoppusölunni, þ.e. það er selt kaffi, nammi og pizzur í hálfleik. Yfirleitt er ferð í sjoppuna það eina sem í boði er í hálfleik. Maður hefur stundum velt því fyrir sér hvort það megi ekki gera betur – væri það ekki alveg eins gott að borga t.d. 2000 kall inn á völlinn og geta farið í hálfleik inn í félagsheimilið, fengið sér frítt kaffi og spjallað um gang mála í leiknum? Þótt það sé auðvitað ekki sambærilegt þá er ágætt að velta því fyrir sér hvernig knattspyrnuleikir í stærri deildum heimsins eru hugsaðir – þeir eru stórviðburðir og það vita allir sem mæta að það er ekki ókeypis. En það er gaman og þú færð eitthvað fyrir þinn snúð.

Nánast allir þeir fótboltamenn sem sýna einhverja hæfileika og raunar flestir aðrir íþróttamenn hér (á dögunum barst til dæmis frétt um að einn okkar mesti afreksmaður í sundi fengi 80 þúsund á mánuði í afreksstyrk en þyrfti annars að treysta á foreldra sína) fara út að spila við fyrsta tækifæri sem býðst. Það er allajafna eðlilegt og gott skref, en við og við berast fréttir af því að efnilegir leikmenn séu farnir að spila í frekar slakri deild úti, hjá liði sem virðist hafa það eitt fram yfir íslensku liðin að vera erlent lið. Munurinn er vitaskuld sá að úti geta menn helgað sig íþróttinni í stað þess að sinna þessu eftir vinnu.

Markmiðið hér heima ætti miklu frekar að vera að bjóða þeim sem vilja spila og vilja bæta sig aðstæður sem gera þeim kleift að gera það í stað þess að bölsóttast út í launakröfur leikmanna. Að fá 300 þúsund krónur á mánuði fyrir að spila fótbolta, sem er samkvæmt fréttinni með því allra mesta sem menn fá, á ekki að vera frétt sem veldur almennri hneykslan, enda verður enginn ríkur á slíkum launum. Tímakaupið er heldur ekki ýkja hátt miðað við þann tíma sem fer í sportið hjá leikmönnum í fremstu röð. Viðkomandi gæti hins vegar einbeitt sér að íþróttinni, tekið meiri framförum en ella sem nýtist auðvitað á endanum hans eigin félagi hvað best, það nýtur góðs af því að hafa innan sinna raða fleiri og betri leikmenn, það fær fleiri áhorfendur á völlinn og á endanum nýtur það ágóðans ef það tekst að selja viðkomandi út.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.