Falskir tónar

Kaupmáttur í landinu hefur rýrnað og verkfallsvopn launþegasamtakanna hafa af þeim sökum verið dregin fram. Meira að segja hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitar Íslands ætluðu að grípa til vopna og leggja niður hljóðfærin. Veldur hver á heldur en það er falskur tónn í flutningi þeirra sem hæst tala að hægt sé að bæta kjör fólks með brellubrögðum.

Mörgum tónelskandi borgurum er eflaust létt og hugsa sér gott til glóðarinnar með miða á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld í vasanum. Skiljanlega því efnisskráin er ekki af verri endanum. Það skemmir ekki fyrir að hljóðfæraleikarar hljómsveitarinnar verða á staðnum og munu leika óþvingaðir af fingrum fram fyrir áheyrendur. Sú óvissa sem skapaðist í vikunni um hvort af tónleikunum yrði var auðvitað óþolandi fyrir afar fámennan hóp fólks í þjóðfélaginu. Svona sambærilega óþolandi og óvissan um hvenær skipum HAFRÓ verður siglt aftur á haf út til rannsókna. Það stendur víst nefnilega yfir verkfall háseta á rannsóknarskipum HAFRÓ og hefur staðið yfir í rúman mánuð.

Verkföll hafa þannig mismikil áhrif eftir því hvaða starfsstéttir eiga í hlut og hvenær þau eru boðuð. Verkfalli stöðumælavarða kann jafnvel að verða fagnað víða á höfuðborgarsvæðinu. Verkfall kennara í júlí kann að sama skapi að missa marks. Það breytir því þó ekki að öll verkföll eru skaðleg á einn eða annan hátt. Verðmæti tapast og óeining skapast í þjóðfélaginu.

En verkföll eru ekki orsök vandans, þótt þeim fylgi ýmis vandamál, heldur frekar afleiðing af misskilningi sem grípur um sig í þjóðfélaginu við og við, þá sérstaklega meðal starfstétta hins opinbera. Misskilningurinn felst í að telja að hægt sé að verða ríkur með því einu að prenta fleiri peninga eða með öðrum orðum auka kaupmátt launþega með því einu að hækka launatöluna þeirra nægjanlega mikið. Helst alveg jafn mikið, hlutfallslega eða í krónum talið, og meira ef hægt er en svokallaðar viðmiðunarstéttir komust upp með í sínum kjarasamningum.

Það er ekki laust við að þessi misskilningur hafi skotið dýpri og fastari rótum eftir að efnhagskreppa skall á í lok síðasta áratugar. Kaupmáttur almennings hefur síðan þá rýrnað verulega, störfum fækkað í nær öllum atvinnugreinum og landsflótti er orðinn viðvarandi vandmál. Sem sagt eftir því sem þrengt hefur meira að fólki fjárhagslega því háværari hefur krafan um hærri laun orðið. Vandamálið er að það er engin innistæða í þjóðfélaginu fyrir hærri launum. Eflaust gera forystumenn launþegasamtaka sér grein fyrir því. Þeir kjósa engu að síður að setja fram ríflegar launakröfur með vísan til fyrri launahækkana þessara svokölluðu samanburðarstétta og að ekki megi dragast aftur úr einhverri meðaltalsþróun launa á óskilgreindu tímabili.

Það getur vel verið markmið ákveðinnar starfstéttar að ná launakjörum sínum upp að meðallaunum í þjóðfélaginu. En þá er væri gagnlegt að heyra líka tillögur um hvaða laun í þjóðfélaginu eigi að lækka að sama skapi svo meðaltalinu verði náð. Annars hækkar bara meðaltalið með hærri launum þeirra sem eru undir meðaltalinu. Sé látið undan svona málflutningi heldur vitleysan auðvitað áfram þegar næsti þjóðfélagshópur stígur fram og heimtar leiðréttingu launa sinna með tilheyrandi verkfalli, verði ekki gengið að kröfu hans.

Laun í landinu hækka þegar kaupmáttur hækkar með auknum hagvexti vegna aukinnar verðmætasköpunar. Að því marki ber að stefna og allir verða að leggjast á eitt svo það takist. Það myndi hressa upp á samstarfið ef hin og þessi launþegasamtök hættu að krefjast óraunhæfra launahækkana með tilheyrandi hótunum um verkföll.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.