Klámið og líffærafræðin

Stundum hvarflar að mér að letin verði minn banabiti. Ekki með hefðbundnum hætti þó.

Stundum hvarflar að mér að letin verði minn banabiti. Ekki með hefðbundnum hætti þó. Ég á við þann ósið að nenna ekki að standa upp úr sjónvarpssófanum þegar efnið sem boðið er upp á er manni ekki lengur að skapi. Ég held því fram að sumir dagskrárliðir séu beinlínis til þess fallnir að stytta manni aldurinn og þegar maður hefur ekki dug í sér til að forða sér frá tækinu áður en þessu er sturtað yfir skilningarvitin þá þverr lífsorkan.

Flestar sjónvarpsrásir hér á landi, og víðar að mér skilst, bjóða upp á þætti sem virðast fyrst og fremst höfða til kvenna. Nefna mætti þætti á borð við One Tree Hill, Ally McBeal og síðast en alls ekki síst Grey‘s Anatomy, sem innvígðir kalla víst Greis til styttingar. Einhvern tímann hefði RÚV eflaust haft metnað til þýða þáttarheitið sem hefði þá orðið Ástir, afbrýði og líffærafræði.

Samskipti kynjanna er þungamiðja allra þessara þátta. Þættirnir eiga það líka sameiginlegt að þar eru karlmennirnir eiginlega allir sama persónan og það sem meira er; þeir eru alltaf eins alveg sama hvað er að gerast í þáttunum. Þeir eru alltaf svona hæfilega sorgmæddir svipinn, hálf hissa til augnanna en skilningsríkir um leið, yfirleitt tárvotir og í fasi einsog þeir þurfi á faðmlagi að halda. Heilu og hálfu þættirnir fara síðan í dramatísk samtöl um líðan og tilfinningar og miðað við það að hjartaaðgerð ætti að taka svona 4-6 tíma þá fæ ég ekki betur séð en þessar karlpersónur ræði persónuleg tilfinningamál svona 8-10 tíma á dag.

Stundum er sagt að hugmyndir táningspilta og ungra manna um kynlíf séu brenglaðar og í engum takti við veruleikann. Ástæðan mun vera sú að þeir horfi meira en góðu hófi gegnir á klámmyndir. Í klámmyndum eru limir að jafnaði ekki undir 30 sm að lengd og sverir eftir því. Í klámmyndum eru konur að jafnaði með risastór brjóst og sannkallaðar reiðmaskínur. Afleiðing þessarar brenglunar mun því vera sú að ungir menn geta ekki með góðu móti stundað kynlíf með venjulegum konum þar sem hvorki þær né athafnir þeirra eiga neitt skylt við ofurreiðhetjur klámmyndanna og þeirra aðfarir.

Kláminu er kennt um flest það sem afvega fer. Allt frá sjúkdómum sem rekja má til linnulausra og óhóflegra munngælna á alla kanta til grófustu ofbeldisglæpa. Brenglun unglingspilta af klámmyndaglápi er víst rótin að þessu öllu. Klámvæðingin svokallaða á þannig að hafa hlutgert konur þannig að ungir menn geta ekki umgengist þær eins og venjulegar konur.

Hugmyndir ungra kvenna um karlmenn eru þó ekkert síður brenglaðar og úr takti við raunveruleikann. Sú mynd sem ungar konur fá af karlmönnum í Grey‘s Anatomy og öðrum viðlíka þáttum er sú að þeir séu einhvers konar ílát fyrir tilfinningar og lítið meira en það. Að yfir þá sé hægt hella tilfinningum heilu og hálfu dagana og að þeim finnist það jafnvel bara gott.

Afleiðingin þessarar brenglunar er sú að ungar konur verða sífellt fyrir vonbrigðum með venjulega karlmenn sem eiga auðvitað ekkert sammerkt með læknunum í Greis eða piltunum í One Tree Hill. Væntingin er systir vonbrigðanna, var einhvern tímann sagt, og það á ekki síður við um árekstur veruleikans við Greis-heiminn en klámmyndaheiminn.

Brostnar vonir leiða til vonbrigða og sífelld vonbrigði til óhamingju sem aftur leiðir til ófarnaðar. Sambandi venjulegra karla og venjulegra kvenna, þessari grunnstoð samfélagsins, stafar því beinlínis ógn af boðskap þátta á borð við Grey‘s Anatomy og full ástæða til að grípa inn í með ábyrgum og afgerandi hætti.

Þegar maður loksins nær að standa upp úr sófanum, fá sér glas af köldu vatni með klaka og horfa á draslið fjúka á svölunum, þá bráir af manni. Það sem einum misbýður fullkomlega og telur ógna gildum sínum og velferð samfélagsins, er fyrir öðrum stundargaman sem ekki er ástæða til að taka of hátíðlega.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.