Kynlegar nefndir

Nokkur umræða hefur skapast um kynjaskiptingu í fastanefndum Alþingis í kjölfar þess að aðeins ein kona situr í fjárlaganefnd þingsins og tvær konur í atvinnuveganefnd, efnahags-og viðskiptanefnd og utanríkismálanefnd. Fastanefndir þingsins eru átta, nefndarmenn eru níu í þeim öllum og eru konur í meirihluta í þremur þeirra: allsherjar- og menntamálanefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og velferðarnefnd.

Nokkur umræða hefur skapast um kynjaskiptingu í fastanefndum Alþingis í kjölfar þess að aðeins ein kona situr í fjárlaganefnd þingsins og tvær konur í atvinnuveganefnd, efnahags-og viðskiptanefnd og utanríkismálanefnd. Fastanefndir þingsins eru átta, nefndarmenn eru níu í þeim öllum og eru konur í meirihluta í þremur þeirra: allsherjar- og menntamálanefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og velferðarnefnd.

Bent hefur verið á að Alþingi hafi sett lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og margir spyrja sig, kannski eðlilega, hvort sömu lög og reglur eigi ekki að gilda um fastanefndir þingsins. Hér hlýtur það að eiga við, hvort sem fólk er fylgjandi kynjakvótum eða ekki, að það eigi að „practice what you preach.“ Grunnspurningin er samt sem áður alltaf sú: af hverju er þetta svona?

Svarmöguleikarnir eru nokkrir:

a) konur hafa ekki áhuga á fjárlögum og utanríkismálum

b) fjárlög og utanríkismál eru harðir málaflokkar – konur eru meira í mjúku málunum (af því að konur eru svo mjúkar)

c) þingmenn eru ekkert að pæla í kynjaskiptingu í fastanefndum þingsins (hvaða máli skiptir hún líka og hverjum er ekki sama?)

d) allt ofangreint (a, b, c) er rétt

Vafalítið má færa rök fyrir öllum svarmöguleikunum en einhverra hluta vegna hef ég það á tilfinningunni að svar c) sé það sem mest áhrif hafi þegar upp er staðið. Einhverjum þykir það líka örugglega allt í lagi að þingmenn pæli ekkert í þessu því þeim þykir þessi kynjaskipting ekki skipta neinu máli en hún skiptir, í alvörunni, máli.

Skilaboðin eru skýr: konur eru í miklum minnihluta í fjórum af átta fastanefndum þingsins og þingflokkarnir pæla ekkert í þessu þegar skipað er í nefndirnar, eða svo virðist allavega vera. Engir kynjakvótar eru til staðar en á að þurfa kynjakvóta inni á Alþingi? Við eigum að geta gert þær kröfur til þingmanna að þeir sjái mikilvægi þess að fá bæði konur og karla að borðinu í öllum málaflokkum, og pæli þannig í því hvernig skipað er í fastanefndir.

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.