Magnað Eldfjall

Á sunnudaginn fyrir rúmri viku ákváðum við félagarnir að skella okkur í bíó. Sunnudagsbíó er mikið stunduð iðja í mínum vinahópi en í þetta skiptið var stemningin öðruvísi. Við vorum að fara að sjá mynd sem við höfðum beðið eftir í marga mánuði, jafnvel ómeðvitað í mörg ár. Eldfjall, eftir Rúnar Rúnarsson.

Á sunnudaginn fyrir rúmri viku ákváðum við félagarnir að skella okkur í bíó. Sunnudagsbíó er mikið stunduð iðja í mínum vinahópi en í þetta skiptið var stemningin öðruvísi. Við vorum að fara að sjá mynd sem við höfðum beðið eftir í marga mánuði, jafnvel ómeðvitað í mörg ár. Eldfjall, eftir Rúnar Rúnarsson.

Við vorum mættir í Háskólabíó laust fyrir kl. 8 en þegar í miðasöluna var komið var okkur tilkynnt að það væri aðeins einn miði eftir – en við vorum tveir. Undir öllum öðrum kringumstæðum hefði þessi aðstaða farið í mínar fínustu en í þetta skiptið var tilfinningin öðruvísi. Mér þótti gaman að heyra að aðsóknin væri svona góð og raunar fann ég fyrir smá stolti líka, eins skrítið og er að segja það.

Ég man ennþá þegar ég sá stuttmynd Rúnars, Síðasta bæinn, á RÚV. Það hefur líklega verið skömmu áður en hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna í ársbyrjun 2006. Hún situr fast í minni mér, hvernig hún tók mig á flug í gegnum litróf tilfinninganna, áður en hún gjörsamlega snéri mér á hvolf og skildi mig þannig eftir hangandi. Þeir sem hafa séð þetta meistaraverk vita eflaust hvað ég á við. Jón Sigurbjörnsson fellur frábærlega í hlutverk sitt og tónlist Kjartans Sveinssonar hljómar undurfögur, en örlítið ásækjandi, undir.

Síðan þá hefur Rúnar gert stuttmyndirnar Smáfuglar (2008) og Anna (2009) og eru þær hver annarri betri. Eðli málsins samkvæmt vorum við félagarnir því gríðarlega spenntir fyrir fyrstu mynd Rúnars í fullri lengd – enda var þessi bíóferð ákveðin fyrir mörgum mánuðum síðan.

Eftir að hafa fengið þær bitursætu fregnir að aðeins væri einn miði eftir var einungis eitt í stöðunni; að bruna í Smárabíó. Þangað náðum við í tæka tíð og í þann mund sem við settumst var myndin að hefjast. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í ítök myndarinnar sjálfrar en þó vil ég nefna það að andrúmsloftið í salnum var rafmagnað.

Eldfjall er ekki skemmtileg mynd. En það þarf þó ekki að vera slæmt – þvert á móti. Í mjög grófum dráttum fjallar hún um mann sem að gerir sér grein fyrir því, skömmu eftir að hann fer á eftirlaun, að hann hefur komið illa fram við eiginkonu sína og börn í fjölda ára, og í þann mund sem hann ætlar að bæta ráð sitt veikist kona hans alvarlega. Eins og ég segi, það er ekkert skemmtilegt við slíkar aðstæður. Hins vegar er það stórkostlegt að sitja í dimmum bíósal og finna hvernig kvikmyndin fer með mann í ferðalag með þessum manni; hún setur mann sjálfan í hans spor. Fyrst er maður tregur til en undir lokin finnur maður fyrir fullri samkennd með greyið manninum. Það þarf mikinn kjark til þess að gera slíka kvikmynd og frumburður Rúnars stendur undir öllum þeim væntingum sem til hennar eru gerðar.

Ég hef verið kvikmyndaunnandi síðan ég var barn. Þetta er mitt aðaláhugamál og mér finnst æðislegt að spá og spekúlera í öllu því sem viðkemur kvikmyndalistinni. Því velti ég því fyrir mér, hversu margar íslenskar kvikmyndir gætu talist góðar á alþjóðlegan mælikvarða? Og þá útiloka ég myndir sem eru góðar, jafnvel frábærar, fyrir íslendinga eina (t.d. Með allt á hreinu, Sódóma Reykjavík, o.fl.). Auðséðasta svarið er líklegast Englar Alheimsins. Börn náttúrunnar, jafnvel. Og svo auðvitað uppáhald mitt, Nói albínói. Því miður eru þær vart fleiri, þó að smekkur manna sé auðvitað jafn misjafn og þeir eru margir. Hins vegar fullyrði ég að þegar fram líða stundir muni Eldfjall ávallt vera nefnd í sömu andrá og þessar perlur. Hún er það góð, ég lofa ykkur því.

Nú ætla ég hins vegar að draga mig í hlé með að lofsyngja Rúnar og hans störf. Ég vil þó að sem flestir kynnist verkum hans og átti sig á því hversu magnaður listamaður er hér á ferðinni. Því hvet ég ykkur öll til þess að horfa á stuttmyndir hans, en tvær þeirra má sjá frítt á Youtube, og skella ykkur á Eldfjall í bíó. Þið sjáið ekki eftir því.

Síðasti bærinn:
http://www.youtube.com/watch?v=Oh7sQ4hPnyk

Smáfuglar:
http://www.youtube.com/watch?v=Hw5OAPjrVkI

Latest posts by Árni Grétar Finnsson (see all)

Árni Grétar Finnsson skrifar

Árni Grétar hóf að skrifa á Deigluna í apríl 2011.