Land hinna týndu tækifæra?

Það er draumur marga að byggja upp atvinnurekstur. Fólk með frjóa hugsun og mikið verkvit gengur með góðar hugmyndir í maganum í von um að einn daginn verði þessar hugmyndir að arðbærum rekstri. Það er lykilhutverk stjórnvalda að vinna markvisst að því að skapa umhverfi þar sem bæði einstaklingar og fyrirtæki geta vaxið og dafnað

Það er draumur marga að byggja upp atvinnurekstur. Fólk með frjóa hugsun og mikið verkvit gengur með góðar hugmyndir í maganum í von um að einn daginn verði þessar hugmyndir að arðbærum rekstri. Gott dæmi um mann sem hefur lagt allt í sölurnar og náð langt á sínu sviði er Magnús Scheving. Einu sinni var Latibær bara lítið fræ í kollinum á Magnúsi, núna horfa milljónir barna um allan heim á sjónvarpsþátt sem predikar um heilbrigðan lífstíl – geri aðrir betur.

Umhverfi viðskiptatækifæra
Það er lykilhutverk stjórnvalda að vinna markvisst að því að skapa umhverfi þar sem bæði einstaklingar og fyrirtæki geta vaxið og dafnað. Er þetta verkefni ríkisstjórnarinnar (ásamt því að skapa gott velferðar- og menntakerfi) stærsta þraut stjórnvalda hverju sinni. Því miður búum við hér á landi við umhverfi sem felur í sér óvissu. Þessi óvissa hefur skapast vegna þeirra óskiljanlegu ákvarðana sem ríkisstjórnin hefur verið að taka síðustu misseri. Flestir skattar á bæði fyrirtæki og einstaklinga hafa hækkað og lagst hefur verið svo lágt að búa til nýja skatta.

Óvissuástand skapar þannig trega hjá aðilum sem hingað vilja koma og fjárfesta í mögulega arðbærum viðskiptahugmyndum. Þetta gerir það líka að verkum að allur samanburður við mat á viðskiptatækifærum getur reynst skakkur þar sem fólk ber saman tölur fyrri ára þegar umhverfið var betra og skattar og álögur ekki eins háar. Þessu verður að linna og íslensk stjórnvöld verða að fara að takast betur á við þennan vanda sem þau hafa að hluta skapað sér sjálf. Gullna reglan er sú að það er ekki stjórnvalda að skapa störfin – þau eiga að skapa umhvefi fyrir fyrirtæki og einstaklinga til að skapa störfin sjálf.

Bankarnir og lánsfé
Eins sorglega og það kann að hljóma má færa býsna góð rök fyrir því að það sé tæpast virkur banki starfandi á Íslandi. Rökin eru þau að bankarnir eru að hegða sér eins og innheimtustofnanir en ekki bankar. Vissulega mun taka tíma að byggja aftur upp traust og vel skipulagt bankakerfi og lexía hrunsins á auðvitað að vera sú að það sé betra að flýta sér hægt. En á sama tíma og bankarnir eru að tilkynna um góðan hagnað eru þeir ekki að lána nægilega mikið fé út í samfélagið á móti, alltof oft koma góðar hugmyndir inn á borð bankanna sem er synjað.

Niðurstaða
Það er grátlegt að hugsa til þess að á Íslandi, þar sem býr vel menntuð þjóð, með mikið hugvit og frjóa nýsköpun, þurfi að sætta sig við að búa í samfélagi þar sem ríkisstjórnin gerir allt sem í hennar valdi stendur til að íþyngja fyrirtækjum í rekstri og um leið hamla nýjum og spennandi sprotafyrirtækjum að verða að veruleika. Inn í þetta spilar svo tregi bankanna til að lána fyrir nýjum verkefnum sem leiðir til þess að framþróun í íslensku samfélagi er nánast engin. Það er dapurlegt að ímynda sér að í dag er fullt af fólki eins og Magnús Scheving með íþróttálfinn, gangandi um með hugmyndir sem í eðli sínu eru frábærar – samfélagið sem við höfum skapað okkur snýr bara baki við þeim.

Til að koma í veg fyrir að þetta verði svona til frambúðar er mikilvægt að stokka upp alla þá hugmyndafræði sem hér hefur verið ríkjandi síðustu ár. Ef hingað koma útlendingar með fjármagn er nánast undantekningarlaust tekið illa á móti viðkomandi og hann gerður ótrúverðugur eins og sást með Huang Nabo, þegar reynt var að tengja hann við stjórnmálaöfl í heimalandi hans, eitthvað sem hann sjálfur harmaði. Einnig verður að snúa blaðinu við og skapa hér umhverfi þar sem fyrirtæki geta blómstrað og gert vel við sig og sitt starfsfólk. Þetta mun taka tíma og hugarfarsbreytingu hjá samfélaginu öllu, taka þarf höndum saman hvort sem um ræðir stjórnvöld og Alþingi, aðila vinnumarkaðarins eða aðra hagsmunahópa – öll viljum við Íslandi vel – og nú er kominn tími til að sýna það í verki.