Tíu hlutir sem þú vissir ekki um Kim Jong-il

Allt sem þú vissir ekki um Kim-Jong-Il og meira til.

The Guardian birti á dögunum stórskemmtilegan og fróðlegan pistil sem innihélt 10 áhugaverðar staðreyndir um Kim Jong-il. Þar er ýmislegt áhugavert að finna, eins og sjá má hér að neðan.

1. Ekki er vitað hvenær og hvar þessi „Kæri leiðtogi“, eins og hann var kallður var fæddur. En sagan sem fjölskyldan hans sagði var að hann hefði fæðst árið 1942 í trjákofa föður síns á hinum heilaga stað í N- Kóreu, Mt Paektu. Atburðarrásin á að hafa verið með þeim hætti að Svala hafi sést á flugi sem boðberi vorsins og ný stjarna á að hafa skinið skært á himninum og tvöfaldur regnbogi sést skammt frá fæðingarstað hins verðandi leiðtoga.
Gögn sem Sovétmenn höfðu um málið voru önnur. Þau segja að leiðtoginn hafi fæðst árið 1941 í Síberíska þorpinu Vyatskoye.

2. Það fyrsta sem heimurinn sá af Kim Jong-il var snemma á áttunda áratugnum, nánar tiltekið á Möltu þar sem talið er að hann hafi verið í enskukennslu hjá forsætisráðherra Möltu, Dom Mintoff.

3. Þegar Kim Jong-il tók við stjórnartaumunum í N-Kóreu árið 1994 fékk hann fyrsta af yfir 200 opinberum titlum sínum. Á meðal þessara tvö hundruð titla voru t.d. „Hin leiðandi stjarna 21. aldarinnar“ , „Dýrlegi hershöfðinginn sem kom af himnum ofan“ , „Hinn ótrúlegi stjórnmálamaður“ , „ávallt sigursæli, járnharði foringi“ og að lokum „ Hin hæsta holdgun og flokksmaður ástarbyltingarinnar.

4. Þegar fyrsti golfvöllurinn í Pyongyang opnaði árið 1994, varð Kim Jong-il að sjálfsögðu þess heiðurs aðnjótandi að spila fyrsta hringinn. Þegar hann kom inn í golfskálann að skrifa undir skorkortið kom í ljós að á því stóð að hann hafi farið völlinn á 38 höggum undir pari, þar á meðal hafi hann farið ellefu sinnum holu í höggi. Til vitnis um þetta mikla afrek voru allir sautján einkalífverðir hins kæra leiðtoga.

5. Þegar N-Kórea byrjaði að prófa sig áfram með kjarnorkuvopn árið 2006, hertu yfirvöld í Bandaríkjunum á viðskiptabanninu við N-Kóreu. Til að koma höggi á Kim Jong-il bönnuðu BNA 60 lúxusvörur sem einræðisherrann hafði sérstakt dálæti á. Þar á meðal voru hlutir eins og snekkjur, Chanel No.5 ilmurinn og sjaldgæf frímerki.

6. Yfirvöld í Bandaríkjunum bönnuðu líka sjónvörp með skjái stærri en 29 tommur. Það var önnur tilraun Bandaríkjamanna til að hafa áhrif á lífstíl Kim Jongs-il. Hann var einnig mikið kvikmyndanörd og átti stórt DVD safn sem talið er að hafi spannað 20.000 kvikmyndir. Hans uppáhaldsmyndir voru Rambo, Friday the 13th og allt sem Elizabeth Taylor gerði.

7. Árið 1978 á Kim jong að hafa fyrirskipað mannrán á frægum Suður-kóreskum kvikmyndamanni Shin Sang-ok og konunni hans Choi Eun-heeso svo þau myndu búa til sósíalíska útgáfu af Godzilla, einni af uppáhalds myndum hans.

8. Ermanno Furlanis, ítalskur kokkur sem starfaði eitt sinn fyrir Kim Jong-il persónulega, skrifaði bók um reynslu sína þar sem fram kom að honum hefði verið skipað að skera sashimi úr lifandi fiski og aldrei að setja ansjósur á pizzur. Hann var einnig sendur til Uzbekistan til að kaupa kavíar, Danmerkur til kaupa svínakjöt, Kína til að kaupa greip og til Thailands til að kaupa mangó og papaya. Fyrrverandi persónulegur læknir hans sagði einnig að lið 200 hundruð vísindamanna ynnu fyrir hann til að þróa hinn fullkomna matarkúr til að tryggja að hann lifði lengra lífi. Sá matarkúr virðist ekki hafa heppnast mjög vel.

9. Árið 2000 var nýr matur kynntur fyrir Norður-Kóreubúum ,,skapaður“ af Kim-Jong-il og kallaðist ,,Gogigyeobbang“. honum var lýst sem ,,tvöföldu brauði með kjöti“ en hafði hið kunnuglega útlit hefðbundins hamborgara. Árið 2006 var önnur bylting á sviði matargerðar kynnt að skipun Kim-Jong-il í viðleitni við að mæta matarskort: Ræktun risakanína.

10. Heimasíða á vegum ríkisstjórnarinnar staðhæfði að Kim-Jong þyrfti aldrei að pissa eða hafa hægðir. Þessi staðhæfing var þó síðar fjarlægð.

Af þessum staðreyndum má sjá að fyrrum leiðtogi N-Kóreu hlýtur að hafa verið einhvers konar guðleg vera. Þessi upptalning er þó mun frekar dæmi um þá klikkun og kúgun sem er að finna í einræðisríkinu N-Kóreu.

Þess þarf örugglega ekki að bíða lengi að lesa álíka staðhæfingar um son hans sem nú hefur tekið við af föður sínum, Kim-Jong-Un, og er samkvæmt ríkisfjölmiðlum N-Kóreu álíka fullkominn og faðir hans.