Afl til góðs

Allt frá lokum Kalda Stríðsins hefur Atlantshafsbandalagið – NATO – reynt að endurskilgreina og réttlæta eigin tilveru án þess að mikil sannfæring hafi legið að baki. Nýlegar og velheppnaðar aðgerðir þess i Líbíu, lögfestar með ályktunum Öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna, virðast þó vera að hleypa nýju sjálfstrausti í bandalagið. Tilvera þess virðist trygg um ókomna tíð. Sem aðilar að því eiga Íslendingar að vera stoltir og glaðir.

Þegar þetta er ritað er einn langlífasti og harðsvíraðasti einvaldur heim á flótta undan réttvísinni. Muammar Gaddafi hefði ekki getað órað fyrir því fyrir ári síðan að innan árs hefði honum verið steypt af stóli í einni mögnuðustu fjöldahreyfingu frelsis og lýðræðis sem heimurinn hefur séð, og líklega þeirri mestu síðan byltingarnar í einræðisríkjum Austur-Evrópu áttu sér stað fyrir réttum tuttugu árum síðan.

Arabavorið svokallaða, sem hófst í Túnis í Janúar og breiddist fljótt út til nágrannaríkjanna í Norður-Afríku og annars staðar í Miðausturlöndum, hefur nú leitt til þess að þremur gjörspilltum og harðsvíruðum einræðisherrum hefur verið komið frá völdum, og skapað jarðveg fyrir framþróun í nafni lýðræðis og mannréttinda í þeim heimshluta sem þarfnaðist hans hvað sárast. Ekki sér enn fyrir endann á Arabavorinu.

Um tíma leit út fyrir að sá þaulsetnasti og harðsvíraðasti af alvöldum Norður-Afríku næði að kveða niður andófsraddirnar með afleiðingum sem hefðu orðið hræðilegar fyrir fjöldann allan af saklausu friðelskandi borgurum sem þráði ekkert annað en að geta lifað og andað sem frjálsir einstaklingar. Eftir ákall uppreisnarmanna í annarri stærstu borg Líbíu og vígi uppreisnarmanna, Benghasi, þegar hermenn Gaddafis stóðu nánast við borgarhliðin ákvað Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna að samþykkja ályktun númer 1973 þann 11. mars síðastliðinn, sem kvað á um flugbann yfir Líbíu sem er þó lítið annað en saklaus lýsing á lofthernaði gegn hvers kyns tilraunum Gaddafi til að herja á eigin borgurum, auk kröfu um vopnahlé, frystingar á eignum Líbíustjórnar og fleira sem dregur kraftinn úr ólögmætum aðgerðum einræðisherrans. Slíkar aðgerðir hófist nær samstundis í kjölfarið, og voru Frakkar fyrstir til að beita afli sínu í þágu ályktunarinnar.

Ályktunin tilgreinir ekki Atlantshafsbandalagið sem þann aðila sem beri að framfylgja ályktuninni, heldur er aðildaþjóðum SÞ gefið svigrúm til að samhæfa aðgerðir sínar og bjóða fram herafla til þess. Fljótlega beindust þó sjónirnar að Bandaríkjunum og helstu bandamönnum þeirra, Bretum og Frökkum, um sjá til þess að ályktuninni yrði framfylgt, enda öll fastir meðlimir Öryggisráðsins og greiddu atkvæði með henni. Hið augljósa í stöðunni var að láta Atlantshafsbandalagið samræma aðgerðirnar gegn Líbíustjórn, og gekk það eftir þann 31. mars, þegar Anders Fogh Rasmussen, aðalritari NATO tilkynnti að það hefði fengið umboð til þess. Nú á haustmánuðum er beinum aðgerðum að ljúka, enda stjórnin fallin, Gaddafi í felum og einungis fáir litlir pokar hermanna hliðhollir honum sem enn berjast af óskiljanlegri þrjósku. Og einni árangursríkustu aðgerð NATO á enda komin.

Allt frá upplausn Varsjárbandalagsins og falli Sovétríkjanna árið 1991 hefur Atlantshafsbandalagið reynt að endurskilgreina og réttlæta eigin tilveru. Bæði gagnvart sjálfu sér, þegnum þeirra ríkja sem bandalagið mynda, og þeim ríkjum sem utan þess standa. Þegar sú ógn, sem fólst í mögulegu uppgjöri risaveldanna, með Evrópu sem aðalleikvang, fjaraði út hlaut eðli þess að breytast. Og 1993 hlaut það sitt fyrsta verkefni í umboði ályktunar Sameinuðu Þjóðanna um flugbann yfir Bosníu og Herzegóviníu, og seinna, í kjölfar undirskriftar Dayton samkomulagsins frá 1995 umboð til hernaðaraðgerða til að framfylgja alþjóðlega viðurkenndum sáttmála. Réttum hálfum áratug síðar, í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september, var 5. ákvæði varnarsáttmálans, um að árás á einn meðlim jafngilti árás á þá alla, virkjuð og hernaðaraðgerðir í yfirumsjón Nató hófust í Afganistan stuttu seinna.

Aðgerðir NATO í Bosníu og Afganistan hafa þó sætt gagnrýni fyrir margar sakir. T.a.m. fyrir óeðlilega mikið mannfall saklausra borgara og fyrir það að hafa dregist á langinn. Aðgerðirnar í Afganistan eru á sínu tíunda ári svo versta dæmi sé tekið. Efasemdaraddir hafa því að sjálfsögðu vaknað um tilveru bandalagins. Hve mikinn rétt það hefur til aðgerða af þeim toga sem það hefur ráðist í. Þrátt fyrir það er líklega mikill meirihluti fólks í aðildalöndum bandalagsins sem styður bæði það og veru landsins síns í því. Hið sama gildir líklega um Íslendinga. Þó er að sjálfsögðu hópur fólks sem andæfir því. Vill landið úr bandalaginu og enga þáttöku Íslands í aðgerðum af þeim toga sem fóru fram í Norður-Afríku. Hópur sem í barnaskap sínum heldur að samskipti þjóða heims verði eftirleiðis eins og fallegt ævintýri úr smiðju H.C. Andersen, og að ill öfl geti ekki á ný skapað raunverulega ógn gagnvart þeim lýðræðissinnuðu þjóðum sem bandalagið mynda, og alþjóðasamfélaginu öllu, hvort sem þau heita Sovétríkin eða Al-Kaída. Þessar raddir eiga sér samsvarandi raddir annars staðar innan aðildaríkjanna.

En hinar nýlegu og velheppnaðu aðgerðir bandalagsins í Líbíu, sem lögfestar með ályktun Öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna, sem tóku rétta fjóra mánuði og með lágmarks mannfalli saklausra borgara, virðast þó vera að þagga niður í óánægjuraddirnar og hleypa sjálfstrausti í bandalagið. Tilvist þess er líklega trygg um ókomna tíð. Ekki bara sem verkfæri til samþættingar gegn sameiginlegri ógn, heldur sem verkfæri til að framfylgja ályktunum Öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna og hvers kyns löglegum alþjóðlegum friðarsamþykktum sem á endanum gera heiminn betri og friðsælli en áður. Sem meðlimir eiga Íslendingar að vera stoltir og glaðir af veru sinni í NATO.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.