Menntun og menning í Ekvador

Því hefur gjarnan verið haldið fram að Íslendingar kunni ekki með áfengi að fara og að drykkjumenning landans sé til háborinnar skammar. Það hefur þó aldrei, allavega ekki svo ég muni eftir, verið sett á áfengisbann til skamms tíma vegna slæmrar drykkjumenningar, en slíkt bann hefur nú verið sett á hér í Ekvador þar sem ég bý.

Því hefur gjarnan verið haldið fram að Íslendingar kunni ekki með áfengi að fara og að drykkjumenning landans sé til háborinnar skammar. Það hefur þó aldrei, allavega ekki svo ég muni eftir, verið sett á áfengisbann til skamms tíma vegna slæmrar drykkjumenningar, en slíkt bann hefur nú verið sett á hér í Ekvador þar sem ég bý.

Meginástæða áfengisbannsins er sú að eitrað brennivín er í umferð og hafa fleiri en 20 manns látist af völdum neyslu þess. Það virðist þó einungis hafa verið tímaspursmál hvenær yfirvöld myndu gera tilraun með að banna áfengi með öllu í fleiri en 24 tíma, en hér er stranglega bannað að selja (og neyta) áfengi á sunnudögum. Áfengisneysla Ekvadora mun seint teljast hófleg og fylgja neyslunni margvísleg samfélagsleg vandamál, á borð við alvarlega ofbeldisglæpi og ótímabær dauðsföll ungs fólks. Yfirvöld hafa því löngum viljað ná einhverri stjórn á drykkju almennings og gera nú tilraun til þess í fyrsta skipti. Ég gæti ekki verið meira ósammála aðferðafræðinni.

Að sjálfsögðu er það grafalvarlegt mál ef eitrað og banvænt brennivín er í umferð. Það virðist þó hingað til nokkuð staðbundið við héraðið Los Ríos og lagt hefur verið hald á mörg þúsund lítra, en undarlegast í þessu öllu er þó það að aðeins einn einstaklingur hefur verið handtekinn. Hvar liggur hundurinn grafinn? Jú, hjá spilltum yfirvöldum, lögregluþjónum og embættismönnum. Og já, líka í „la mala educación.“

„La mala educación“ gæti í þessu samhengi útlagst á íslensku sem þekkingarleysi, og hefur bæði með óformlega og formlega menntun að gera sem og menninguna. Eins elskulegir og Ekvadorar eru upp til hópa er samfélagsvitundin sama sem engin og sést það best á þessum tilviljanakenndu dæmum:

a) Ef þér er mjög illa við einhvern þá geturðu hæglega leigt þér leigumorðingja sem mun drepa „óvininn“ þinn fyrir 50 dollara
b) Að fara í röð? Hvað er það? Sá sem er bestur í að troðast kemst fremst og fyrst að!
c) Tillitssemi. Það er í lagi að spila salsatónlist, já eða kirkjutónlist ef því er að skipta, mjög hátt, hvort sem það er á fimmtudagskvöldi eða sunnudagsmorgni. Fer það í taugarnar á nágrönnunum? Hverjum er ekki sama?

Það leysir engin samfélagsleg vandamál að banna áfengi í 72 klukkutíma. Það mun heldur ekki koma í veg fyrir að eitrað áfengi komi aftur á markaðinn eða haldi jafnvel áfram að vera til staðar. Að minnsta kosti ekki á meðan að virðingin fyrir mannslífum er ekki meiri, umburðarlyndi og tillitssemi af jafnskornum skammti og jafnauðvelt er að múta lögreglumönnum og dómurum.

Það þarf aðra aðferðafræði en boð og bönn. Það þarf að mennta þjóðina og það þarf aðra nálgun á hlutina af hálfu stjórnvalda. Ekvadorar þurfa líka að hætta að greina öll samfélagsmein með svarinu: „Es la cultura“ eða „Þetta er menningin“ því menningunni má nefnilega breyta.

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.