Sátt í sjávarútvegi ?

Margir eru þeir sem koma fram og vilja sjá sátt í sjávarútvegi, þó er það æði misjafnt hvað menn telja að felist í þeim orðum. Því er ekki svo galið að velta upp þeirri spurningu, í hverju felst sú sátt og er yfir höfuð hægt að skapa sátt um sjávarútvegsmálin á Íslandi ?

Margir eru þeir sem koma fram og vilja fá sátt í sjávarútvegi, þó er það æði misjafnt hvað menn telja að felist í þeim orðum. Því er ekki svo galið að velta upp þeirri spurningu, í hverju felst sú sátt og er yfir höfuð hægt að skapa sátt um sjávarútvegsmálin á Íslandi ?

Grundvallarstjónarmið sem flestir hljóta að vera sammála um er að stuðla að vernd nytjastofna á Íslandsmiðum og tryggja hagkvæmni í nýtingu þeirra. Flestir vilja einnig tryggja atvinnu og byggð, sumir jafnvel þannig að atvinna við fiskveiðar eða vinnsla í landi sé bundin við ákveðin sveitarfélög eða landssvæði. Mesti ágreiningurinn er samt í raun og veru um hverjir eigi að njóta góðs af veiðunum.

Er æskilegt að sumir græðir meira, er betra að allir græði jafn mikið en þá minna, er skynsamlegast að fara þá leið sem skilar mestu í þjóðarbúið? Eiga fiskveiðar kannski yfir höfuð ekki að vera fyrst og fremst hagkvæmar, heldur tæki til tryggja byggð og atvinnu í ákveðnum byggðarlögum? Var rangt að gefa kvótann í upphafi? Hefði jafnvel átt að bjóða kvótann út? Á kvótinn að vera í ríkiseign, mynda ófullkominn eignarrétt eða skal ganga skrefið til fulls og viðurkenna eignarrétt kvótaeiganda? Er mikilvægara að fá sem mest fyrir fiskinn eða að sem flestir fá tækifæri til að veiða? Er mikilvægara að skapa atvinnu og gjaldeyristekjur eða vernda nytjastofna við Ísland? Er betra að markaðurinn og eignarrétturinn stjórni þróun mála eða eiga allar ákvarðanir að vera teknar af ráðherrum og opinberum stofnunum? Er sanngjarnt að innkalla veiðiheimildir sem einstaklingar og fyrirtæki hafa fjárfest í? Er sanngjarnt að þau byggðarlög sem hafa blómstrað og ekki selt frá sér kvóta eigi að missa kvóta til þeirra byggðarlaga sem standa eftir kvótalaus? Eiga þeir sem seldu kvótann að græða en þeir sem keyptu hann að tapa? Og er sanngjarnt að svo fáir fá að halda til veiða og nýta auðlindina?

Staðreyndin er sú að hér um takmörkuð gæði að ræða, sem í þokkabót geta skilað þeim sem eiga, nýta eða vinna gífurlegum fjárhæðum. Skiljanlega er stjórn fiskveiða því mjög umdeild og margir sem vilja fá sinn hlut í hagnaðinum, en er það ekki tilfellið með flest takmörkuð gæði? Hið sorglega er að þeir sem koma til með að ákveða hvernig stjórn fiskveiða skuli háttað á Íslandi munu líklegast alltaf reyna að gera of mörgum til geðs, sem er einfaldlega óraunhæft og jafnvel barnalegt. Hættan er því sú að komið verði á kerfi sem er óskilvirkt og á endanum ekki til hagsbóta fyrir neinn.

Latest posts by María Guðjónsdóttir (see all)

María Guðjónsdóttir skrifar

María hóf að skrifa í Deigluna í júlí 2008.