Gullkynslóð íslenskrar knattspyrnu

Í dag hefst lokakeppni Evrópumóts landsliða í knattspyrnu, skipað leikmönnum 21 árs og yngri. Í fyrsta sinn eigum við Íslendingar lið á slíku móti.

Í dag hefst lokakeppni Evrópumóts landsliða í knattspyrnu, skipað leikmönnum 21 árs og yngri. Í fyrsta sinn eigum við Íslendingar lið á slíku móti.

Það merkilega við þetta U-21 landslið Ísland er að þeir minna ekkert á íslenskt landslið. Þvert á móti geta þeir, á góðum degi, minnt meira á eitthvað erlent stórlið, svo góðan fótbolta geta þessir ungu drengir spilað.

Þessi hópur hefur oft verið nefndur gullkynslóðin síðan hann náði þessum frábæra árangi að komast á lokamótið í Danmörku. Það er svo sem ekki nema von því í hópnum eru 5-6 leikmenn sem eru virkilega efnilegir og hafa hæfileika til að ná langt í hörðum heimi knattspyrnunar.

Í liðinu sem mætir til leiks á EM eru samt engir smástrákar, þó þeir séu ungir, þá eru þetta flest allt atvinnumenn og hafa sumir verið það í nokkur ár. Leikmenn eins og Aron Einar, Eggert Gunnþór, Gylfi Þór, Kolbeinn Sigþórs og Jóhann Berg spila allir reglulega með félagsliðum sínum í stórum deildum og eru því reynslumiklir ásamt því að vera virkilega frambærilegir knattspyrnumenn.

Eins og okkur íslensku þjóðinni sæmir gerum við gríðarlega miklar kröfur til þessara ungu drengja um að standa sig í Danmörku. Þessar væntingar minna einna helst á Eurovision heilkennið sem við Íslendingar fáum einu sinni á ári.

U-21 landsliðið hefur alla burði til að standast þessar væntingar og gott betur, hins vegar verður að hafa það í huga að mótið í Danmörku er mjög strembið og ein lítil mistök geta verið dýrkeypt. Það eru aðeins átta þjóðir á mótinu (undirstrikar hversu mikið afrek það er að komast á mótið) og skiptast þær í tvo riðla. Íslendingar leika með Hvít Rússum, Dönum og Svisslendingum í riðli. Í hinum riðlinum, sem almennt er talinn sterkari, eru þjóðir eins og Tékkland, England og Spánn, allt fyrnasterk lið. Það væri því glæsilegur árangur ef ísenska liðinu tækist að komast upp úr riðlinum sínum og spila þá í unanúrslitum mótsins.

En ef íslenska liðið nær sér ekki á strik og veldur ,,vonbrigðum” á mótinu er mikilvægt að skoðuð sé heildarmyndin. Liðið braut blað með því að komast á stórmót og lögðu þar risavaxnar fótboltaþjóðir að velli, t.d. Þjóðverja, til að ná því markmiði. Ef þróunin heldur áfram og Ísland heldur áfram að framleiða leikmenn eins og Kolbein og Gylfa eru ágætis líkur á því að Ísland gæti komist á stórmót í A- landliði karla í framtíðinni. Það er loka takmarkið!

Góða skemmtun og Áfram Ísland!