Margur verður af aurum útskúfaður

Fjölmiðlar fluttu fréttir nýlega af launum tveggja bankastjóra. Í bræðiskasti komu nokkrir stjórnarþingmenn fram með galnar hugmyndir um 70-80% skatt á laun yfir eina milljón króna. Blindaðir af heift út í einstaka bankamenn leggja þeir til að öllum þeim sem háar tekjur hafa verði refsað í staðinn.

Fjölmiðlar fluttu fréttir nýlega af launum tveggja bankastjóra. Í bræðiskasti komu nokkrir stjórnarþingmenn fram með galnar hugmyndir um 70-80% skatt á laun yfir eina milljón króna. Blindaðir af heift út í einstaka bankamenn leggja þeir til að öllum þeim sem háar tekjur hafa verði refsað í staðinn.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, hefur gengið hvað harðast fram með þessar hugmyndir ásamt Ólínu Þorvarðardóttur og Sigmundur Ernir Rúnarsson hefur einnig tekið undir þær. Lilja var í Silfri Egils í gær þar sem hún lét þau orð falla að ef stjórnmálamönnum blöskraði þau laun sem verið væri að borga í samfélaginu, gætu þeir alltaf beitt skattlagningu til að jafna allt út.

Hér er Lilja í raun að hóta því að allir þeir sem vogi sér að komast í góð störf og fá laun í samræmi við það munu ekki fá að njóta þess. Í þessum hugmyndum kristallast sú stefna núverandi stjórnvalda að allir skulu hafa það jafn skítt og enginn megi hafa það betur en annar.

Þetta er ekki fyrsta sinn sem núverandi stjórnvöld hóta launafólki í bræði sinni og hefur áður verið fjallað um hér á Deiglunni. Það eru nokkrir mánuður síðan að Ögmundur Jónasson sagði að þeim einstaklingum sem væri illa við skattahækkanir ríkisstjórnarinnar væri velkomið að flýja land. Á svipuðum tíma talaði Álfheiður Ingadóttir um að laun íslenskra lækna væru alltof há og að það þyrfti að gera eitthvað í því.

En aftur að hugmyndum Lilju og félaga um ofurskatt á það sem þau vilja kalla ofurtekjur. Hverjir eru það sem eru með þessar ofurtekjur? Flest af því fólki sem fær yfir milljón í laun á mánuði er harðduglegt fólk sem vinnur fyrir laununum sínum, til dæmis sjómenn. Þessu fólki vilja stjórnvöld refsa.

Margt af þessu kemur frá þeirri fáránlegu hugmynd að enginn í opinbera geiranum skuli hafa hærri laun en forsætisráðherra. Þetta er einfaldlega slæm hugmynd. Lilja Mósesdóttir sagði í áðurnefndu Silfri Egils að hún hafi vonast til að það myndi smitast yfir í einkageirann en þar sem það hafi ekki gerst þurfi að bregðast við því. Það er bara ekkert annað.

Þá komum við aftur að þeirri spurningu sem enginn þorir að spyrja: “Af hverju má fólk ekki fá há laun?”. Ef fyrirtæki vill borga starfsmönnum sínum há laun, hvað með það? Það kemur Lilju einfaldlega ekkert við, hvort að útgerðarmaður geti greitt háseta sínum laun sem sprengja staðlana hennar um hvað eru of há laun.

Það er ekki stjórnmálamanna að ákveða hvað eðlilegt sé að fólk sé með í laun og hóta því að hafa af fólki launin þeirra með sköttum ef einhver dirfist að hafa laun sem eru ekki yfirvöldum þóknanleg. Maður veltir því fyrir sér hvort núverandi stjórnvöld vilji að allir hafi sömu ráðstöfunartekjur, ef einhver fær hærri laun verður hann einfaldlega að borga hærra hlutfall af launum sínum í tekjur þangað til að hann er kominn á sama stað og þeir sem minnst hafa milli handanna. Þetta er út í hött. Svo ekki sé minnst á hversu vinnuletjandi svona fyrirkomulag er og hve mikið það hvetur til skattsvindls.

Það er hættulegt að taka ákvarðanir blindaður af heift. Það er ótrúlegt að samfélag okkur hafi á stuttum tíma orðið þannig að fólkið í landinu er varnarlaust gagnvart geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna sem láta populisma hlaupa með sig í gönur.

Íslensku samfélagi í dag er best lýst með dráttarklárum sem draga þungan vagn. Dráttarklárarnir eru millistéttin í landinu sem hefur ágætis tekjur og ræður við að borga af lánunum sínum, enn sem komið er. Klárarnir eru hins vegar alveg að sligast enda er þeim ætlað að draga lestina fyrir alla hina. Stjórnvöld sitja svo upp á vagninum og leika sér að því að skjóta klárana einn af öðrum.

Á endanum verður enginn klár eftir til að draga vagninn, hvar verðum við þá?

Pælum í því.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.