Hið furðulega réttarkerfi íslenska lýðveldisins

Á Íslandi komast dómstólar stundum að furðulegum niðurstöðum. Í ljósi þess að pistlahöfundur er ekki löglærður mun þessi pistill einungis fjalla um það hvernig dómar koma almenningi stundum einkennilega fyrir sjónir. Til að fá nokkuð skýran samanburð skulum við annars vegar skoða mál sem hefur fengið mikla athygli í fjölmiðlum, mál Baldurs Guðlaugssonar fyrrum ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu og hins vegar tvo nýlega dóma sem fallið hafa í ofbeldismálum.

Á Íslandi komast dómstólar stundum að furðulegum niðurstöðum. Í ljósi þess að pistlahöfundur er ekki löglærður mun þessi pistill einungis fjalla um það hvernig dómar koma almenningi stundum einkennilega fyrir sjónir. Til að fá nokkuð skýran samanburð skulum við annars vegar skoða mál sem hefur fengið mikla athygli í fjölmiðlum, mál Baldurs Guðlaugssonar fyrrum ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu og hins vegar tvo nýlega dóma sem fallið hafa í ofbeldismálum.

Byrjum umfjöllunina á málefnum Baldurs. Baldur er sakaður um að hafa misnotað innherjaupplýsingar við sölu á bréfum sínum í Landsbankanum þremur vikum áður en bankinn hrundi haustið 2008. Við söluna er sagt að hann hafi hagnast um 192 milljónir. Ákæran á hendur Baldri er sú fyrsta sem sérstakur saksóknari, Ólafur Þór Hauksson, leggur fram frá því að hann tók til starfa. Pistill þessi er ekki ritaður í þeim tilgangi að reyna að skera úr um sekt eða sakleysi Baldurs, heldur verður öllu heldur bent á fáranleika þess að settur saksóknari í málinu, Björn Þorvaldsson, geri þá kröfu að Baldur verði látinn sæta tveggja ára fangelsi hið minnsta. Einhverjum kann að finnast tveggja ára fangelsi léttvæg refsing, og það má vel vera, en að undanförnu hafa fallið dómar í tveimur ofbeldismálum þar sem dæmdar refsingar hafa verið svo fráleitar að mann skortir hreinlega orð.

Skoðum þessi tvö ofbeldismál aðeins nánar.

Fyrra málið snýr að manni á fertugsaldri. Hann var sakfelldur fyrir að hafa veist að mágkonu sinnu með ofbeldisfullum hætti í viðurvist barna sinna – grípum niður í gögn um málið:

,, Maðurinn hafi komið inn á heimilið til að sækja eiginkonu sína, en hún hafði dvalið hjá systur sinni vegna ósættis þeirra. Til rifrildis kom á milli mannsins og mágkonu hans sem endaði með átökum. Maðurinn beit konuna, sló hana nokkur hnefahögg í andlit og líkama og snéri upp á fingur hægri handar þannig að hún fingurbrotnaði. Hún hlaut einnig rifbrot og töluverða yfirborðsáverka”.

Forsagan að málinu er sú að eiginkona mannsins falið sig fyrir eiginmanni sínum. Hún leitaði skjóls hjá systur sinni en þegar maðurinn komst á snoðir um ferðir hennar var hann ekki lengi að knýja að dyrum. Þegar mágkonan vildi ekki hleypa honum inn réðst hann á hana með fyrrnefndum hætti. Maðurinn lét reyndar ekki þar við sitja heldur lumbraði einnig á eiginmanni mágkonunar sem reyndi að skakka leikinn og endaði hann rifbeinsbrotinn, með mar á höfði eftir að sá ákærði hafði skallað hann. Héraðsdómur taldi að allt framangreint væri sannað í málinu og dæmdi manninn í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi! Niðurstaðan er því sú að hinn ákærði þarf ekki að sitja einn einasta dag í fangelsi fyrir þessi hrottalegu ofbeldisverk.

Seinna dæmið er öllu grófara en það fyrra en þar segir frá tveimur mönnum sem hreinlega sviptu annan einstakling fresli sínu og pynduðu hann í heila nótt. Í frétt sem vefmiðillinn pressan.is birtir um málið segir orðrétt:

,, Í ákærunni segir að fórnarlambið, karlmaður, hafi komið sjálfviljugur á vettvang. Var það klukkan 21 aðfararnótt sunnudagsins 9. ágúst 2009, en þeir slepptu honum ekki fyrr en klukkan 9 morugninn eftir. Þar hafi mennirnir ógnað honum með hnífi, látið hann setjast í stól og vafið kaðli utan um líkama hans og og hert að hálsi þannig að hann átti erfitt með andardrátt. Síðan hafi þeir barið hann með ryksöguröri í andlitið.
Á meðan frelsisviptingunni stóð spörkuðu þeir ítrekað í manninn og slógu með járnröri eða öðru barfefli. Blóðugri sprautunál var stungið í eyrnasnepil mannsins með þeim afleiðingum að hann smitaðist af lifrarbólgu C.
Einnig segir að mennirnir hafi klipið manninn með flísatöng víðsvegar í handleggina, skvett yfir hann heitu kertavaxi, kastað af sér þvagi yfir hann, hellt áfengi yfir hann og að því loknu hent á hann logandi pappír. Að öllu þessu loknu neyddu þeir manninn til að þrífa húsnæðið, meðal annars að vaska upp og þrífa baðherbergi.”

Eftir þessa framgöngu alla saman myndi maður ætla að mennirnir tveir myndu fá að dúsa lengi á bak við lás og slá, slík er illskan í verkum þeirra. Héraðsdómur var þó ekki á sama máli og dæmdi mennina tvo, í 20 og 30 mánaða fangelsi!

Núna er rétt að rifja upp að fangar geta hlotið reynslulausn eftir 2/3, stundum jafnvel ½, af fangavistinni fyrir góða hegðun og er það nokkuð algengt. Af þeim sökum gæti annar aðilanna sem frömdu síðara voðaverkið verið laus eftir 10-15 mánaða fangavist. Þetta er eins fráleitt og það getur orðið.

Á sama tíma er maður á borð við Baldur Guðlaugsson, sakaður um að hafa selt hlutabréf ólöglega vegna þess að hann hafi búið yfir upplýsingum sem sjálfur bankastjóri Landsbankans á þeim tíma taldi ekki til innherjaupplýsingar. Þess er krafist að Baldri verði dæmd fangelsisrefsing í tvö ár hið minnsta fyrir sinn ,,glæp”. Er sekt Baldurs, ef sönnuð verður, virkilega alvarlegri en mannsins sem ruddi sér leið inn á heimili mágkonu sinnar og lúbarði hana og mann hennar fyrir framan börn? Eða jafnvel jafnslæm eða verri en menn sem hreinlega rændu manni yfir heila nótt og gengu svo illa í skrokk á honum að það minnti hreinlega á pyndingar í Abu Ghraib fangelsinu, ef ekki verra? Hér er eitthvað að, réttarkerfið okkar getur ekki verið svona hryllilega illa uppbyggt.

Á þessum tímapunkti iða líklega flestir lögfróðir menn sem lesa þennan pistil í skinninu, og þrá fátt heitar en að svara hinum almenna, ólöglærða borgara sem ekki hefur hundsvit á réttarkerfinu. Þeir munu líklega ræða um ástand hinna ákærðu er þeir frömdu glæpina eða skelfilega reynslu þeirra úr æsku sem hafa ætti refsilækkandi áhrif. Því næst verður örugglega vísað í hinar og þessar rannsóknir þar sem ,,sannað” hefur verið að skömm refsivist sé betri en löng. Undirritaður veit mætavel að þetta getur allt saman átt fullkomlega við en á móti kemur þó að frelsi fylgir ábyrgð – á meðan refsingar fyrir hrottalega ofbeldisglæpi eru jafn hlægilega lágar og raun ber vitni er næsta víst að fælingarmáttur refsinga verður enginn og ofbeldisglæpum mun ekki fækka á komandi árum – ofbeldismennirnir eru hreinlega komnir of fljótt aftur, út á meðal almennings.