Síðastliðinn laugardag fóru fram þriðju frjálsu kosningar í Lettlandi síðan 1993. Lettnenskt stjórnmálalíf er sviptivindasamt þar sem flokkar og stjórnmálamenn koma og fara og hafa verið myndaðar níu ríkisstjórnir á þessu tímabili. Það kann því að teljast þversagnakennd að stjórnmálaskýrendur telja stjórnarfarið þó vera nokkuð stöðugt þar sem allt þetta tímabil hafa hægrimenn farið með völd og uppbygging efnahagslífs, þessa fyrrum Sovét lýðveldis, verið stöðug og markviss.
Sigurvegari kosninganna var hinn nýji frjálshyggjuflokkur Einars Repse, Nýir tímar, sem fékk 23,93% atkvæði og 26 af 100 sætum á Lettneska þinginu, Saeima. Næststærsti flokkur landsins er Einingarflokkur vinstrimanna, Zaptjel, sem hlaut 18,94% atkvæða eða 24 þingsæti, er að hluta til gamli kommúnistaflokkurinn og sækir fylgi sitt að mestu leyti til rússnenska minnihlutans og er jafnframt eini vinstriflokkurinn á þinginu. Í þriðja sæti urðu hægrimennirnir í Flokki fólksins með 16,71% (21 þingsæti) og tilheyrði sá flokkur síðustu ríkisstjórn. Lettneska leiðin, flokkur núverandi forsætisráðherra, Andris Berzin, beið afhroð og náði ekki lágmarksfylgi sem er 5%.
Nýji sigurvegarinn, hinn 41 árs gamli Einars Repse, er um margt athyglisverður maður. Þrátt fyrir að hafa lært eðlisfræði en ekki hagfræði var hann gerður að seðlabankastjóra í Lettlandi árið 1991, aðeins þrítugur að aldri. Hans helsta verkefni sem seðlabankastjóri var að skipta út rússnesku rúblunni fyrir nýjan gjaldmiðil Letta, Lat. Efnahagslíf landsins stendur í blóma þar sem verðbólga er í lágmarki og er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði um 5% á þessu ári.
Fyrir tíu mánuðum lét Repse af embætti seðlabankastjóra og stofnaði flokkinn Nýir tímar. Meginstefna flokksins er barátta gegn spillingu, sem var farið að gæta verulega undir stjórn Berzin, og einnig skattalækkanir og almennur niðurskurður ríkisvaldsins. Repse hefur orð á sér fyrir að vera heiðarlegur og nýtur mikilla vinsælda eftir farsæla setu í seðlabanka landsins.
Talið er öruggt að Repse muni mynda ríkisstjórn með Flokki fólksins sem leiddur er af Skele, fyrrverandi forsætisráðherra, en einnig þarf hann á stuðningi Föðurlandsflokksins (sem var í síðustu ríkisstjórn) að halda, eða kristilega flokksins sem Eriks Jekabsons leiðir. Lettar munu því búa við áframhaldandi uppbyggingu efnahagslífsins undir handleiðslu hægrimanna.
Helstu verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður að leiða Lettland inn í Evrópusambandið og NATO. Nú í vikunni tilkynnti Evrópusambandið um stækkun þess árið 2004 og gert er ráð fyrir að Lettlandi verði, ásamt hinum Eystrasaltsríkjunum, boðin aðild að NATO á fundi bandalagsins í Prag í næsta mánuði.
Repse er í raun holdgervingur hinar nýju kynslóðar Lettlands og annara Eystrasaltsríkja. Ungt fólk, sem hefur hlotið háskólamenntun sína efir fall kommúnistans, hefur verið áberandi í stjórnunarstöðum fyrirtækja og ríkisivaldsins sem og hjá fjölmiðlum. Það að vera ekki nema 41 árs gamall forsætisráðherra og fyrrverandi seðlabankastjóri er því kannski ekkert óvenjulegt fyrir lettnenskt þjóðlíf.
- Millivegur - 23. apríl 2021
- Þak yfir höfuðið - 16. janúar 2021
- Góðærisvandamál? - 24. mars 2007