Að vera í takti við tímann

Nýleg skoðanakönnun sýnir að um helmingur landsmanna telur að rétt sé að samþykkja hugmyndina um að færa klukkuna aftur um eina stund. Það er hins vegar vafamál hvort spurningin um hvernig stilla eigi klukkuna sé undirorpin því hvaða skoðanir menn hafa á málinu.

Á myndunum sem fylgja þessum pistli má sjá hvernig var umhorfs fyrir utan heimili mitt þegar klukkan sagði 9 um morgun þann 10. janúar og þegar klukkan sagði að hún væri 10. Tillaga Guðmundar Steingrímssonar og fjórtán annarra þingmanna um að seinka klukkunni um eina klukkustund myndi hafa það í för með sér að síðari myndin sýndi birtuna klukkan níu að morgni. Það er erfitt að mæla gegn því að fyrri myndin lítur út fyrir að vera tekin um nótt en hin síðari lítur út fyrir að vera tekin þegar byrjað er að morgna.

Birta í Reykjavík að morgni 10. janúar 2011
Nýleg skoðanakönnun sýnir að um helmingur landsmanna telur að rétt sé að samþykkja hugmyndina um að færa klukkuna aftur um eina stund. Það er hins vegar vafamál hvort spurningin um hvernig stilla eigi klukkuna sé undirorpin því hvaða skoðanir menn hafa á málinu. Hvorki Alþingi Íslendinga eða Capacent hafa nefnilega ennþá náð að sölsa undir sig stjórn á gangi himintunglanna. Staðreyndin er sú að klukkan á Íslandi er vitlaust stillt. Það er staðreynd sem enginn ástæða er til þess að rífast um, ekki frekar en gagn er í því að rífast við fljót um hvort það skuli renna til hafs eða fjalla, eða við spegilinn um hvort maður sé smám saman að fá skalla.

Í landi þar sem dagar eru stuttir um vetur og langir um sumur er sú tímaskekkja sem við búum við sérlega ómanneskjuleg. Líkamsklukka flestra er stillt til þess að vekja okkur þegar birtir að morgni en færa okkur í svefnró þegar kvöldar. Flestum finnst þó erfiðara að vakna í myrkri á morgnana heldur en að halda sér vakandi í skammdeginu síðdegis.

Andrés Magnússon geðlæknir vakti athygli á því í grein í Fréttablaðinu 6. febrúar 2010 að það geti stuðlað að skammdegisþunglyndi þegar misræmi er milli hinnar innri klukku líkamans og opinberrar klukku samfélagsins. Hann vakti athygli á því að þegar íslensk börn eru dregin í skóla, þegar ungfrú klukka galar átta, þá segi líkamsklukkan þeim að klukkan sé hálfsjö að morgni. Breytingin sem þingmennirnir leggja til myndi eflaust ekki duga til þess að fullnægja þeim sjónarmiðum sem Andrés setur fram, en væri þó skref í rétta átt.

Nú er klukkan í Reykjavík einum og hálfum tíma of fljót, en með breytingunni yrði hún hálftíma of fljót. Allteins góð rök mætti færa fyrir því að seinka klukkunni um tvær klukkustundir eins og um eina – hún væri jafnvitlaus, bara í hina áttina. Þá myndi bjartari myndin hér að ofan sýna aðstæður klukkan átta að morgni. Væri ekki svei mér gaman fyrir börnin að skottast í skólann í þvílíkri birtu?

Þegar daginn tekur að lengja á vorin kemur upp annað vnadmál sem tengist þessari vitlausu klukku okkar. Það er að myrkur leggst á miklu síðar heldur en heppilegt væri. Seinkun klukkunnar hefði því ekki aðeins þann kost að hjálpa fólki að vakna á morgnanna í svartasta skammdeginu, hún myndi líka hjálpa okkur að sofna fyrr yfir sumarmánuðina þegar bjartara er.

Mikilvægi svefns fyrir líkamlegt og andlegt heilbrigði hefur verið ítarlega og ítrekað staðfest í vísindalegum rannsóknum. Það hefur einnig sýnt sig að líkamsklukka mannanna er ólík innbyrðis. Um 10% manna eru morgunhanar, um 70% virka besta á eðlilegum skrifstofutíma en um 20% eru nátthrafnar. Nátthrafnarnir eiga jafnan í mestum vandræðum og koma sér upp mikilli „svefnskuld“ yfir ævina sem haft getur alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu þeirra. Allir þessir hópar myndu njóta góðs af því að stilla klukkuna á Íslandi í takt við tímann, en þó einkum nátthrafnarnir sem þurfa ekki aðeins að glíma við sömu vandamál hér á landi og annars staðar í heiminum, heldur er ástand þeirra umtalsvert verra vegna tímabrenglsins.

Mest lesni pistill í sögu Deiglunnar birtist fyrir skömmu. Þá skrifaði Sigrún Ingibjörg Gísladóttir um raunir B-fólks. Sá mikli áhugi og góðu viðbrögð sem pistillinn vakti sýnir að mikill fjöldi Íslendinga telur sig vera B-fólk. Staðreyndin er þó líklega sú að fjölmargir af þeim sem á Íslandi teljast falla í þann flokk myndu lifa fullkomlega eðlilegu og áreynsluminna lífi ef klukkan væri rétt stillt. Sá sem telur sig vera sérstaklega morgunsvæfan því hann vill ekki vakna fyrr en hálftíu á morgnanna þætti nokkuð eðlilegur ef klukkan segði satt og sýndi að hann fór á fætur klukkan átta að morgni.

Sumum finnst líklega að þingmenn Íslands geri oftast lítið gagn. En með því að samþykkja þessa tímabæru tillögu Guðmundar Steingrímssonar og fleiri myndu þeir þó sannarlega bæta í einu vetfangi lífsgæði heillar þjóðar.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.