Á rúmri viku hefur almenningur í Túnis steypt Ben Ali, forseta landsins, af stóli eftir áratuga valdasetu og valdníðslu. Mikil mótmælaalda ríður nú yfir Egyptaland með sama markmið að leiðarljósi. Báðum þessum ríkjum hefur verið stjórnað af sama ómyndarskap líkt og hjá all flestum nágrönnum þeirra til þessa. Þessi mikla samfélagslega baráttualda sem nú ríður yfir, virðist að mestu knúin áfram af einni þrá, þránni undan helsi einræðisherra.
Sums staðar hefur þeirri skringilegu staðhæfingu verið hent fram, að lýðræði, mannréttindi og frelsi séu vestræn hugtök sem ekki eigi við utan hins vestræna heims. Hvað þá í arabaríkjunum þar sem allt önnur menning byggir. Á móti er hægt að spyrja einfaldlega hvar hefur lýðræðið verið kosið burt eða skoðanakúgun í stað málfrelsis ? – Hvergi. Það er ekki að ástæðulausu að þau stjórnarform sem byggja á einræði og kúgun komist iðulega á, í krafti ofbeldis eða svika.
Zine El Abidine Ben Ali, nú fyrrverandi forseti Túnis, komst til valda með valdaráni árið 1987 þegar hann steypti forvera sínum af stóli, við talsverðar vinsældir. Líkt og á við marga aðra í sögu 20. aldarinnar boðaði hann víðtækar lýðræðisumbætur og aukið einstaklingsfrelsi sem varði aðeins þar til hann taldi stöðu sinni ógnað. Hann byrjaði á því að banna Íslamistum að bjóða sig fram og þegar þeirri ógn var eytt snéri hann sér að þeim sem mótmæltu honum af öðrum ástæðum. Öryggislögreglan sem starfaði eftir fyrirskipunum hans, fór hart fram og barði niður hverskyns mótmæli og sögur af pyntingum gegn stjórnarandstæðingum fóru að grassera.
Þrátt fyrir hina grimmilegu meðferð Ben Ali á stjórnarandstæðingum sínum, hefur nokkuð stór millistétt orðið til í landinu sem átti að venjast ágætum lífskjörum samanborið við ríkin í kringum sig. Þegar áhrif hinnar alíslensku efnahagskreppu skullu á millistéttinni var það kornið sem fyllti mælinn og þusti fólk út á götur til að krefjast afsagnar Ben Ali. Stór þáttur í að ekki fór verr, var að hluti lögreglunnar tók sér stöðu með mótmælunum.
Á sama tíma og Ben Alí var hrakinn úr valdastóli ríður mikil mótmælaalda yfir höfuðborg Egyptalands. Hosni Mubarak og gegnumsýrð spilling stjórnar hans er víða mótmælt og hafa sveitir forsetans tekið með nokkurri hörku á mótmælendum. Þrátt fyrir að oft hafi komið til mótmæla í þessu fjölmenna ríki, hefur hið mikla umfang og staðfesta mótmælenda orðið til þess að sonur Hosni Mubarak, hefur flúið land. En hann er almennt talinn eiga að taka við valdasprotanum af föður sínum eftir hans dag.
Þrátt fyrir að aðgerðir mótmælenda hafa hrakið Ben Alí frá völdum og gætu mögulega steypt stjórn Hosni Mubarak af stóli, þá er of snemmt að samgleðjast borgurum þessara landa. Allt of oft hafa komið fram leiðtogar með háfleygar hugmyndir um lýðræðis-og mannréttindaumbætur, sem daga svo uppi í valdagræðgi og harðstjórn. Nægir þar að nefna hvernig Ben Alí komst sjálfur til valda. Sá fyrrum lýðræðissinni situr nú í útlegð í Sádi Arabíu, með stóran hluta gullforða Túnis í ránsfeng.
En hverju sem framtíðinni líður, þá eru atburðirnir í Túnis og Egyptalandi góð áminning að lýðræði-og mannréttindi er ekki því fólki er þar búa of framandi, heldur þeim harðstjórum er þar hafa völd.
- Það rignir góðum fréttum - 9. júlí 2021
- Álhattaveislan verður aldrei haldin - 5. júní 2021
- Sköpum 7.000 störf - 27. mars 2021