Haltu þig við fótboltann, Eric.

Eric Cantona, fyrrum knattspyrnumaður og áhugamaður um fljúgandi karatespörk, hefur undanfarið vakið athygli fyrir að hvetja Evrópubúa til nýrrar gerðar byltingar sem á að fara fram í dag, 7. desember. Hann vill að Evrópubúar sameinist um að taka allan peninginn sinn út úr bankanum sínum. Með þessu áhlaupi á alla evrópska banka samtímis vonast hann til að fólki takist að fella fjármálakerfi álfunnar á friðsamlegan hátt.

Eric Cantona, fyrrum knattspyrnumaður og áhugamaður um fljúgandi karatespörk, hefur undanfarið vakið athygli fyrir að hvetja Evrópubúa til nýrrar gerðar byltingar sem á að fara fram í dag, 7. desember. Hann vill að Evrópubúar sameinist um að taka allan peninginn sinn út úr bankanum sínum. Með þessu áhlaupi á alla evrópska banka samtímis vonast hann til að fólki takist að fella fjármálakerfi álfunnar á friðsamlegan hátt.

Þessi hugmynd hefur notið nokkurs stuðnings og hefur einn helsti hvatamaður hennar verið David Icke. Icke þessi var eitt sinn íþróttafréttamaður á BBC en stundar það nú að kynna fólki kenningar sínar um að heiminum sé stjórnað af stórum eðlum ásamt því að hvetja það til að taka peninginn sinn út úr bönkum.

Burtséð frá því hvað okkur þykir um þessar kenningar Icke, þá eru bankahugmyndir þeirra félaga skelfilegar. Þrátt fyrir þó nokkurn stuðning við þetta framtak á Facebook er afar ólíklegt að það komist nálægt því að ná markmiðum sínum. Líklegast er að einhverjir hraðbankar tæmist, langar biðraðir myndist í útibúum og jafnvel þurfi að skammta pening í sumum þeirra eða jafnvel loka þeim. Þetta fellir enga banka heldur veldur aðeins viðskiptavinum þeirra óþægindum, venjulegu fólki sem vill geta nálgast pening sinn þegar það þarf á honum að halda.

Ef allt gengur hins vegar að óskum hjá Cantona og hans fólki gætu myndast svipaðar aðstæður og þegar gert var bankaáhlaup í Argentínu 2001, en þá voru allir bankareikningar frystir í nokkra mánuði, með tilheyrandi óþægindum fyrir fólk sem gæti viljað nota peninga næstu mánuðina. Ef tækist síðan að fella einhverja banka yrði þeim líklega bjargað af viðkomandi ríki og kostnaður myndi falla á skattgreiðendur. Hvernig sem á það er litið á þetta aðeins eftir að koma sér illa fyrir almenning.

Það er nefnilega til lítils að ætla að berjast gegn bönkum. Bankar eru ekki slæmar stofnanir í eðli sínu þótt margt slæmt hafi verið gert innan þeirra síðustu ár. Þeir eru einmitt nauðsynlegir til að veita fólki lán og leyfa því að ávaxta peninginn sinn. Betra en að reyna að fella þá væri því að hvetja kjörna fulltrúa okkar til að beita sér fyrir betra regluverki sem gerðu banka öruggari. Sú vinna er reyndar nú þegar í gangi um allan heim þó vissulega gangi hún hægt.

Eric Cantona er hæfileikaríkur maður sem ætti líklega að hvíla sig á því að hugsa um banka og snúa sér aftur að því sem hann kann, hvort sem það er knattspyrna, leiklist eða ljósmyndun. David Icke má hins vegar hoppa upp í rassgatið á sér.

Latest posts by Ingvar Sigurjónsson (see all)