Af Morfísæpandi þingmönnum – tölum minna og gerum meira

Ímyndum okkur hinn dæmigerða farsæla stjórnmálamann, hann er yfirleitt góður ræðumaður, harður í horn að taka, stundum pínu skemmtilegur og alveg einstaklega sjálfhverfur. Stjórnmálamenn eru nefnilega alltaf í framboði og reyna við fyrsta tækifæri að selja öllum ágæti sitt.

Ímyndum okkur hinn dæmigerða farsæla stjórnmálamann, hann er yfirleitt góður ræðumaður, harður í horn að taka, stundum pínu skemmtilegur og alveg einstaklega sjálfhverfur. Stjórnmálamenn eru nefnilega alltaf í framboði og reyna við fyrsta tækifæri að selja öllum ágæti sitt.

Þegar fólk gerir upp hug sinn á stjórnmálamönnum skoðar það jafnan hvort viðkomandi sé góður ræðumaður eða ekki. Margir hafa gert sig seka um að dæma stjórnmálamenn einungis út frá því hversu góðir þeir eru að svara fyrir sig í sjónvarpsviðtölum, á kappræðum eða jafnvel í þingsal. Eðlilegustu hlutir eins og einstaka hik, stam eða mismæli getur orðið til þess að menn séu stimplaðir sem vonlausir pólitíkusar.

Ef vel er að gáð er þetta ekki skynsöm nálgun. Hugsum okkur gáfuðustu manneskju heims, köllum hana hr.X. Hr. X er með doktorsgráðu í hagfræði frá virtum háskóla, gríðarlegt verkvit, mikla stjórnunarreynslu úr viðskiptalífinu og mikið og ríkt innsæi til þess að greina vandamál. Þrátt fyrir þetta er hr. X ekkert sérstakur ræðumaður, er ekki háfleygur í máli og á það til að mismæla sig stöku sinnum. Myndum við samt vilja Steingrím J. Sigfússon sem fjármálaráðherra eða Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra í staðinn fyrir Hr.X?

Sé þetta dæmi sett upp með þessum hætti myndu sennilega flestir velja hr. X, öll viljum sjá hæfasta fólkið í helstu stjórnunarstöðum landsins. Svo er ekki raunin í dag, ef við tökum Steingrím og Jóhönnu sem dæmi að þá hefur hún lokið verslunarprófi frá Verzlunarskólanum og hann er jarðfræðingur að mennt. Þeirra helsta reynsla er í raun sjálft Alþingi þar sem þau hafa bæði átt fast sæti í áraraðir. Vissulega er reynsla þingmanna mikilvæg og ekki væri gott að fylla Alþingi af algjörlega reynslulausu fólki. En hvernig sem á það er litið eru þau tvö alin upp í þinginu – þar sem fólk kemst langt á kjaftinum.

Skoðum aðeins nánar hvers vegna stjórnmálamenn njóta svo góðs af því að vera góðir ræðumenn. Þeim tekst að sannfæra fólk um ágæti sitt, þeir ná að fylla samflokksmenn sína eldmóði í kosningabaráttum og svo eru þeir góðir í að rífast í stærstu MORFÍS miðstöð landsins – Alþingishúsinu. Segir þetta eitthvað til um hversu góður fulltrúi þú ert fyrir almenning? Hjálpar það fólki í skuldavanda hversu flottar og háfleygar setningar Ögmundur Jónasson notar í ræðustól?

Við skulum heldur ekki gleyma því að Adolf Hitler komst til valda í Þýskalandi með sínum þrumuræðum og miklum áróðri. Öldungardeildarþingmaðurinn Josep McCarthy hélt bandarísku þjóðinni í heljargreipum með ræðum sem hann flutti um kommúnista og veru þeirra í Bandaríkjunum um miðja síðustu öld. Þannig geta góðir ræðumenn í búningi stjórnmálamanna sannfært fólk um stórhættulega hluti.

Það sem Ísland þarf er ný tegund stjórnmálamanna – fólk með góða menntun, mikla reynslu og andlegan styrk til að takast á við þau erfiðu verkefni sem framundan eru hjá íslensku þjóðinni. Ekki fleiri Morfísæpandi stjórnmálamenn eins og við sjáum gargandi hvor á annan í fréttunum á Rúv og alls ekki fleiri trúða úr ættum ,,Besta” flokksins. Við þurfum fólk sem talar minna og gerir meira.