Stjórnlagaþingsklúður

Kjörsóknin í nýafstöðnum stjórnlagaþingskosningum eru mikil vonbrigði. Einungis rúmur þriðjungur kosningabærra manna sá sér fært um að mæta á kjörstað. Það er versta kjörsókn í sögu íslenska lýðveldisins.

Kjörsóknin í nýafstöðnum stjórnlagaþingskosningum eru mikil vonbrigði. Einungis rúmur þriðjungur kosningabærra manna sá sér fært um að mæta á kjörstað. Það er versta kjörsókn í sögu íslenska lýðveldisins.

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur og frambjóðandi til stjórnlagaþings kom fram í fjölmiðlum stuttu eftir að kjörsóknartölur lágu fyrir. Þar reyndi hann að réttlæta kjörsóknina með því að bera kjörsóknina í stjórnlagaþingskosningunum saman við kjörsókn í bandarísku þingkosningunum og í þjóðaratkvæðagreiðslum nágrannaríkja okkar. Í samanburði við þær kosningar segir Eiríkur að kjörsókn hafi verið góð. Einnig segir hann í sama viðtali að erfitt væri að bera kosningarnar saman við þjóðaratkvæðisgreiðsluna um Icesave, þar sem það hafi verið mikið hitamál sem varð til þess að kjörsókn var mjög góð.

Þetta eru mjög veik rök hjá Eiríki. Í fyrsta lagi væri hægt að skrifa heila ritgerð um kjörsókn Bandaríkjamanna, en hún hefur frá fyrstu tíð verið mjög slæm vegna flókins fyrirkomulags og framkvæmda kosninganna sem haldnar eru þar í landi.

Á Íslandi er sagan hins vegar önnur. Hér höfum við langa og góða hefð um góða kjörsókn, eina þá hæstu í heiminum og við ættum ekki að vera að bera okkur saman við Bandaríkjamenn í þeim efnum. Með tilliti til sögunnar verða menn að viðurkenna að kjörsókn helgarinnar hafi verið vonbrigði.

Það er einnig erfitt að líkja kosningunum til stjórnlagaþings saman við hefðbundnar þjóðaratkvæðagreiðslur í nágrannalöndum okkar. Á komandi stjórnlagaþingi verða sett fram drög að nýrri stjórnaskrá íslenska lýðveldisins. Þetta þing mun því hafa áhrif á komandi stjórnskipan og grundvallarlög í landinu. Mikilvægi þess er því gríðarlega mikið og mun hafa mikil áhrif á íslensku þjóðina og komandi kynslóðir.

Einnig má spyrja sig hvort að mikilvægi kosninganna til stjórnlagaþings sé því ekki meiri en til dæmis hefðbundin þjóðaratkvæðisgreiðsla í Sviss? Í september var til dæmis þjóðaratkvæðisgreiðsla þar í landi um breytingar á kjörum til atvinnulausra. Þar var kjörsóknin nánast alveg sú sama og í kosningunum til stjórnlagaþings. Að mínu mati er ekki hægt að bera þetta tvennt saman.

Það verður að horfast í augu við veruleikann. Kjörsóknin var afleit og verður því að teljast mikið áfall fyrir ríkisstjórnina sem taldi að komandi stjórnlagaþing væri eitt af brýnustu hagsmunamálum þjóðarinnar og var viljug til þess að eyrnamerkja hundruðir milljóna króna til verkefnisins. Kjörsóknin sýnir að stór hluti þjóðarinnar er ekki sammála ríkisstjórninni og telur stjórnlagaþing ekki eitt af brýnustu hagmunamálum þjóðarinnar á þessum tímapunkti.

Ekkert virðist vera að heppnast í Stjórnarráðinu.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)