Metum jafnréttisbaráttuna

Allt hugsandi fólk vill kynjajafnrétti. Það gerir sér grein fyrir því að það er samfélaginu til heilla að helmingur þjóðarinnar upplifi sig ekki sem réttlægri en hinn helminginn. Réttindabarátta hugrakks fólks skilaði lagalegu jafnrétti kynjanna en hugarfarsleg jafnréttisbarátta þarf að fylgja í kjölfarið, bæði hjá konum og körlum, til að kynjajafnrétti geti orðið í reynd.

Allt hugsandi fólk vill kynjajafnrétti. Það gerir sér grein fyrir því að það er samfélaginu til heilla að helmingur þjóðarinnar upplifi sig ekki sem réttminni en hinn helminginn. Ég leyfi mér jafnvel að fullyrða að hugsandi fólk svarar ekki neitandi þegar það er spurt hvort það vilji kynjajafnrétti.

Sumir sem vilja kynjajafnrétti vilja reyndar meina að við séum búin að ná þessum eftirsóknarverða áfanga á Íslandi. Konum bjóðist nú nákvæmlega sömu tækifæri og körlum. Þeim sé hvergi meinað um inngöngu eða aðgang, þær megi kjósa og bjóða sig fram eins og karlar o.s.frv.

Í hverju felst ójafnrétti þegar öllu þessu er náð?

Kynjajafnrétti er á Íslandi á borði en orðið fylgir ekki jafn hratt eftir. Kynjajafnrétti er ekki orðið að veruleika í hugarfari og menningu þjóðarinnar þó að það sé orðið að veruleika í lögum. Enda er mun einfaldara að breyta lögum heldur en hugarfari, jafnvel þó að allt hugsandi fólk vilji kynjajafnrétti.

Föðuramma mín fæddist árið 1908, sjö árum áður en íslenskar konur, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt samkvæmt lögum og 12 árum áður en allar konur fóru að njóta réttar til jafns við karla til að kjósa. Mamma mín fæddist árið 1950, sjö árum áður en kona gegndi í fyrsta skipti bæjarstjórastöðu á Íslandi. Ég fæddist árið 1981, ári eftir að kona þurfti að berjast við fordóma til að verða fyrst kvenna í heiminum lýðræðislega kjörinn forseti, og fimm árum eftir að fyrstu jafnréttislögin voru sett á Íslandi. Dóttir mín fæddist 2008, ári áður en kona var í fyrsta skipti forsætisráðherra á Íslandi. Það ár mældust konur almennt með 16,3% lægri heildarlaun en karlar að teknu tilliti til vinnutíma, starfs, menntunar, aldurs, atvinnugreinar, ábyrgðar í starfi o.fl. samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Þessi upptalning sýnir hvað margt hefur áunnist á einni öld og á stuttum tíma ef við hugsum þetta í sögulegu tilliti. Réttindabarátta hugrakks fólks skilaði lagalegu jafnrétti kynjanna. Hugarfarsleg jafnréttisbarátta þarf að fylgja í kjölfarið, bæði hjá konum og körlum, til að kynjajafnrétti geti orðið í reynd. Fólk þarf að setja orðið á borðið og ég vil af gefnu tilefni ítreka að þetta á við bæði um konur og karla.

Þetta snýst til dæmis um að bæði kyn deili til jafns ábyrgð á heimilishaldi og barnauppeldi til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Nýleg rannsókn VR leiddi í ljós að megnið af þessari ábyrgð lendir á herðum kvenna. Flestir geta gert sér í hugarlund hvort að jafnhæf kona og karl á vinnustað standi jafnfætis þegar konan þarf ávallt að hætta klukkan fjögur til að sækja börnin á leikskólann og ná að sinna heimilistörfum á meðan karlinn getur unnið fram eftir og er á allan hátt sveigjanlegri vegna þess að konan hans sér um börn og heimili. Tölur sýna að ábyrgð á heimilishaldi er jafnari milli kynjanna hjá yngra fólki sem bendir til að þróunin sé í rétta átt en þetta er gríðarlega mikilvægt atriði í að jafna stöðu kynjanna. Hér er ekki verið að tala fyrir því að kynin deili öllum störfum til helminga heldur að ábyrgð og tími deilist jafnt.

Ég hef trú á því að jafnréttisbaráttan muni sýna árangur hér eftir sem hingað til. Það sem hver og einn getur lagt á vogarskálarnar til að stuðla að kynjajafnrétti er að ala upp hugrakkar dætur og syni sem trúa á sjálf sig og bera virðingu hvert fyrir öðru, og tileinka sér sjálfur sömu viðhorf. Einnig þarf fólk að kunna að meta baráttuaðgerðir þó að maður þurfi ekki að vera fullkomnlega sammála hverri og einni. Það sem sumum þykir ganga alltof langt þykir öðrum ganga alltof skammt. Það er eðlilegt. Aðalatriðið er að smám saman færir baráttan okkur nær endamarkinu, fullkomnu kynjajafnrétti þar sem konur og karlar hafa sömu tækifæri.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.