Að finna sinn innri kjark og láta vaða

Á kvennafrídaginn, þann 24. október, sýndi RÚV sjónvarpsþátt um framboð Vigdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands árið 1980. Þar kom margt áhugavert fram, meðal annars hversu treg Vigdís var í fyrstu til að bjóða sig fram og einnig hversu hart var barið á henni í kosningabaráttunni.

Á kvennafrídaginn, þann 24. október, sýndi RÚV sjónvarpsþátt um framboð Vigdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands árið 1980. Þar kom margt áhugavert fram, meðal annars hversu treg Vigdís var í fyrstu til að bjóða sig fram og einnig hversu hart var barið á henni í kosningabaráttunni.

Þegar ljóst var að Kristján Eldjárn ætlaði ekki að gefa kost á sér lengur til embættis forseta fóru umræður af stað um að kona ætti að bjóða sig fram. Skorað var á Vigdísi, sem þá var leikhússtjóri, að gefa kost á sér.

Í þættinum talar Vigdís um hversu erfið ákvörðun það hafi verið fyrir hana að bjóða sig fram. Henni leið eins og hún gæti þetta ekki og langaði að hætta við eftir að hún tók loks ákvörðun. Konur, kannast einhver við þessa tilfinningu?

Það fór þó svo að Vigdís tilkynnti um framboð þann 1. febrúar 1980 og voru þá fjórir frambjóðendur til embættis forseta. Í þættinum er vel sagt frá hversu mikla athygli framboð Vigdísar vakti, bæði innan lands og utan landsteinana.

Vigdís fékk að finna fyrir illu umtali í kosningabaráttunni þegar andstæðingar hennar reyndu að finna á henni veika bletti. Veikindi hennar og brjóstnám voru gerð að umtalsefni og gert að því skóna að hún hefði ekki heilsu til að sinna embættisskyldum forseta. Hún var sögð vera vinstri sinnuð og þar með pólitísk, meðal annars vegna afstöðu sinnar gegn hernum.

Einna merkilegast var þó að heyra í þætti RÚV um þá mikla umræðu sem það greinilega vakti í samfélaginu að Vigdís væri ógift. Mörgum fannst víst að á Bessastöðum þyrftu að vera hjón og leist hreint ekki á það að ógift kona flytti inn á Bessastaði. Já og hvað þá einstæð móðir. Á Bessastöðum var nefnilega svo mikið verk að vinna innandyra að sumir voru á því máli að forsetaembættið væri tveggja manna starf. Forsetinn (karlinn) þyrfti að sinna embættisskyldum sínum en makinn (konan) þyrfti að pressa buxur, hella upp á kaffi og undirbúa veislur. Ógift kona gæti því ómögulega sinnt báðum þessum störfum.

Í þættinum var sýnt frá umræðuþætti frambjóðendanna í aðdraganda kosninganna. Þar bar makaleysi Vigdísar aftur á góma og hinir frambjóðendur skýrðu afstöðu sína að þeir teldu nauðsynlegt að hjón væru á Bessastöðum. Það var skemmtilegt að sjá hvernig Vigdís svaraði fyrir sig með því að segjast telja að hún hefði þá skipulagshæfileika að skipuleggja veislur á Bessastöðum samhliða embættisskyldum forseta. Sérstaklega var skemmtilegt að sjá hana spyrja meðframbjóðendur sína um hvort þær væru tilbúnir að taka að sér húsfreyjustörf á Bessastöðum ef eiginkonur þeirra væru í framboði.

Það voru margar hindranir sem Vigdís þurfti að yfirstíga í framboðsbaráttu sinni. Ein af þeim var sú staðhæfing að fólk væri að styðja hana bara af því að hún væri kona. Hún var beinlínis spurð að því í umræðuþætti frambjóðendanna. Vigdís svaraði því til að það ætti ekki að kjósa hana því hún væri kona heldur af því hún væri maður, en það orð rúmar orðin karl og kona . Vigdís sagði einnig að það ætti að vera alveg sjálfsagður hlutur að kjósa konur til jafns við karla. Það þótti þó ekkert sérstaklega sjálfsagt árið 1980.

Í viðtali daginn eftir að hún náði kjöri sagði Vigdís: „Ef ég get hjálpað dætrum okkar við að það teljist sjálfsagt að þær komi fram til jafns við karla, þá tel ég að ég hafi lagt eitthvað til mála sem er þeim til gagns og góða“. Nú, 30 árum síðar, getum við þakkað Vigdísi fyrir það að það teljist sjálfsagt, já eða allavega sjálfsagðara, að konur komi fram til jafns við karla.

Sá boðskapur sem var mér efst í huga eftir að hafa horft á þáttinn um framboð Vigdísar var að trúa á sjálfa sig og henda sér út í djúpu laugina. Ungar konur í dag geta dregið þann lærdóm af framboði Vigdísar að stundum þarf bara að finna sinn innri kjark og láta fífldirfskuna ráða för.

Í þættinum talaði Vigdís um þrepin þrjú sem hún stökk í húsinu sínu til að sýna sjálfri að hún gæti þetta. Hjá Vigdísi táknuðu þrepin þrjú forsetaframboð, en hjá hverri og einni konu tákna þau hennar eigin markmið.

Kæru konur, finnum okkar innri kjark, stökkvum þessi þrjú þrep og látum vaða – eins og Vigdís.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.