Að komast inn á EM eða sigra á EM

Þegar U-21 landslið karla í knattspyrnu var að keppast um að komast inn á Evrópumeistaramót um daginn var það í fréttunum dögum saman. Sýnt var frá leikjunum sem þeir spiluðu og fjölmiðlar kepptust við að upplýsa fréttaþyrsta fótboltaunnendur. Flott hjá drengjunum að komast svo inn á EM en það er samt ekki rass í bala miðað við árangur hópfimleikastúlknanna í Gerplu sem urðu Evrópumeistarar um síðustu helgi. En frá því var ekki sýnt á neinni íslenskri sjónvarpsstöð.

Þegar U-21 landslið karla í knattspyrnu var að keppast um að komast inn á Evrópumeistaramót um daginn var það í fréttunum dögum saman. Sýnt var frá leikjunum sem þeir spiluðu og fjölmiðlar kepptust við að upplýsa fréttaþyrsta fótboltaunnendur. Flott hjá drengjunum að komast svo inn á EM en það er samt ekki rass í bala miðað við árangur hópfimleikastúlknanna í Gerplu sem urðu Evrópumeistarar um síðustu helgi. En frá því var ekki sýnt á neinni íslenskri sjónvarpsstöð.

Árangur stúlknanna, sem hafa lagt allt annað til hliðar og verið við linnulausar æfingar í mörg ár, er ótrúlegur. Þær komu gríðarlega einbeittar til leiks og ætluðu sér sigur og uppskáru eins og þær höfðu sáð. Evrópumeistarar er glæsilegur titill sem hæfir þeim vel.

Selfoss liðið, sem voru að keppa í annað sinn á Evrópumeistaramóti, stóðu sig líka með stakri prýði. Þær urðu í áttunda sæti sem er frábær árangur og þar er ótrúlega efnilegur hópur á ferð sem á eftir að halda Gerplustelpunum við efnið.

Unglingalandsliðið okkar varð svo í þriðja sæti en þetta er í fyrsta sinn sem Ísland sendir landslið í þeim flokki. Þar eru gríðarlega efnilegar stúlkur á ferð sem verður gaman að fylgjast með í framtíðinni.

Karlalandsliðið okkar varð svo í fjórða sæti sem var ótrúlega glæsilegt. Virkilega gaman að sjá öflugt íslenskt karlalið því það hafa ekki verið margir karlar í hópfimleikum á Íslandi hingað til en það fer vonandi að breytast. Enda er það umtalað að þetta séu með kynþokkafyllri karlmönnum! Allavega eru hýr bros á dömunum sem koma og horfa á þá hendast um í loftinu á mótum í þröngu göllunum sínum með alla vöðva spennta.

Evrópu þjóðirnar eru mjög framarlega í heiminum í hópfimleikum og hafa verið með bestu hópfimleikalið heims. Þetta er því ekkert eins og að vinna eitthvað innanfélagsmót. Þetta er gríðarlega góður árangur. Hópfimleikum má ekki rugla saman við áhaldafimleika eða nútímafimleika sem eru eldri greinar og hefur verið keppt í á Ólympíuleikunum lengi vel. Hópfimleikar eru ung og vaxandi íþróttagrein í heiminum og hafa Norðurlandaþjóðirnar verið mjög framarlega í þróun hennar.

Við getum því verið stolt af okkar flotta hópfimleikafólki en vaxandi áhugi er fyrir íþróttinni hér á landi. Því miður liggja ekki fyrir opinberar tölur um það hversu margir eru í hópfimleikum en á öllu landinu í fyrra voru 7500 iðkendur í fimleikum. Þá fjölgaði um fimm prósent milli ára en það er jafn mikil fjölgun í prósentum eins og í fótbolta.

Undanfarin ár hafa verið fleiri iðkendur í fimleikum en í handbolta og körfubolta. Samt er sýnt frá svo margfalt fleiri handbolta- og körfuboltaleikjum en fimleikamótum.

Þessi mikli áhugi á fimleikum endurspeglaðist nefnilega engan veginn í fjölmiðlaumfjöllun innlendra fjölmiðla. Það er fráleitt að ekki hafi verið sýnt beint frá mótinu. Það væri allavega áhugavert að fylgjast með því hvernig fólk myndi bregðast við ef karlalandsliðið í fótbolta myndi slysast til þess að komast inn á EM og svo vinna það ef ekki væri sýnt frá því í sjónvarpinu.

Þegar U-21 karla landsliðið komst á EM var sýnt frá úti leiknum á RÚV og heima leiknum á Stöð 2 sport. Það var bara hægt að kaupa sér aðgang að útsendingunum á EM mótinu í hópfimleikum á netinu sem var eina leiðin til þess að fylgjast með í beinni ef maður hafði ekki tök á því að fara til Malmö. Dagblaðamiðlarnir gerðu þessu ágæt skil eftirá enda skárra væri það ef Evrópumeistararnir okkar kæmust ekki í blöðin.

Það var mjög athyglisvert að fylgjast með ljósvakamiðlunum þessa daga. Fyrri keppnisdaginn var fjallað um mótið í innan við mínútu í íþróttafréttunum á RÚV sem ágætis umfjöllun og stóð RÚV sig betur en Stöð 2. En fréttin um að fyrsta íslenska hópfimleikaliðið hefði orðið Evrópumeistari var fjórða fréttin af fimm fréttum í “helstinu.” Á eftir ótrúlega merkilegri frétt um að tónninn í Árna Páli sé breyttur. Fráleitt. Á Stöð 2 var ekkert fjallað um Evrópumeistarana nýbökuðu í fréttunum en sagt var frá þessum stórfréttum í heilar 13 sekúndur í spjallinu milli fréttaþulunnar og íþróttafréttamansins áður en “alvöru” íþróttafréttirnar hófust. Þá fékk spænski boltinn 31 sekúndu þar sem var greint frá helstu leikatriðum í fótboltaleik þar sem Messi sjálfur var sýndur fagna og knúsa liðsfélaga sína enda er hans svo mikið ofsakrútt. Enn fráleitara.

Þetta er auðvitað ótrúlega vannýttur markaður hjá áskrifastöð eins og Stöð 2 sport. Þeir ættu að ráða til sín góðan fimleikaþjálfara eða áhugamann sem gæti lýst fyrir þá og sýna frá öllum mótum. Eitthvað held ég að markaðurinn myndi stækka og víkka því allar fimleikastjörnurnar sem dreymir um að geta fylgst með átrúnaðargoðunum sínum hafa alveg jafn mikil áhrif á þá sem greiða reikningana á heimilinu og litlu fótboltastjörnurnar. Svo eru einnig forfallnir fimleikasjúklingar eins og undirrituð sem myndu glaðir greiða fyrir áskrift ef bara útsendingin væri í boði á einhverri góðri íþróttastöð.

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)