Gjaldþrota kynslóðin

Á Íslandi er fjöldi fólks að velta því fyrir sér hvort það eigi að verða gjaldþrota. Á Íslandi eru gjaldþrotalög með þeim hætti að sá sem verður gjaldþrota á sér ekki viðreisnar von. Allt sem hann eignast mega kröfuhafar taka af honum. Að verða gjaldþrota er á Íslandi annað orð yfir útlegð. Að fara í sjálfsskipaða útlegð er skelfilegt en fyrir hóp ungs fólks á Íslandi virðist þetta vera eina leiðin undan því skuldafargi sem nú er að buga marga fjölskylduna.

Á Íslandi er fjöldi fólks að velta því fyrir sér hvort það eigi að verða gjaldþrota. Á Íslandi eru gjaldþrotalög með þeim hætti að sá sem verður gjaldþrota á sér ekki viðreisnar von. Allt sem hann eignast mega kröfuhafar taka af honum. Að verða gjaldþrota er á Íslandi annað orð yfir útlegð. Að fara í sjálfsskipaða útlegð er skelfilegt en fyrir hóp ungs fólks á Íslandi virðist þetta vera eina leiðin undan því skuldafargi sem nú er að buga marga fjölskylduna.

Unga fólkið ber mestu ábyrgðina sjálft. Það mætti sjálft , vitandi vits út í banka og samþykkti að skulda mjög háar upphæðir. Það mætti jafnvel segja að það ætti skuldirnar skuldlaust.

Í kjölfar kosninga 2003 þá hækkaði Íbúðalánasjóður hlutfall lána af kaupverði eigna upp í 90%*. Íslensku bankarnir höfðu fram að því fyrst og fremst lánað svokölluð brúarlán. Í kjölfar aðgerða ríkisstjórnarinnar þá fóru bankarnir í verðstríð við Íbúðalánasjóð til þess að verja stöðu sína. Ólíkt Íbúðalánasjóði settu bankarnir ekkert hámark á kaupverð. Afleiðingin var sú að aðgengi almennings að fjármagni til húsnæðiskaupa stórjókst. Verð á fasteignum hækkaði um tugi prósenta þar sem sama hlutfall af nettólaunum dugði nú til þess að kaupa dýrari eign.

Ungt fólk hafði vanist því að leggja fyrir í mörg ár til þess að eiga fyrir innborgun í íbúð. Allt í einu var hægt að ganga frá kaupum á draumahúsinu strax í dag. Allir vinna var viðkvæðið þá eins og nú. Fólk þurfti að drífa sig í því að festa kaup á húsnæði áður en það hækkaði enn meira heldur en þegar var orðið. Allir höfðu sögu um frænda, vinkonu eða kunningja sem hafði stórgrætt á því að kaupa fasteign og selja seinna með stórgróða. Aftur þarf að ítreka að enginn var neyddur til þess að kaupa húsnæði heldur höfðu allir frjálst val. Valið var þó þröngt þar sem leigumarkaður á Íslandi býður ekki upp á mikla vernd og þar býr fólk ávallt við það ástand að leigusali geti varpað því á dyr með þriggja mánaða fyrirvara.

Þegar íslensku bankana þraut örendið í október þá sat ákveðinn hluti þjóðarinnar eftir með risastóra skuld og pínulitla eign. Á mannamáli heitir það að vera gjaldþrota. Rússíbanareiðin tók ekki langan tíma. Það var í seinni hluta 2004 sem Íbúðalánasjóður innleiddi 90% lánin og bankarnir fóru inn á húsnæðismarkaðinn, í Janúar 2008 þá stöðvaðist hækkunarhrina íbúðahúsnæðis á Íslandi.

Á þessum fjögurtíu og tveimur mánuðum hafði fjöldi heimila ákveðið að taka skrefið og eignast sína fyrstu íbúð. Flest var þetta fólk á aldrinum 25 til 30 ára. Hver árgangur á Íslandi er um 4.000 manns sem þýðir að hér gæti verið um að ræða 20 þúsund manns.

Þessir 20 þúsund íslendingar eru sumir hverjir gjaldþrota einfaldlega vegna þess að þau fæddust þegar þau fæddust. Eldra fólk hafði keypt hús þegar þau kostuðu mun lægri upphæðir (fyrir 2004). Gullkynslóðin á Íslandi, 68 kynslóðin, fékk lánin sín gefins í boði verðbólgu. Yngra fólk var (vonandi) ekki enn búið að festa sér kaup á húsnæði.
Niðurstaða allra vangaveltna Alþingis, ríkisstjórnarinnar og samtaka fjármálafyrirtækja er sú að enginn megi fá niðurfærslu skulda(nema hinir ofurríku). Þess í stað hafa verið fundnar upp nýjar frábærar fjármálaafurðir sem eru sérvaldar fyrir þessa óheppnustu kynslóð Íslandssögunnar.

Þær fjármálaafurðir sem hinn gagnslausa stofnun Umboðsmaður skuldara hefur að dagsskipun að bjóða fólki uppá eru „tímabundin frysting“, greiðslujöfnun og vistabönd sem eru einnig þekkt sem sértæk skuldaaðlögun. Allar þessar aðgerðir ganga út á að halda hinu gjaldþrotafólki gangandi og í raun koma í veg fyrir að þau verði gjaldþrota. Þessi kynslóð mun aldrei eignast jákvætt eigið fé þar sem allt það sparifé sem það gæti fræðilega lagt til hliðar á meðan þessum sértæku aðgerðum stendur verður eign bankans um leið og skuldarinn vill fara úr þessu húsnæði. Hann er lokaður inni í skuldafangelsi þar sem eini tilgangur hans er að halda ríkissjóði og bankakerfinu gangandi.

Stór hluti hagnaðar bankana undanfarin misseri verður til á eftirfarandi hátt: (nýr) banki kaupir húsnæðislán af „gömlum“ banka með 45% afslætti (t.d. 40 milljón króna lán á 25 milljón króna hús keypt á 22 milljónir). Þá hefur viðskiptavinur bankans samband við hann og biður hann „náðarsamlegast“ að fá að skulda „einungis“ 110% af fasteignaverðmæti hússins eða 27,5 milljónir. Bankinn samþykkir þetta og tekjufærir 5,5 milljónir. Næstu mánaðarmót skulda skuldarinn 111% af fasteignaverðmæti vegna verðbóta og byrjar gjaldþrota að reyna að klóra sig upp í jákvætt eigið fé.

Tilvist þessa skuldara á sér helst hliðstæðu í kvikmyndinni Matrix. Fólk býr í gerviveröld þar sem heimurinn lítur venjulega út en í raun og veru er því haldið föngnu til þess að hægt sé að sjúga úr því orku mánaðarlega. Fólk stritar fyrir laununum sínum, borgar hinu opinbera 40%, bönkunum 30% og telst síðan heppið að láta enda ná saman með þau 30% sem það stendur eftir með.
Þetta viðskiptamódel hins nýja Íslands mun ekki virka. Það mun aldrei ganga til lengdar að halda þúsundum íslendinga í skuldafangelsi í trausti þess að það hlýði, verði þægt, borgi skuldirnar sínar og eignist aldrei neitt.

Stjórnvöld geta ekki gripið inn í þetta mál þar sem fjármálafyrirtæki munu þá krefja hið opinbera um allar kröfur sem eru felldar niður. Það er í raun draumaniðurstaða fjármálafyrirtækjanna. Skuldir hins opinbera myndu þá hækka sem því nemur.

Líklegri málalok eru þessi:

Annars vegar vakna bankarnir og endursemja við fólk um skuldirnar þeirra á þann hátt að það geti borgað af þeim og geti lagt fyrir sparnað sem það á sjálft.

Hinn kosturinn er sá að hálf eða heil kynslóð Íslendinga mun lýsa yfir gjaldþroti yfirgefa landið og velja sér annað heimaland.

* Íbúðalánasjóður hefur sent athugasemd og bent á að þeir buðu fyrst upp á 90% húsnæðislán í desember 2004

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.