Ósóun

Ég hef alist upp við þá möntru að nefna “sóun” og “hið opinbera” nánast alltaf í sömu setningu. “Ríkið sólundar peningum í gæluverkefni stjórnmálamanna,” bergmálar mín eigin rödd í huga mér eftir margra ára endurtekningar. En sóun er ekki endilega rétta orðið.

Ég hef alist upp við þá möntru að nefna “sóun” og “hið opinbera” nánast alltaf í sömu setningu. “Ríkið sólundar peningum í gæluverkefni stjórnmálamanna,” bergmálar mín eigin rödd í huga mér eftir margra ára endurtekningar. En sóun er ekki endilega rétta orðið.

Nýlega fékk ég að vinna á frístundaheimili í Reykjavík í um tveggja vikna skeið. Það var afskaplega næs. Margt kemur upp í hugann við upprifjun á þeirri reynslu en stórfeld sóun á fjármunum er ekki eitt af því. Þar kunnu menn sko að gera gott úr engu. Grilluð samloka með hálfri ostsneið og vatnsglas? Það er föstudagur, krakkar!

Vandi hins opinbera er þannig ekki endilega alltaf sóun heldur röng verðlagning. Gjald fyrir að hafa börn í frístundastarfi í hálfan dag með fæði er um 500 krónur. Það þarf því eiginlega verulega góða ástæðu til að láta börn sín ekki tefla og kubba við opinbera starfsmenn. Fyrir vikið er allt morandi af börnum. Launin eru svo auðvitað eins og þau eru. Í bullandi samkeppni við atvinnuleysisbæturnar um hvort sé lægra. Er hægt að kalla það sóun?

Raunar finnst manni ekki endilega vandamálið vera að starfsmennirnir í menntakerfinu séu almennt of fáir og líklegast væri ráð að hafa færri en borga þeim hærri laun. En launaguðirnir myndu auðvitað fara yfir um ef einhver legði það til. Þá væru laun einhvers orðin hærri en laun einhvers annars sem væri hræðilegt. Það er því frekar brugðið á það ráð að gera vinnu fólks auðveldari með því að ráða inn enn fleira láglaunafólk til að létta undir með þeim. Eins og skólaliða sem bíður á kaffistofunni eftir að frímínúturnar byrji.

Flest sem snýr að skólakerfinu er þannig verðlagt illa en jafnt. Sumir þeirra kennara sem hafa kennt mér hefðu átt að fá milljón á mánuði, aðrir hefðu átt að fá uppsagnarbréf. En ef það er eitthvað sem sósíalistarnir í kennaraforystunni geta barist gegn af fullum krafti þá er það að þeir sem leggja sig meira fram en aðrir í kennarastarfinu verði verðlaunaðir fyrir það.

Sósíalistanna í kennaraforystunni skortir þannig grunnþekkingu á mannlegu eðli og því hvað það er sem fær fólk til að velja sér starfsleið. Hægfara og flöt launahækkun mun ekki skila sé í fleira afburðarfólki í kennaranám. Hvað segirðu 230 þúsund en ekki 214? Hvar skrái ég mig? En ef 5% kennara hefði hálfa milljón á mánuði, og 1% hefði yfir milljón þá mundi það strax ýta fleira ungu afburðarfólki inn á þessa braut, því flestir myndu að sjálfsögðu sjá sig í þessu hlutverki. En hvatinn til að skara fram úr er enginn eða öfugur. Menn hækka um 10 þúsund krónur á mánuði við það að bæta við sig eins árs námi, hvaða rugl er það?

Kannski er sóunin í menntakerfinu einmitt of lítil. Það er ekki þar með sagt að við sem samfélag eigum að hlaua upp til handa og fóta og strá meira klinki jafnt yfir alla. En kannski væri ágætt að við, hvert og eitt okkar, myndum venja okkur við þá tilhugsun að sóa meiri peningum í menntun okkar og barnanna í stað þess að sóa þeim í hús, bíla og húsbíla.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.