Steikhús íslenskra stjórnmála

Um síðastliðna helgi héldu þrír stjórnmálaflokkar stjórnmálafundi fyrir félagsmenn. Sjálfstæðisflokkurinn hélt landsfund, Samfylkingin hélt flokksstjórnarfund og Vinstri grænir héldu flokksráðsfund. Allir voru fundirnir haldnir í „skugga“ Besta flokksins og rannsóknarskýrslunnar frægu og héldu kannski einhverjir að nú myndu þessir þrír flokkar loksins líta í eigin barm og hefja naflaskoðunina sem kallað er á. Þessir einhverjir hafa vafalítið orðið fyrir vonbrigðum.

Um síðastliðna helgi héldu þrír stjórnmálaflokkar stjórnmálafundi fyrir félagsmenn. Sjálfstæðisflokkurinn hélt landsfund, Samfylkingin hélt flokksstjórnarfund og Vinstri grænir héldu flokksráðsfund. Allir voru fundirnir haldnir í „skugga“ Besta flokksins og rannsóknarskýrslunnar frægu og héldu kannski einhverjir að nú myndu þessir þrír flokkar loksins líta í eigin barm og hefja naflaskoðunina sem kallað er á. Þessir einhverjir hafa vafalítið orðið fyrir vonbrigðum.

Ef marka má fréttaflutning íslenskra vefmiðla bar þetta hæst á landsfundi Sjálfstæðisflokksins:
a) Davíð Oddsson mætti. Frábært. b) Pétur Blöndal og Bjarni Benediktsson „börðust“ um formannssætið. Bjarni vann. Fáránlega óvænt. c) Ólöf Nordal var kjörin varaformaður. d) Það var rifist um ESB. Fastur liður eins og venjulega á landsfundi og Evrópusinnar í flokknum illa teknir, eins og venjulega.
e) Samþykkt var ályktun þar sem skorað er á þá sem þáðu óhóflega styrki að segja af sér. Kom svolítið á óvart en kom svo ekki neitt á óvart þegar Gísli Marteinn skrifaði pistil og sagðist ætla að gera betur næst, ekki mikið meir. Frábært.
f) Ólafur Örn Nielsen hélt eina steiktustu ræðu sem sögur fara af á hátíðarkvöldverði SUS. Ef Vinstri grænir eru ennþá kommúnistar er Sjálfstæðisflokkurinn þá ekki ennþá íhald? Lítið bara á ESB-ályktunina og svari svo hver fyrir sig.

Af flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar var þetta svo helst í fréttum:
a) Jóhanna Sigurðardóttir, formaður flokksins, hvatti flokksmenn til að velja sér nýja forystu. Ha? b) Þar sem enginn tók undir hvatningu Jóhönnu (hvers vegna skyldi það vera?) lýsti flokksstjórnin yfir eindregnum stuðningi við forsætisráðherrann. Fimmfalt húrra fyrir því. c) Dagný Ósk Aradóttir Pind, formaður UJ, dró til baka harðorða ályktun ungliðahreyfingarinnar. Spurning hvort ályktunin hefði toppað steik SUS? Pottþétt.

Kom eitthvað meira frá flokknum sem leiðir ríkisstjórnina? Nei, eiginlega ekki, nema að hamrað var á því augljósa: að það þarf að halda niðurskurðinum áfram. Þetta er það sem maður kallar að setja fram skýra stefnu og halda rétt á spöðunum, ekki satt?

Að lokum bar þetta svo hæst á flokksráðsfundi hins ríkisstjórnarflokksins, VG:
a) Einhverjum finnst fórnarkostnaðurinn við vinstri stjórnina of mikill. Svolítið óljós skilaboð. b) Nýr framkvæmdastjóri var kynntur til sögunnar. c) Snærós Sindradóttir, formaður UVG í Reykjavík, hraunaði yfir þingmenn flokksins, þó ekki í nafni ungliðahreyfingarinnar, bara sín sjálfrar. Engu að síður vel gert. Ólafur Örn ætti að taka hana sér til fyrirmyndar og í framtíðinni bara tala fyrir sjálfan sig en ekki fyrir hönd SUS. d) Líkt og hjá Sjálfstæðisflokknum var rifist um ESB. Verst fyrir VG að ríkisstjórnin er að sækja um aðild, þvert ofan í vilja flokksmanna. e) Fyrrum samherji Steingríms og Ögmunds úr Alþýðubandalaginu, Guðrún Helgadóttir, kom í kjölfar flokksráðsfundarins í útvarpið og húðskammaði forystu VG fyrir hugsjónasvik og valdagræðgi. Mikið til í því.

Þrátt fyrir þessa yfirborðskenndu samantekt á stjórnmálafundum flokkanna sýnir hún engu að síður að stjórnmál á Íslandi hafa lítið breyst og ekki virðist mikil von til þess að eitthvað lagist. Ennþá þorir enginn að sjá bjálkann í eigin auga, auðveldara er að kasta steinum úr glerhúsi, yppa öxlum og segja: „Ég er frábær og flokkurinn minn er Bestur.“ Hrokinn er enn til staðar og á meðan svo er munu stjórnmálamennirnir vera áfram úr tengslum við fólkið í landinu. Fólkið er, stjórnmálamönnunum til happs, með ótrúlegt langlundargeð en spurningin er ekki hvort heldur hvenær þolinmæðina brestur og Búsáhaldabyltingin síðari brýst út, ef fram heldur sem horfir og sáralítið breytist til batnaðar.

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.