Klasaklúður fjármálaeyjunnar, kafli XXXIV – Gengistryggðu lánin

Enn einn kaflinn í bankahrunsuppgjörinu er nú í hápunkti. Hæstiréttur dæmdi nýlega lán í krónum tengd gengi erlendra mynta ólögleg. Hvað það þýðir veit nú enginn en mikilvægt er að halda ró sinni og stefna hratt og örugglega að úrlausn þessa máls enda um samninga upp á hundruð milljarða að ræða og fjárhagsleg heilsa fjölmargra heimila háð lendingu þess.

Braut gengistryggðu lánanna er vörðuð ógæfulegum ákvörðunum og ákvarðanaleysi af margra hálfu. Lántökur í erlendri mynt voru mjög áhættusamar fyrir flesta íslenska lántakendur sem fæstir höfðu raunverulega greiðslugetu í erlendri mynt. Að sama skapi voru lánveitingarnar áhættusamar fyrir þá banka og fjármálafyrirtæki sem þau veittu. Lögin um verðtryggingu sem bönnuðu tengingu lána við gengi erlendra mynta á sama tíma og lán í erlendri mynt voru fyllilega leyfð virðast á ákveðinn hátt skrítin. Samningsgerð fjármálafyrirtækjanna við útlán “í erlendri mynt” er hins vegar alveg forkastanleg og alveg hreint ótrúlegt að jafnumfangsmiklir samningar hafi verið gerðir í tráss við ansi skýr lög. Þá er sofandaháttur eftirlitsstofnana hvað þetta varðar einnig ansi magnaður. En hvernig sem við komumst hingað og hverjum það er að kenna (og hvort eftirávisku gæti í þessum pistil) skiptir ekki höfuðmáli núna. Við erum í holu og þurfum að koma okkur upp úr henni.

Hvað er réttlát lausn?

Hvar réttlætið liggur í þessu máli er ekki augljóst frekar en í mörgum flóknum málum. Á ekki neytandinn að njóta þessa klúðurs fjármálastofnana? Þýðir það þá að sérhvert ákvæði í samningum skuli túlkast neytandanum í vil í stað þess að heildarsamningurinn sé skoðaður? Var ekki samningurinn tvíhliða og bera báðir aðilar því ekki nokkra ábyrgð? Er sanngjarnt fyrir þá sem ákváðu að taka “ábyrgari” ákvörðun með töku verðtryggðra lána að hinir áhættusæknu stórgræði? Eflaust má spyrja fleiri spurninga og svörin er jafneflaust fjölmörg og mismunandi eftir því hvar hver stendur. Það er skoðun þess sem þetta ritar að réttlát lausn væri á þeim nótum að fyrir hvern lántakanda yrðu ólögleg gengistryggð lán endurreiknuð á þrjá vegu; miðað við að lánið væri erlent eins og upphaflega var stefnt að, miðað við að verðtryggt lán hefði verið tekið á sama tíma og svo ef óverðtryggt lán hefði verið tekið og þá miðað við stýrivexti Seðlabanka (sem eru hagstæðari kjör en hefðu raunverulega boðist). Sú leið af þessum þremur sem hagstæðust væri fyrir hvern lántakanda yrði látin gilda. Þannig væri neytandinn látinn njóta vafans í meginatriðum en ekki í sérhverju atriði samningsins.

Inn í þessa umræðu spilast svo hegðun fjármálafyrirtækja, sér í lagi bílafjármögnunarfyrirtækja, sem virðast fyrst hafa nýtt sér vanþekkingu neytenda við samningsgerð til að ná fram óeðlilega sterkum tökum á lántakandanum með smáu letri og svo nýtt sér það smáa letur og neyð skuldarans til að hagnast þegar skuldarinn var kominn í greiðsluþrot. Þetta framferði særir mjög réttlætiskennd pistlahöfundar eins og flestra.

En hvar pistlahöfundur telur réttlætið liggja skiptir litlu máli hér. Það sem skiptir máli er hvar dómstólar telja lagalegan rétt liggja. Við búum í réttarríki og ef tveir deila um gerða samninga sín á milli er það hvorki löggjafinn né framkvæmdarvaldið sem á að stökkva inn og skakka leikinn heldur dómsvaldið.

Eðlileg skref til að nálgast lendingu

Eins og áður segir eru það dómstólar sem hafa lokavaldið hvað gengistryggðu lánin varðar. Samningsform lána í erlendri mynt eða með gengistryggingu sem voru í gangi eru mörg og mismunandi og líklega þurfa fleiri mál að fara fyrir dóm til þess að útkljá hvaða samningsform voru lögleg og hver ekki. Jafnframt þarf líklega fleiri dómsmál til þess að ákvarða hvernig skal meðhöndla uppgjör ólöglegra lánasamninga. Hins vegar er full ástæða til þess að flýta þessu ferli eins og mögulegt er.
Æskilegt er að fjármálafyrirtækin séu skynsöm í því að ákveða hvaða mál þurfi að fara alla leið í dómskerfinu og hvar þurfi bara að sætta sig við að samningar voru ólöglegir. Það þjónar engum hagsmunum að berja höfðinu við steininn og fara með öll möguleg samningsform fyrir dóm þegar svipaðir samningar hafa verið úrskurðaðir ólöglegir. Að sama skapi er heppilegt að samningsaðilar fari að haga sér eftir “líklegri útkomu” um uppgjör hinna ólöglegu samninga. Þannig eru tilmæli Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins í grunninn heppilegt milliskref. Þau koma engan veginn í staðinn fyrir úrskurð dómstóla sem óhjákvæmilega þarf að koma til en ef tilmælin miðast að líklegri lausn eru lánamál þó að minnsta kosti færð nær eðlilegu ástandi smám saman. Þá væri heppilegt að dómstólum yrði veitt úrræði til þess að flýta meðferð mála sem hafa mikið fordæmisgildi í mikilvægum málum. Loks væri óskandi að í næsta máli sem fer fyrir dóm í þessum flokki verði af hálfu lánveitanda sett fram varakrafa, varavarakrafa og þar fram eftir götunum til þess að gefa dómstólum möguleika á að úrskurða um lausn.

Svo er bara að vona að nýjum köflum í ógæfusögunni okkar fari að fækka og að við getum farið að lesa skemmtilegri fréttir. Kannski væri líka fínt að fá bara Kötlugos, svona þegar túristavertíðin er búin.