Lakers á sigurbraut

Allur heimurinn stendur nú á öndinni yfir íþróttaviðburði sem á sér fáar hliðstæður. Leikmennirnir eru þeir bestu í heimi, margbrotin saga fylgir þeim í hverju fótmáli, aðdáendur ráða sér vart af ást til eigin liðs og hatri í garð andstæðingsins og spennan magnast með hverjum leik.

Allur heimurinn stendur nú á öndinni yfir íþróttaviðburði sem á sér fáar hliðstæður. Leikmennirnir eru þeir bestu í heimi, margbrotin saga fylgir þeim í hverju fótmáli, aðdáendur ráða sér vart af ást til eigin liðs og hatri í garð andstæðingsins og spennan magnast með hverjum leik. Í kvöld fer fram sjötti leikur í lokaeinvígi NBA deildarinnar í körfubolta. Hið sögufræga lið Los Angeles Lakers á í höggi við hina öldnu reynslubolta í Boston Celtics.

Los Angeles Lakers er besta körfuknattleikslið sögunnar. Um það efast enginn sem hefur þekkingu á NBA deildinni. Frá því deildin opnaðist og þeldökkir leikmenn fengu tækifæri til að blómstra hefur Lakers borið höfuð og herðar yfir önnur. Á síðustu 40 árum hefur Lakers unnið Vesturdeildina átján sinnum og tíu sinnum orðið NBA meistari. Chicago Bulls og Boston Celtics koma þar næst með sex meistaratitla.

Þessar tölur, sem óneitanlega segja nánast alla söguna þegar liðin eru borin saman, eru þó aðeins toppurinn á ísjakanum. Það er óhætt að halda því fram að ef tekið væri saman úrvalslið þeirra leikmanna sem leikið hafa með Lakers á þessu tímabili og það léki gegn úrvalsliði leikmanna úr öllum öðrum liðum, þá hefði Lakers mikla yfirburði. Magic Johnson, Kobe Bryant, Elgin Baylor, Karl Malone og Kareem Abdul-Jabbar gætu myndað byrjunarlið sem stæðist öllum öðrum liðum snúning – og með menn á borð við Wilt Chamberlain, Jerry West, James Worthy og Shaquille O´Neal á bekknm þyrfti aldrei að efast um úrslit slíks leiks. Fyrir þá sem ekki vita þá eru í þessum hópi að minnsta kosti sex eða sjö leikmenn sem kæmust á lista flestra yfir tíu bestu leikmenn í sögu íþróttarinnar.

Í úrslitunum núna eigast því við besta lið NBA sögunnar og Boston Celtics, sem átti sín gullaldarár á tímum kynþáttaaðskilnaðar í Bandaríkjunum þegar margir af bestu leikmönnum heims áttu engan möguleika á því að spila í deildinni vegna hörundslitar. En slík sagnfræði hefur auðvitað engin áhrif á gang mála í einvígi liðanna í dag. Nú mætast annars vegar heilsteypt lið Lakers, sem hefur haldið í sama kjarnann árum saman, og mósaíkmynd Bostonliðsins sem byggist á leikmönnum sem keyptir voru til liðsins við lok ferils síns, eftir að þeir gáfust upp á að vinna titil á eigin spýtur. Sanngjarnasta samlíking er sennilega sú að segja að Lakers sé eins og Manchester United og Liverpool, sem leggja áherslu á að byggja upp góða leikmenn og halda við þá hollustu, en Boston eins og Chelsea sem nær árangri með því að eyða meiri peningum í leikmenn en nokkurt annað lið og hugsa frekar til skamms tíma en langs.

Helsta stjarna Lakers er Kobe Bryant, sem af flestum er talinn einn af þremur bestu leikmönnum deildarinnar í dag. Það sem einkennir hann er eindrægur sigurvilji og vinnuharka sem á sér fáar hliðstæður. Sagt er að hann mæti á æfingar klukkutíma á undan öðrum og fari ávallt síðastur úr húsi. Hann er mikill fjölskyldumaður og lætur hið ljúfa líf sem íþróttastjörnum býðst algjörlega eiga sig. Paul Pierce, hinn mistæka stórstjarna í liði Boston Celtics, hefur hins vegar lengi valdið aðdáendum sínum vonbrigðum með taumlausu partístandi, sem hefur meira að segja gengið svo langt að ógna lífi hans þegar hann var stunginn á næturklúbbi. Hann er einnig þekktur fyrir að sýna mikla dramatíska tilburði á vellinum og hefur verið gagnrýndur fyrir að ýkja smávægileg meiðsli. Þetta gerir hann í miðjum leikjum og lætur fylgja sér haltrandi út af vellinum en snýr svo aftur alheill nokkrum mínútum seinna eins og Lasarus og ekkert virðist hafa í skorist.

Pau Gasol og Andrew Bynum, turnarnir tveir hjá Lakers, eru meðal skemmtilegustu „tvíburaturna“ í sögu deildarinnar. Gasol hefur knatttækni og leikni sem fáir svo hávaxnir menn geta keppt við og Bynum er sannkallaður brimbrjótur í miðjunni. Þeir keppast við hinn aldna og úrilla Kevin Garnett, sem eitt sinn var meðal bestu leikmanna deildarinnar, og hinn skapheita Kendrick Perkins sem hefði átt að vera búinn að taka út bann í úrslitakeppninni ef NBA deildin hefði ekki afturkallað tæknivillu sem honum var veitt í leik. Ray Allen, stórskytta hjá Boston, vann sér það til frægðar á yngri árum að leika í ástarsenu með tveimur klámmyndaleikkonum í kvikmynd, virðist hafa látið hinn sallarólega Derek Fisher, leikstjórnanda Lakers, koma sér úr jafnvægi. Fisher er almennt álitinn einhver mesti foringi deildarinnar og munu Demókratar í Bandaríkjunum ákafir að tæla hann í stjórnmálin þegar farsælum ferli hans lýkur.

Besti leikmaður Boston í vetur er hinn sérlundaði leikstjórnandi Rajon Rondo. Hann er þekktur fyrir að vera ákaflega sýklahræddur og að hafa upphafsstafi sína húðflúraða á bak sitt. Gömlu stjörnurnar í Boston hafa átt erfitt með að hemja afbrýðisemi sína út í hinn unga Rondo í vetur en í úrslitakeppninni hefur skapast meira jafnvægi. Annar ungur og áhugaverður leikmaður er hinn þéttvaxni Glen Davis, sem kallaður er „Big Baby“ eftir að Kevin Garnett grætti hann með skömmum sínum í miðjum leik fyrir nokkrum árum. Það vantar ekki ákafann í Davis, sem eltist við fráköst af sömu áfergju og hann hámar í sig skyndibita og kleinuhringi.

Aðrir áhugaverðir leikmenn hjá Lakers eru hinn stærðfræðimenntaði Ron Artest og hinn fjölhæfi Lamar Odom. Artest þykir einhver besti varnarmaður sögunnar og hefur náð að slökkva í hverri stórstjörnunni á fætur annarri í úrslitakeppninni, þótt sóknarleikurinn hafi ekki verið til að hrópa húrra yfir. Odom er alhliðaleikmaður sem getur snúið heilu leikjunum Lakers í hag þegar hann tekur sig til.

Í kvöld fer fram sjötti leikurinn, en staðan í einvíginu er 3-2 Boston í vil. Boston nægir einn sigur í viðbót til að tryggja sér meistaratign en flestir sérfræðingar telja að það verði mjög erfitt þar sem Lakers er nánast ósigrandi á heimavelli. Einvígið er engu að síður sögulegt og óhætt að hvetja alla sem vettlingi geta valdið að fylgjast með og senda jákvæða strauma í rétta átt.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.