Leiðin að kosningaréttinum

Í dag, 19. júní, fögnum við Íslendingar kvenréttindadeginum en sama dag árið 1915 fengu íslenskar konur kosningarétt. Af því tilefni er ekki úr vegi að líta yfir söguna og kanna þau atvik sem helst mörkuðu spor í baráttu íslenskra kvenna fyrir stjórnmálaþátttöku sinni.

Í dag, 19. júní, fögnum við Íslendingar kvenréttindadeginum en sama dag árið 1915 fengu íslenskar konur kosningarétt. Af því tilefni er ekki úr vegi að líta yfir söguna og kanna þau atvik sem helst mörkuðu spor í baráttu íslenskra kvenna fyrir stjórnmálaþátttöku sinni.

Í tilraunum sínum til að láta að sér kveða í samfélaginu fóru íslenskar konur tvær misáhrifaríkar leiðir. Þær reyndu annars vegar að hafa áhrif á þróun samfélagsins með því að færa hefðbundin kvennastörf út í samfélagið og bundust samtökum um góðgerðar- og mannúðarstörf. Hins vegar reyndu konur að ná áhrifum og styrkja stöðu sína utan heimilisins með því að afla sér sömu réttinda og karlar en í þeim tilraunum kvenna varð baráttan fyrir kosningaréttinum meginatriðið. Ekki leið á löngu þar til fyrrnefnda leiðin fór að bera árangur en árangur þeirrar síðarnefndu lét töluvert á sér standa.

Árið 1882 var stigið örlítið skref í átt til jafnréttis þegar hluti íslenskra kvenna hlaut kosningarétt í fyrsta sinn. Þetta ár fengu ekkjur og aðrar ógiftar konur, er stóðu fyrir búi eða áttu á annan hátt með sig sjálfar, kosningarétt á sömu forsendum og karlmenn. Þær þurftu að hafa náð 25 ára aldri, hafa átt fast aðsetur í hreppnum/bænum, hafa goldið skatt, máttu ekki skulda sveitastyrk, urðu að vera fjár síns ráðandi og ekki öðrum háðar sem hjú. Kosningaréttur þessi gilti í sýslunefndir, hreppsnefndir, bæjarstjórnir og á safnaðarfundum en réttinum fylgdi ekki kjörgengi. Með þessum lögum voru boðuð talsverð nýmæli en með þeim var fyrsta skarðið rofið í kynjamúr íslenskra kosningalaga.

Árið 1894 var stofnað í Reykjavík Hið íslenska kvenfélag og hafði það jafnrétti kynjanna og þátttöku kvenna í opinberum málum á stefnuskrá sinni. Félagið safnaði 2348 undirskriftum með áskorun til Alþingis um að veita konum stjórnmálalegt jafnrétti og kosningarétt árið 1895. Þetta var fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna sem skipulögð samtök kvenna lögðu fram. Árið 1907 safnaði kvenfélagið svo 11.381 undirskriftum, víðsvegar að úr heiminum, í sama tilgangi og fyrr, í baráttunni fyrir stjórnmálalegu jafnrétti og kosningarétti kvenna.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir hóf svo merki baráttunnar fyrir kosningarétti kvenna á loft fyrir alvöru með stofnun Kvenréttindafélags Íslands árið 1907 en hún var formaður félagsins um árabil og helsta forystukona landsins í kvenréttindamálum. Ljóst er að Kvenréttindafélag Íslands lék lykilhlutverk í uppgangi kvenréttinda hérlendis en þarna var á ferðinni félagsskapur sem stefndi að umbyltingu á valdahlutföllum þjóðfélagsins og öllum hugmyndum um möguleika kvenna í samfélaginu. Félagið beitti margskonar aðferðum í baráttu sinni og stóð meðal annars fyrir stofnun sambandsfélaga, opinberum fyrirlestrum og fundum víðs vegar um landið.

Það var ekki fyrr en árið 1902 að konur fengu kjörgengi í kosningum en þá með sömu skilyrðum og fylgdu kosningarétti kvenna árið 1882. Bríet Bjarnhéðinsdóttir sagði í Kvennablaðinu að þarna væri á ferðinni riddaraskapur íslenskra karla og göfuglyndi við konur því þetta voru ekki lög sem þær höfðu barist fyrir. Þessar breytingar urðu til þess að Bríet fór að tala fyrir innkomu kvenna í bæjarstjórn og sagði sóma kvenna liggja við.

Eitt af fyrstu verkefnum Kvenréttindafélagsins var að beita sér fyrir framboði kvenna við bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík 24. janúar 1908 en þann sama dag fengu konur í Reykjavík og Hafnarfirði loks bæði kosningarétt og kjörgengi til bæjarstjórna í sínum sveitarfélögum með því skilyrði að vera giftar karlmönnum með sama rétt. Kosningarnar 1908 skelfdu margan karlmanninn en með hinum nýfengnu stjórnmálaréttindum kvenna virtist nagandi ótti hafa læðst að karlkyns þingmönnum. Þeir óttuðust fjölda nýrra kjósenda og að konur myndu hverfa af heimilunum og hætta að sýna undirgefni á opinberum vettvangi.

Nokkrum mánuðum fyrir kosningar hélt Bríet ræðu á fundi Hins íslenska kvenfélags þar sem hún lagði mikla áherslu mikilvægi þess að konur sýndu stjórnmálum Reykjavíkur áhuga og kysu sér að lágmarki 5 konur í bæjarstjórn. Enginn flokkur í Reykjavík hóf svo snemmbúinn og skipulagðan undirbúning fyrir kosningar líkt og kvennalistinn gerði. Skipulagshæfnin vakti aðdáun og fjöldi kynninga og fyrirlestra voru haldnir í aðdraganda kosninga. Konurnar skiptu Reykjavík í 7 umdæmi, hvert með sitt umdæmaráð, sem sjá skyldi til þess að hver einasta kona í Reykjavík yrði heimsótt og hvött eindregið til að nýta sér kosningaréttinn.

Baráttan skilaði svo loks árangri að yfirstöðnum kosningum því konur höfðu nú fengið sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur í fyrsta sinn. Af fimmtán fulltrúum sem kosið var um fengu konur fimm en fjórar þeirra voru kjörnar af kvennalista Reykjavíkur sem fékk flest atkvæðin í kosningunum. Í þessari baráttu sýndu reykvískar konur slíka samvinnu og samheldni að annað eins hafði ekki sést og var þessi atburður nefndur Kvennasigurinn mikli.

Það var hinn örlagaríka 19. júní 1915 að íslenskar konur 40 ára og eldri fengu loks langþráðan kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Samkvæmt lögunum átti aldurstakmarkið að lækka um eitt ár árlega næstu 15 árin. Árið 1920, í kjölfar fullveldis Íslands, fengu Íslendingar nýja stjórnarskrá frá Dönum – Stjórnarskrá konungsríkisins Íslands. Með hinni nýju stjórnarskrá var kosningaaldur kvenna færður til samræmis við kosningaaldur karla, en hann var 25 ár. Voru þetta mikilsverðar réttarbætur frá frændum okkar, Dönum. Lækkaði kosningaaldurinn svo í gegnum árin og náði loks núverandi 18 árum á árinu 1984.

Aldursákvæði laganna frá 1915 var einsdæmi í heiminum en einungis Bretar höfðu sett viðlíka aldursákvæði í lög sín bundið við 30 ára aldur. Þessi njörvun þingmanna á kosningarétti kvenna byggði á ótta þeirra við hið nýtilkomna sterka pólitíska afl sem bjó að miklum árangri og frábæru skipulagi við kosningarnar í Reykjavík 1908. Bríet Bjarnhéðinsdóttir fjallaði um hið nýtilkomna aldursákvæði stjórnarskrárinnar og sagði í Kvennablaðinu að það væri ,,snoppungur” fyrir konur að fá það framan í sig að fyrst við 40 ára aldur næðu þær þeim þroska sem 25 ára karlmenn hefðu náð. Einnig kallaði hún hið nýja aldursákvæði ,,hinn nafnfræga, íslenska stjórnviskulega búhnykk”. Bríet benti á þá staðreynd að konur hefðu sýnt kosningaréttinum margfalt meiri áhuga en karlar enda hefðu karlar aldrei sent þúsundir áskorana til þingsins í því skyni að óska eftir kosningarétti. Að öllu samanlögðu fannst Bríeti þó að konur gætu unað sáttar við þessa stjórnarskrárbreytingu.

Undir stjórn Kvenréttindafélags Íslands, Hins Íslenska kvenfélags og fleiri kvenfélaga í Reykjavík var svo haldin hátíð á Austurvelli til að fagna þessum merku tímamótum. Samkoman var ein sú fjölmennasta sem haldin hafði verið hér á landi á þessum tíma og aldrei höfðu áður sést samankomnar svo margar prúðbúnar konur.

Latest posts by Hildur Björnsdóttir (see all)

Hildur Björnsdóttir skrifar

Hildur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hún hóf að skrifa á Deigluna í september 2010.