Nú í vikunni gáfu Suður-kóresk yfirvöld út niðurstöðu rannsóknarnefndar, sem var ætlað að rannsaka hvað varð til þess að Suður-kóreskt herskip sökk í mars á þessu ári. Þar kom fram að það hafi verið Norður-kóreskt tundurskeyti sem hafi sökkt herskipinu með þeim afleiðingum að 46 hermenn létu lífið. Yfirvöld í Pyongyang hafa brugðist hart við þessum ásökunum og segja þær falsaðar og hafa hótað allsherjarstríði ef að Suður-Kórea reyni að svara fyrir árásina.
Þessi viðbót í safn óskiljanlegra aðgerða Norður-Kóreu síðustu árin, rekur síðasta naglann í kistu „Sólskinsstefnu“ Suður-Kóreu, sem varði frá 1998 og byggði á því að koma á sterkari tengslum milli Suður og Norður-Kóreu, með ýmsum sameiginlegum viðskiptasamningum og sterkari pólitískum böndum.
Stjórnarfyrirkomulagið í Norður-Kóreu er um margt einstakt. Landinu er í raun stjórnað eins og mafíu. Hvort sem það er að rækta fíkniefni til útflutnings eða falsa bandarískar sígarettur og dollara, þá eru það iðngreinar sem eru ekki fyrir neðan virðingu stjórnvalda. Í rauninni er Norður-Kórea eina landið í dag sem hefur skipulagða glæpastarfsemi sem eitt helsta tæki sitt í efnahags og utanríkismálum. Helsti munurinn á mafíunni og Pyongyang er þó sá, að Don Vito Corleone hafði ekki fjórða stærsta her heims til að aðstoða við harkið.
Líkt og góðum mafíósum sæmir, gengur „höfuð fjölskyldunnar“ í erfðir en Kim Jong Il, tók við endasætinu af föður sínum Kim il-Sung og nú er þegar byrjað að undirbúa Kim Jong-Un undir að fylla skó föður síns, en hann er orðinn heilsulítill samkvæmt nýjustu fregnum. Mikill óstöðugleiki fylgir yfirleitt í kjölfar stjórnarskipta í einræðisríkjum. Hinn góði árangur við að skipta feðgunum út á tíunda áratug síðustu aldar, er ekki sjálfgefinn og má ekki búast við að eins vel takist í hverjum ættlið.
Árásin sem var gerð á herskip Suður-Kóreu mun kalla á viðbrögð þeirra og annarra friðsækinna ríkja heimsins. Nauðsynlegt verður fyrir þau að taka með í reikninginn yfirvofandi valdaskipti hjá þessu mafíurekna landi og þann óstöðugleika sem þar virðist ríkja. Landið býr yfir gereyðingavopnum og gríðarlega öflugum her. Það eru því ekki miklar líkur á að beitt verði hernaðaraðgerðum gegn þeim en augljóst er að þessi árás getur ekki verið látin afskiptalaus.
Rökréttasta skrefið fyrir Suður-Kóreu væri að reyna að fá Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að samþykkja enn strangari refsiaðgerðir gagnvart Norður-Kóreu en nú eru í gildi. Mun það ráðast af því hvaða afstöðu Kína tekur en hingað til hafa stjórnvöld þar ekki verið sérstaklega viljug til að koma böndum á Norður-Kóreu. En sjaldan hefur líka verið jafn skýrt dæmi um brot landsins og ljóst er að Kína mun liggja undir mjög miklum þrýstingi að samþykkja refsiaðgerðirnar.
Bandarísk stjórnvöld og Suður-kóresk munu þó, ef atkvæðagreiðslan um refsiaðgerðir munu ekki ná fram að ganga í Öryggisráðinu, án nokkurs vafa beita einhliða refsiaðgerðum gagnvart landinu. En það mun vera mikið efnahagslegt áfall fyrir Norður-Kóreu. Til dæmis starfa 40.000 einstaklingar í einni verksmiðjunni sem byggð var í Norður-Kóreu þegar „Sólskinsstefnan“ var tekin upp. Er næsta víst að henni verði lokað og aðrar stórar uppsprettur gjaldeyris og annars konar aðstoðar frá Suður-Kóreu og Bandaríkjunum mun lokast.
Verkefnið sem Suður-Kórea og ríki heimsins standa frammi fyrir er því í stuttu máli, að koma með það íþyngjandi aðgerðir að það muni fæla Norður-Kóreu frá því að endurtaka árásir sem þessa í framtíðinni, en án þess þó að aðgerðirnar verði það íþyngjandi að það geti leitt til allsherjar stríðs. En eins og sagan hefur margoft sýnt þá vilja þeir, rétt eins og aðrir mafíósar, sjaldan fórna munaðaríferni sínu fyrir baráttu við mögulegt ofurefli. Þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar.
- Það rignir góðum fréttum - 9. júlí 2021
- Álhattaveislan verður aldrei haldin - 5. júní 2021
- Sköpum 7.000 störf - 27. mars 2021