Verjum okkur fyrir sólinni

Hvað er yndislegra en að láta sólina skína í trýnið á sér á fallegum sumardegi? Líklega fátt dásamlegra en því geta fylgt ömurlegar afleiðingar. Stærsta líffæri líkamans er oftast óvarið og getur farið illa þegar sterkir geislar sólarinnar lenda á húðinni. Það er þó auðvelt að verja sig fyrir þessum hættulegu fylgifiskum sólskinsins.

Hvað er yndislegra en að láta sólina skína í trýnið á sér á fallegum sumardegi? Líklega fátt dásamlegra en því geta fylgt ömurlegar afleiðingar. Stærsta líffæri líkamans er oftast óvarið og getur farið illa þegar sterkir geislar sólarinnar lenda á húðinni. Það er þó auðvelt að verja sig fyrir þessum hættulegu fylgifiskum sólskinsins.

Nú er að nálgast sá tími ársins þegar maður nýtir hvert tækifæri til þess að horfa til sólar og lætur hana verma sig. Útfjólubláir geislar sólarinnar geta verið mjög hættulegir og eru taldir vera stærsti hrukkuvaldurinn. Þeir sem vilja því vera með slétta og fallega húð eitthvað frameftir aldri ættu að forðast sterka sól og bera reglulega á sig sólarvörn, þó að það sé ekki á áætluninni að liggja í sólbaði.

Aðrar og hættulegri alfleðingar sólbaða en hrukkur geta verið ýmsar tegundir húðkrabbameins. Þrjár gerðir húðkrabbameina eru algengastar: Sortuæxli, flöguþekjukrabbamein og grunnfrumukrabbamein. Rannsóknir hafa sýnt að orsakatengsl eru á milli sólargeislunar og allra þessara krabbameina.

Talið er að áhættuþættir húðkrabbameina séu nokkrir og áhættan er mismikil eftir litarhafti. Þeir sem eru með ljósa húð, sem brennur auðveldlega í sól, eru í mestri hættu en það eru yfirleitt þeir sem fá freknur auðveldlega. Freknur eru því ekki hraustleikamerki eins og talið var áður heldur merki um það að viðkomandi þarf að fara varlega í sól og vera iðinn við að bera á sig sólarvörn.

Þegar húðin brennur og verður rauð eykur það hættu á sortuæxlum og sérstaklega ef húðin hlýtur annars eða þriðja stigs bruna og það koma blöðrur á húðina við brunann. Börn og unglingar eru sérstaklega í áhættuhópi og ýmsar rannsóknir hafa sýnt að áhættan á húðkrabba margfaldast hjá þeim sem brenna sem börn eða unglingar. Það er því sérstaklega mikilvægt að bera vel á börnin og gæta þess að sterk sól skíni ekki á þau lengi í einu.

Sumarið er því einnig sá tími þar sem allir þurfa að kíkja á kremdollurnar sínar og athuga hvort það sé ekki örugglega sólarvörn í andlitskreminu. Ef svoleiðis dollur eru sjaldséðir gestir í hillunum á baðherberginu er tími til komin að fjárfesta í góðri sólarvörn eða andlitskremi sem inniheldur sólarvörn. Á þeim krukkum stendur oftast SPF 15 eða 25 og ættu öll andlitskrem sem við berum á okkur að vera með góðri sólarvörn. Það er góð vörn gegn sólinni svo hægt sé að njóta hennar í sumar.

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)