Er ritskoðun framtíðin?

Undanfarið hefur ritskoðun kínversku ríkisstjórnarinnar á leitarvélinni Google verið til umræðu. Google risinn reis upp og neitaði að taka þátt í ritskoðun kínversku ríkisstjórnarinnar á netinu og var kínverska ríkisstjórnin langt frá því að vera sátt með viðbrögðin. Nú er svo komið að Kínverjar hafa meira að segja bannað alla jákvæða umræðu um Google. Sem Íslendingur getur verið erfitt að ímynda sér ritskoðun, en í samanburði við margar aðrar þjóðir búum við við ákaflega ríka mannréttindavernd.

Undanfarið hefur ritskoðun kínversku ríkisstjórnarinnar á leitarvélinni Google verið til umræðu. Google risinn reis upp og neitaði að taka þátt í ritskoðun kínversku ríkisstjórnarinnar á netinu og var kínverska ríkisstjórnin langt frá því að vera sátt með viðbrögðin. Nú er svo komið að Kínverjar hafa meira að segja bannað alla jákvæða umræðu um Google.

Sem Íslendingur getur verið erfitt að ímynda sér ritskoðun, en í samanburði við margar aðrar þjóðir búum við við ákaflega ríka mannréttindavernd. Þannig eru mannréttindi okkar varin í heilum kafla í stjórnarskránni og með innleiðingu Mannréttindasáttmála Evrópu í íslenska löggjöf var mannréttindum gefið enn meira vægi í íslensku samfélagi.

Mannréttindavernd var lítil sem engin fyrir frönsku byltinguna árið 1789 en í kjölfar hennar var gefin út mannréttindaskrá sem mælti fyrir um helstu mannréttindi frakka. Á þeim tíma voru mannréttindi aðeins gefin karlmönnum, en það átti síðar eftir að breytast. Í kjölfar frönsku byltingarinnar breiddust mannréttindi hægt og rólega um alla Evrópu og gætti áhrifum hennar meðan annars í stjórnarskrá Dana frá 1849, en eins og flestir vita byggir stjórnarskrá íslenska lýðveldisins í meginatriðum á henni. Undir stjórn einvalda konunga um alla Evrópu ríkti lítið, og raunar ekkert, tjáningarfrelsi. Þegar Evrópuríkin losuðu sig hægt og rólega undan einvalda konungum var áhersla lögð á prentfrelsi, en það þótti meðal mikilvægustu liða í því að koma í veg fyrir að einvalda konungar myndu aftur ná stjórn á Evrópu.

Um árabil hefur prentfrelsið, sem síðar þróaðist í tjáningarfrelsi, verið nýtt í útgáfu og máli, en með tilkomu internetsins breyttust möguleikar manna á tjáningu mikið. Allt í einu fór að vera mun auðveldara að tjá sig og ennþá einfaldara að dreifa upplýsingum á miklu stærri vettvang en áður hafði sést. Að mörgu leyti er þetta jákvætt enda getur internetið stuðlað að gríðarlegri þekkingaraukningu heilu samfélaganna, en það er sjaldan ein hlið á peningnum og því miður hefur internetið einnig að geyma margt óæskilegt efni. Á internetinu þrífast allskyns ummæli sem eru í besta falli vafasöm og versta falli hrein meiðyrði og í mörgum tilvikum eru þau nafnlaus.

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir svona ummæli? Flestir eru sammála um þær skelfilegar afleiðingar sem niðurlægjandi ummæli geta haft. Fjallað hefur verið um þunglyndi og jafnvel sjálfsvíg ungmenna sem orðið hafa fyrir nafnlausum árásum af þessu tagi, en erfitt getur verið að taka afstöðu til þess hvað eigi að gera í málinu. Hugmyndir um einskonar „netlögreglu” hafa verið á lofti og rætt hefur verið um að banna nafnlaus ummæli á netinu, en báðar hugmyndir takmarkast af því að þótt íslensk yfirvöld setji einhverskonar reglur um netnotkun er internetið alheims fyrirbæri og takmarkast engan vegin af íslenskri lögsögu.

Þegar hugmyndir af þessu tagi eru bornar upp verður ávallt að velta fyrir sér afleiðingum þeirra á tjáningarfrelsið. Þótt flestir hljóti að vera sammála um að særandi ummæli í garð einstakra persóna séu ólíðandi, verður alltaf að passa að takmarkanir sem settar eru á þau hafi ekki áhrif á almennt tjáningarfrelsi á internetinu. Gríðarlega mikilvægt er að takmarkanir á tjáningarfrelsinu séu vel ígrundaðar. Ekkert frelsi er algert og menn þurfa alltaf að þola einhverjar takmarkanir í þeim efnum. Hinsvegar mega takmarkanirnar aldrei vera meiri en nauðsyn krefur. Tjáningarfrelsið er nefnilega grundvallar liður í lýðræðislegu þjóðfélagi. Það er nauðsynlegt að borgarar geti gagnrýnt stjórnvöld óáreittir því annars er hætta á algjörri stöðnun.

Tjáningarfrelsið er langt frá því að vera sjálfsagt og það er gífurlega mikilvægt að við séum meðvituð um að standa vörð um það. Í hvert skiptið sem að hugmyndir koma upp um takmarkanir á tjáningarfrelsi, hversu mikið sem þær kunna að hafa rétt á sér, er ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegt að við séum á varðbergi.