Vinsælasta stúlkan

Málaflokkurinn jafnrétti er eins og sjóðandi heit kartafla, sem enginn kærir sig um að halda á lofti lengur en fáeinar sekúndur af ótta við að skaðbrenna sig. Af einhverjum óskiljanlegum orsökum virðist þessi kartafla vera mun heitari í höndum Sjálfstæðismanna, og alveg sjóðandi í höndum kvenna innan flokksins. Jafnréttisstefnu skilgreini ég á þá vegu að hún geri okkur kleift að skapa ástand þar sem einstaklingar eru metnir eftir hæfni, ekki kyni. Að metnaður og dugnaður komi fólki nær takmarki sínu og að kyn þeirra þurfi ekki að spila þar inn í.

Málaflokkurinn jafnrétti er eins og sjóðandi heit kartafla, sem enginn kærir sig um að halda á lofti lengur en fáeinar sekúndur af ótta við að skaðbrenna sig. Af einhverjum óskiljanlegum orsökum virðist þessi kartafla vera mun heitari í höndum Sjálfstæðismanna, og alveg sjóðandi í höndum kvenna innan flokksins. Jafnréttisstefnu skilgreini ég á þá vegu að hún geri okkur kleift að skapa ástand þar sem einstaklingar eru metnir eftir hæfni, ekki kyni. Að metnaður og dugnaður komi fólki nær takmarki sínu og að kyn þeirra þurfi ekki að spila þar inn í

Fæstir láta sér detta í hug að þræta fyrir að jafnrétti er enn ábótavant í samfélagi nútímans, það er fullljóst að markmiðum um jöfn laun, atvinnutækifæri og stöður hefur ekki verið náð – en við höfum þó tekið stór skref í rétta átt á síðastliðnum árum og því ber að fagna eins og öðru sem vel er gert. En eins og hjá alkóhólistum er fyrsta skref í átt að bata ávallt að viðurkenna vandann. Og það að viðurkenna þennan vanda gerir okkur ekki sjálfkrafa að móðursjúkum kellingum í Vesturbænum eða mjálmandi hommum, eins og margir virðast halda. Það er hægt að ræða um stöðu jafnréttis án þess að umræðan verði óþolandi, einhliða og á lágu plani. Þetta viðfangsefni er olnbogabarn í málefnaumræðu í stjórnmálum (og víðar) á Íslandi. Óvinsældir þess eru slíkar að jaðrar við áráttukennda fælni. En hvað veldur? Af hverju er þessi mikilvægi málaflokkur kominn í skammarkrókinn og í meðförum hverra hefur hann orðið þannig?

Ég ætla ekki að fjölyrða um femínisma eða oft á tíðum undarlega forgangsröðum fólks sem kennir sig við þá stefnu á Íslandi, enda er sá sirkus langþreyttur og kjánalegur, en ég held að því miður hafi fleiri skref verið tekin aftur á bak en fram á við í þeim herbúðum. Margt gott hefur verið gert, en stórundarlegar aðgerðir og stönt í fjölmiðlum hafa breitt skugga yfir afrekin. Eins hefur kynjunum verið skipt upp í gagnstæðar fylkingar í þessum efnum, í staðinn fyrir að nálgast jafnréttismál sem sameiginlegt hagsmunamál okkar allra. Það er varasamt að gera ráð fyrir að Kvennaherinn ætli sér að herja á karla og hrifsa til sín sneið af þeirra köku.

Til lengri tíma litið er öllum til hagsbóta að tilheyra samfélagi það sem jafnréttissjónarmið eru höfð að leiðarljósi, en því miður hafa mestmegnis konur og herskáir karlkyns öfgafemínistar verið talsmenn þessarar stefnu hingað til, og aðeins takmarkaður hópur leggur við hlustir þegar þessir annars ágætu fulltrúar mæla. Þannig eru flestir karlmenn fælnir við að tjá sig um þessi mál af hræðslu við að vera flokkaður í annan hvorn þessara hópa, eða þá samstundis úthrópaðir sem hræsnarar og óvinir kvenna, verandi af hinu kúgandi karlkyni. Á meðan staðan er svona verða aðeins tekin hænuskref í jafnréttisbaráttunni.

Á hinn bóginn hef ég oft orðið fyrir vonbrigðum með skoðana- og kynsystur mínar á hægri vængnum. Sumar þeirra virðast hafa verið heilaþvegnar og vandlega tamdar eins og selir í dýragarði til að vera ástríðufullt á móti öllu sem snertir hinn misskilda málaflokk “jafnréttismál“. Þær virðast ekki þora að hafa sjálfstæðar skoðanir á þessum málum af ótta við að koma illa við kauninn á flokksbræðrum sínum, og hafa lært eins og strengjabrúður frasa gegn hinum og þessum aðgerðum í þágu jafnréttis, einungis vegna þess að það er vinsælt innan Flokksins. Það er illa komið fyrir eldklárum og málefnalegum konum ef þær hafa ekki hugrekki til að standa hver með annarri. Við eigum ekki að vera svo knúnar af ótta, valdagræðgi og keppnisanda hver gagnvart annarri að við þurfum að gefa skít í samstöðu kvenna í pólitík. Það var einmitt sú samstaða sem aflaði okkur kosningaréttar á sínum tíma.

Þó svo að kynjakvótar séu augljóslega ekki leiðin til árangurs í jafnréttismálum á Íslandi, þá eru aðrar aðgerðir sem meiri glóra er í og þess virði að athuga. Raunveruleikinn er nefnilega sá að það er ekki nóg að kvarta yfir núverandi ástandi, og viðurkenna vandann – heldur verður að gera eitthvað til að sjá áþreifanlegan árangur. Og þá verða stoltar fálkamerktar konur að fríska aðeins upp á afstöðu sína og skrá sig úr vinsældakeppninni.

Latest posts by Guðrún Sóley Gestsdóttir (see all)