Þrjár nýjar ríkisstofnanir í farvatninu

Nú á þessum mestu samdráttartímum er lítið hugað að samdrætti eða niðurskurði hjá ríkinu. Í farvatninu eru þrjár nýjar ríkisstofnanir. Í þremur stjórnarfrumvörpum sem nú liggja fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að eftirtöldum stofnunum verið komið á fót; Byggingarstofnun, Fjölmiðlastofu og Íslandsstofu. Það er óumdeilt að markmið og megintilgangur þessara þriggja frumvarpa er gott, en því miður þá getum við ekki á okkur blómum bætt, ef blóm má kalla.

Nú á þessum mestu samdráttartímum er lítið hugað að samdrætti eða niðurskurði hjá ríkinu. Í farvatninu eru þrjár nýjar ríkisstofnanir. Í þremur stjórnarfrumvörpum sem nú liggja fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að eftirtöldum stofnunum verið komið á fót; Byggingarstofnun, Fjölmiðlastofu og Íslandsstofu. Það er óumdeilt að markmið og megintilgangur þessara þriggja frumvarpa er gott, en því miður þá getum við ekki á okkur blómum bætt, ef blóm má kalla. Á þessum erfiðu tímum getum við ekki fjölgað ríkisstofnunum frekar, sem nú telja vel á þriðja hundrað, við ættum í raun að vera skera niður ríkisútgjöld. Álögur, skattar og ýmis önnur gjöld hafa verið hækkuð talsvert undanfarið, neysluvörur hafa hækkað 50%, laun hafa lækkað, kaupmáttur hefur rýrnað, lán hafa hækkað, atvinnuleysi fer vaxandi og ráðamenn eru að íhuga hvort að Háskóli Íslands geti boðið upp á nám yfir sumartímann. Hins vegar þegar kemur að því að setja á fót nýja ríkisstofnun og fjölga ríkisstarfsmönnum þá er ekkert hik á ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Það er vaðið áfram þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir Fjölmiðlastofu á fjárlögum svo dæmi sé tekið, en gert er ráð fyrir að kostnaðurinn verið um 40 milljónir á ári + 3,5 milljónir vegna stofnkostnaðar. Það er nauðsynlegt að haft sé í huga áður en ríkisstarfsmönnum verður fjölgað enn frekar að það eru skattgreiðendur sem standa undir samneyslunni. Fjármagnið kemur frá þeim og það ber stjórnmálamönnum að fara vel með.

Byggingarstofnun
Ef fyrirkomulag vegna stofnsetningar Byggingarstofnunar er skoðað kemur í ljós að fjármálaráðuneytið gerir verulegar athugasemdir við hvernig staðið er að fjármögnunum þessarar nýju stofnunnar:

Gert er ráð fyrir að tekjurnar, sem teljast vera lögþvingaðar ríkistekjur, renni til reksturs Byggingarstofnunar. Fjármálaráðuneytið telur það ekki vera heppilegt fyrirkomulag. Að mati ráðuneytisins ættu tekjur sem kveðið er á um í lögum og teljast til ríkistekna að renna í ríkissjóð og ákvörðun um fjárheimildir verkefna að vera tekin í fjárlögum.

Ekki er gert ráð fyrir Byggingarstofnun á fjárlögum heldur er tekinn mjög mikill snúningur á ótengdum gjöldum sem ríkið rukkar nú þegar vegna annarra ótengdra mála, en þar má nefna ofanflóðagjald sem verður lækkað til þess að hægt sé að hækka annað gjald sem heitir brunavarnargjald, en því nafni verður breytt í Byggingarstofnunargjald. Það fer lítið fyrir gangsæi við stofnsetningu þessarar stofnunar og kostnaðarins sem til fellur vegna breytinganna, sem upplýsist hér með að er um 189 milljónir.

Íslandsstofa
Hvað varðar Íslandsstofu þá er ekki gert ráð fyrir að þessi nýja stofnun muni hafa í för með sér nein útgjöld fyrir ríkissjóð, en þegar betur er að gáð og tekjurstofn Íslandsstofu skoðaður má sjá að gert er ráð fyrir sérstöku markaðsgjaldi, framlagi af fjárlögum, þjónustuþóknun, þjónustusamningum osfrv. Þannig að það er nú ekki allskostar rétt að þetta sé skattgreiðendum að kostnaðarlausu.

Það liggur fyrir að mikil vinna hefur farið í undirbúning stofnanna þriggja og líkt og áður hefur komið fram að þá er tilgangurinn góður, en er ekki tímabært að við förum að velta fyrir okkur öðrum leiðum og nálgunum. Gætum við ekki látið þessi markmið verða að veruleika án þess að setja fleiri ríkisstofnanir á fót og fjölga ríkisstarfmönnum? Er ekkert svigrúm innan ráðuneytanna sjálfra? Það störfuðu að meðaltali 21.800 einstaklingar hjá ríkinu á síðasta ári eða um 12% af öllu vinnuafli á Íslandi sem telur tæplega 180. þúsund einstaklinga. Væri ekki hægt að leggja einhverjar stofnanir niður á móti, sameina og með einhverjum hætti nýta þá opinberu starfsmenn sem starfa nú þegar hjá ríkinu.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.