Tilgangurinn helgar ekki alltaf meðalið

Pistlahöfundur hefur löngum aðhyllst þau grundvallargildi að jafnrétti eigi að þýða jöfn tækifæri. Að jafnrétti verði ekki náð fram með misrétti. Að allir, karlar jafnt sem konur, eigi að geta náð markmiðum sínum og þroskað hæfileika sína án þess að njóta sérstaklega eða gjalda fyrir kynferði sitt. En höfundur verður einnig að viðurkenna óþolinmæði sína í þessum málefnum og finnst þessi grundvallargildi þoka okkur full hægt að markmiðunum.

Nýverið samþykkti Alþingi lög um breytingu á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög en þar er meðal annars fjallað um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja. Lögin setja beinlínis kynjakvóta á stjórnir fyrirtækja í einkarekstri. Að vanda sýnist sitt hverjum þegar kemur að kynjakvótum en það sem er kannski stærsta málið er að árið 2010 þurfi kynferði einstaklinga ennþá að skipta máli.

Í lögunum er kveðið á um að í stjórnum fyrirtækja þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn og tveir eða þrír sitji í stjórn, skuli hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skuli hlutfall hvors kyns aldrei vera lægra en 40%. Lögunum er ætlað að taka gildi 1. september 2013. Fyrirtækjum gefst því ákveðinn tími til að aðlaga starfsemi sína lögunum.

Kynjakvótar eru oftast hugsaðir sem neyðarúrræði þegar verulega hallar á annað kynið. Því verður ekki neitað að hlutfall kvenna í stjórnum íslenskra fyrirtækja er alltof lágt en það er um og yfir 15% á hverjum tíma. Það er undarlegat í ljósi þess að konur sækja til jafns við karla út á atvinnumarkaðinn og eru reyndar fleiri konur en karlar í háskólanámi í dag. En eru kynjakvótar lausnin við þessu vandamáli? Næst jafnrétti fram með því að jafnmargar konur og karlar séu á sama stað?

Pistlahöfundur hefur löngum aðhyllst þau grundvallargildi að jafnrétti eigi að þýða jöfn tækifæri. Að jafnrétti verði ekki náð fram með misrétti. Að allir, karlar jafnt sem konur, eigi að geta náð markmiðum sínum og þroskað hæfileika sína án þess að njóta sérstaklega eða gjalda fyrir kynferði sitt. En höfundur verður einnig að viðurkenna óþolinmæði sína í þessum málefnum og finnst þessi grundvallargildi þoka okkur full hægt að markmiðunum.

Því er skiljanlegt að margir, sem eru álíka óþolinmóðir og pistlahöfundur, vilji flýta fyrir ferlinu með lagasetningu. En við hljótum að þurfa að hugsa hvað þvinganir í lögum munu færa okkur. Vissulega mun kynjahlutfall jafnast í stjórnum fyrirtæka en það er að mati höfundar ekki markmiðið sem við eigum að sækjast eftir. Samfélagið verður ekki betra ef jafnt hlutfall kynja er í öllum fyrirtækjum. Samfélagið verður fyrst betra þegar konur og karlar sækjast í jafnmiklum mæli eftir sömu hlutverkum og þegar kynin treysta hvort öðru til jafns. Við getum nefnilega ekki litið framhjá þeirri staðreynd að við lifum í samfélagi sem hyglir körlum, og það gera konur jafnt sem karlar. Þetta er kjarni vandans og hann verðum við að horfast í augu við til að ná árangri í jafnréttisbaráttunni.

Stuðningsmenn kynjakvóta hafa bent á að í gegnum árin hafi þurft róttækar aðgerðir til að ná árangri og það er mikið til í því. Við eigum þeim konum, sem ruddu brautina fyrir okkur hinar, mikið að þakka og framlag þeirra verður seint metið til fulls. En hingað til hafa beinar þvinganir með lögum ekki verið hluti af jafnréttisbaráttunni og mikil vonbrigði að sú staða sé komin upp í dag. Vissulega eru þó ákvæði um jákvæða mismunun í lögum núna þar sem kveðið er á um að þegar tveir jafnhæfir einstaklingar sæki um starf skuli sá ráðinn sem er af því kyni sem hallar á, á vinnustaðnum. Þetta mætti kalla þvingun í vissum skilningi.

Það er ekki auðséð að konum verði mikill greiði gerður með kynjakvótum. Hver vill vera sú kona sem sett er í stjórn fyrirtækis einungis vegna þess að hún er kona? Þær eru líklega fáar. Stuðningsmenn kynjakvóta hafa einnig bent á að rannsóknir sýni að þeim fyrirtækjum gangi betur, sem konur stjórni. Það má vel vera, og þykir höfundi það reyndar mjög líklegt. Öllu líklegra er þó að þau fyrirtæki sem um ræðir séu fyrirtæki þar sem konur stjórni sjálfviljugar og af áhuga en sitji ekki einungis í stjórn sem skraut eða til að fylla kvótann.

Andstæðingar kynjakvóta verða þó að taka virkan þátt í umræðunni um jafnrétti og koma fram með raunverulegar hugmyndir til að jafna stöðu kynjanna. Ekki dugir að gala einungis að kynjakvótar séu slæmir í hvert sinn sem þá ber á góma, raunverulegar hugmyndir verða að fylgja með. Umræðan er því ekki á réttri leið vegna þess að hún kemur yfirleitt bara upp þegar ákveðnir hópar byrja að tala með kynjakvótum og þá standa aðrir hópar upp og tala um hvað þeir séu slæmir. En ekkert gerist.

Að mati höfundar er vandamálið fyrst og fremst samfélagslegt vandamál sem verður ekki leyst með misrétti eða þvingunum. Við þurfum að gera raunverulegar breytingar á samfélaginu okkar þannig að konur og karlar hafi áhuga á að ná langt, láta drauma sína rætast og ná markmiðum sínum. Við verðum breyta hugarfari okkar þannig að kyn hætti að skipta máli í hugum okkar. Þá fyrst verður raunverulegu jafnrétti náð.

Í stað lagasetningar væri hvatning til fyrirtækja mun heppilegri leið. Fyrir tæpu ári var skrifað undir samstarfssamning milli helstu aðila viðskiptalífsins og fulltrúa stjórnmálaflokkanna um að auka hlut kvenna í atvinnulífinu. Vonandi er að það skili árangri en því má ekki gleyma að viljayfirlýsingar hafa verið undirritaðar áður og fögur loforð gefin án þess að árangurinn hafi verið mikill. Viljinn til að auka hlut kvenna í atvinnulífinu er því kannski ekki eins mikill og margir vilja halda fram.

Mikilvægast að mati höfundar væri að birta reglulega stöðu fyrirtækja í jafnréttismálum. Það gæti t.d. verið verkefni Jafnréttisstofu (eða annarra aðila) að fara reglulega yfir stöðu kvenna í fyrirtækjum og kynbundinn launamun og birta lista yfir þau fyrirtæki sem standa sig vel og einnig þau sem standa sig illa. Slíkt myndi eflaust hafa þau áhrif að eftirsóknarvert yrði fyrir fyrirtæki að standa sig vel í jafnréttismálum. Slíkar leiðir eru mun heppilegri en lagaþvinganir til að ná fram raunverulegu jafnrétti .

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.