Þegar íslensk lágmenning bjargaði deginum

Það kom mér nokkuð á óvart þegar ég settist niður til að horfa á fréttatíma Stöðvar 2 á mánudagskvöldið, að fyrsta frétt snerist ekki um Icesave, ríkisstjórnina eða bankamál almennt. Eins og flestir vita líklega nú þegar að þá var þar skýrt frá faglegum ágreiningi tveggja herramanna sem ganga undir nöfnunum Blaz Roca og Móri.

Það kom mér nokkuð á óvart þegar ég settist niður til að horfa á fréttatíma Stöðvar 2 á mánudagskvöldið, að fyrsta frétt snerist ekki um Icesave, ríkisstjórnina eða bankamál almennt. Eins og flestir vita líklega nú þegar að þá var þar skýrt frá faglegum ágreiningi tveggja herramanna sem ganga undir nöfnunum Blaz Roca og Móri.

Sá síðarnefndi veittist þá að Blaz Roca, sem í þjóðskrá er titlaður Erpur Eyvindarson, með hnífi og hafði eftir því sem sögur herma önnur vopn í fórum sér. Árásin tókst þó ekki betur en svo að Erpur náði að verja sig með skúringarmoppu sem ég tel að komi annars sjaldan að gagni í stúdíói útvarpsstöðvarinnar X –ið 977. Málalyktir voru því öllum til happs, enginn slasaðist en Erpur, X-ið og sérstaklega Móri fengu ákaflega gott umtal hjá sínum bestu markhópum.

Þessi frétt fékk mig til að hugsa aðeins um fréttaflutning íslenskra fjölmiðla. Ekki þó á neikvæðan hátt en fjölmargir netverjar hafa lýst þeirri skoðun að það sé til skammar að þessi frétt hafi komist fremst í fréttatíma Stöðvar 2. Þvert á móti var mér nokkuð létt. Undanfarna mánuði hefur íslensk fjölmiðlaumræða verið ákaflega einsleit vegna þeirra fjármála-, vaxta-, og samningamála sem gætu mótað okkar nánustu framtíð. Í ljósi mikilvægi þessarar umræðu er skiljanlegt að henni séu gerð góð og regluleg skil í fjölmiðlum, en þetta er að verða fullmikið af því góða.

Samkvæmt gögnum Fjölmiðlavaktar Creditinfo hefur orðið Icesave til að mynda komið fyrir í 273 fréttum í prent- og ljósvakamiðlum á síðastliðnum tveimur vikum. Þess má geta að þarna eru umræðu- og spjallþættir undanskildir. Orðið ríkisstjórn í öllum sínum beygingarmyndum fylgir fast á hælana með 255 fréttir á bakvið sig. Þessu til samanburðar má nefna að Eurovision (eða evróvisjón) kemst aðeins 36 sinnum á blað þrátt fyrir að tímabilið marki undan- og eftirfara lokaþáttarins um þar síðustu helgi. Helstu vefmiðlar voru ekki miklir eftirbátar hinna rótgrónu miðla en Icesave kom fyrir í 204 fréttum hjá ritstýrðu fréttamiðlunum á þessu sama tímabili.

Ég verð því að segja fyrir mitt leyti að ég var hæstánægður með að sjá þessa tvo listamenn leiða fréttatímann á mánudagskvöldið og má með sanni segja að þetta hafi bjargað annasömum degi. Ég er líka nokkuð viss um að margir eru sammála enda er engin tilviljun að fréttir af jafnt innlendri og erlendri lágmenningu séu á meðal mest lesnu frétta vefmiðlana á hverjum degi, þrátt fyrir að vera mun færri en Icesave fréttirnar. Það er því óneitanlega spennandi að bíða og sjá hvort Erpur fari að ráðum Ólafar ríku og safni liði og berjist, þó vissulega óski maður ekki nokkrum manni skaða í þeirri styrjöld. Það gæti þó allavega létt í manni lundina í grámyglulegum hversdagsleika einsleitrar fjölmiðlaumræðu.