Íranska sprengjan

Sú aðgerð að reyna að einangra Teheran til að koma í veg fyrir kjarnorkuvopnaeign landsins gæti þó reynst of seinvirk. En samkvæmt upplýsingum frá Íran er þróun á auðguðu úrani mun lengra á veg komin en óttast var, jafnvel of langt til að tími gefist til að komast í veg fyrir hana með alþjóðlegum þrýstingi. Áfram stendur þó umheimurinn frammi fyrir tveimur valkostum, Íran með kjarnavopnum og Íran án kjarnavopna. Hvorug niðurstaðan verður einföld, en önnur er óhugsandi.

Mestu sviptivindar í áratugi fara nú um Íran. Eftir forsetakosningarnar sem fram fóru á síðasta ári gaus upp mikil mótmælaalda eftir meint kosningasvik Ahmadinejad núverandi forseta. Klerkastjórnin brást við með því að senda óeirðarlögregluna á vettvang og var þeirra helsta verk að fangelsa alla þá sem að mótmælunum stóðu, stöðva fjarskiptasamband þeirra á milli og mikilvægast af öllu, stöðva fjarskiptasamband þeirra við umheiminn. Sú uppreisn sem þeir börðu niður, af mikilli hörku, voru mestu átök sem stjórnvöld í Íran höfðu þurft að takast á við í þrjá áratugi. Sú mikla óánægjualda og áframhaldandi róstur innanlands hefur vakið upp mikinn ótta hjá stjórnvöldum sem sjálf brutust til valda í slíku árferði.

Klerkastjórnin hefur rekið óhugnalega stefnu gagnvart þegnum sínum og þá sérstaklega dætrum sínum í gegnum árin ásamt því að styðja við vel valin íslamísk hryðjuverkasamtök. Þrátt fyrir þá stefnu hefur ríkið þó ávallt hegðað sér skynsamlega í alþjóðakerfinu, þ.e svo langt hafa þeir aldrei gengið að það myndi kosta Íran bein átök við mögulegt ofurefli síðan stríðinu við Írak lauk.

Þeirri sjálfmeðvituðu stefnu virðist þó vera að ljúka með hinni hröðu þróun kjarnorku sem nú á sér stað í Íran. En Íranstjórn hefur leynt og ljóst hótað alþjóðasamfélaginu með því að einsetja sér að auðga úran sem gæti verið notað í kjarnavopn. Þó með þeim fyrirvörum að það sé ætlað til orkunotkunar þrátt fyrir að vera eitt auðugasta olíuríki heims og líði síst af öllu fyrir vöntun á orkugjöfum. Hefur úrantaflið verið teflt það sem af er 21. öldinni og hafa ráðamenn í Evrópu og Bandaríkjunum reynt að hefta þessa þróun með öllum friðsamlegum ráðum. Barack Obama gerði heiðarlega tilraun fyrst eftir að hann tók við embætti til að reyna koma á vinsamlegri samskiptum milli Íran og Bandaríkjanna . Þessi útrétta sáttahönd var slegin í burtu, líkt og reglan er þegar kemur að utanríkisstefnu Írans gagnvart vesturveldunum.

Sú atburðarrás var þó ekki með öllu ófyrirséð og því hafði Obama haldið Stuart Levy hjá sér í starfi, en hann var sérfræðingur Bush stjórnarinnar í að stöðva fjárstreymi til og frá hryðjuverkasamtökum og ríkjum. Hans helsta hlutverk nú og næstu misseri verður að greina og stöðva öll þau skuggafyrirtæki sem byltingaverðirnir í Íran stýra, en í gegnum þá fara milljarðar dollara og setja þannig þrýsting á Teheran og þau ríki sem við þá skipta.

Sú aðgerð að reyna að einangra Teheran til að koma í veg fyrir kjarnorkuvopnaeign landsins gæti þó reynst of seinvirk. En samkvæmt upplýsingum frá Íran er þróun á auðguðu úrani mun lengra á veg komin en óttast var, jafnvel of langt til að tími gefist til að komast í veg fyrir hana með alþjóðlegum þrýstingi. Áfram stendur þó umheimurinn frammi fyrir tveimur valkostum, Íran með kjarnavopnum og Íran án kjarnavopna. Hvorug niðurstaðan verður einföld, en önnur er óhugsandi.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, lét þau orð falla nýlega að mesta hættan sem Ísrael stæði nú frammi fyrir væri að Íran myndi þróa með sér kjarnorkuvopn. En Ísraelar hafa áður tekist á við svipaða ógn þegar þeir gerðu loftárásir á kjarnaofna í Írak 1981, þegar Saddam Hussain reyndi að þróa kjarnorkuvopn. Ekki ætti að búast við vægari viðbrögðum gagnvart Íran, en þaðan hefur sú yfirlýsing oft heyrst að Ísrael ætti að má af landakorti heimsins. Með þá stefnu og kjarnorkusprengju til að standa við stóru orðin, er ekki í mörg horn fyrir Ísraela í að hlaupa.

Vesturveldin horfa að sama skapi með þungum áhyggjum á þróunina. En það er augljóst að með tilkomu kjarnavopna í Íran myndi mikið vopnakapphlaup fara af stað á þeim stað heimsins sem síst má við því. Þar að auki er það staðreynd að í Íran er klerkastjórn með yfirlýst markmið um að afmá annað ríki af jarðkringlunni og er styrktaraðili hryðjuverkasamtaka, bæði með vopnum og fjármunum. Kjarnavopn í höndum hryðjuverkamanna eða klerkastjórnarinnar er því niðurstaða sem ekki er hægt að sætta sig við.

Íran virðist því ætla að verða stóra alþjóðavandamál nýja áratugarins. Með stigvaxandi ótta við óánægju eigin þegna virðist sem þeir ætli að veðja á auknar vinsældir heima fyrir með því að storka umheiminum með auðguðu úrani og þróun kjarnavopna. Ef þróunin verður með þeim hætti, líkt og allt í stefnir, verður ekki langt að bíða utanaðkomandi aðgerða. Því skyldi engum bregða að augu alþjóðasamfélagsins muni hvíla á Teheran næstu árin og helsti átakapunktur heimsins muni færast þangað.

Latest posts by Vignir Hafþórsson (see all)

Vignir Hafþórsson skrifar

Vignir hóf að skrifa á Deigluna í október 2009.