Af nýsköpunarfrumvarpi, gegnsæi og gráum markaði

Rétt fyrir lok síðasta árs voru samþykkt lög frá alþingi um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Lögunum ber að fagna sem fyrsta skrefinu að breyttum áherslum hins opinbera í stuðningi við nýsköpun. Það er hinsvegar mjög mikilvægt að horfa með gagnrýnum augum á þessi nýju lög og velta því upp hvað hefði mátt betur fara og hverju þarf því að breyta á vorþingi.

Rétt fyrir lok síðasta árs voru samþykkt lög frá alþingi um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Lögin eru í grunnatriðum tvíþætt og fela annars vegar í sér skattfrjálsa fjárfestingu almennings og fyrirtækja í nýsköpunarfyrirtækjum og hins vegar skattaafslátt til nýsköpunarfyrirtækja sem eyða ákveðnu hlutfalli af veltu í rannsóknir og þróun. Almenn þverpólitísk samstaða ríkti á Alþingi um lögin og var hér stigið mikilvægt skref í því að skapa jákvæða hvata fyrir ný og vaxandi fyrirtæki. Slíkt hvataumhverfi er mun líklegra til árangurs en fyrri stefna stjórnvalda í stuðningi við nýsköpun sem hefur að mestu leyti verið byggð upp á misárangursríku miðstýrðu styrkjakerfi. Lögunum ber því að fagna sem fyrsta skrefinu að breyttum áherslum hins opinbera í þessum málaflokki. Það er hinsvegar mjög mikilvægt að horfa með gagnrýnum augum á þessi nýju lög og velta því upp hvað hefði mátt betur fara og hverju þarf því að breyta á vorþingi.

Í fyrsta lagi má benda á það hvernig nýsköpunarfyrirtæki er skilgreint- eða rétara sagt ekki skilgreint. Í frumvarpinu er nýsköpunarfyrirtæki skilgreint á mjög óljósan hátt með vísan í kröfur um menntun, reynslu, rannsóknir og þróun. Spurningin sem eftir stendur er hver ákveður hvort rétt menntun sé til staðar, hvað er skilgreint sem rannsóknir og svo mætti áfram telja. Það er stór galli á frumvarpinu að skilgreining á því hvað sé nýsköpunarfyrirtæki og hvað ekki verði ákveðið á huglægan hátt af embættismönnum opinberrar stofnunar. Slík lög þurfa að vera eins almenn, einföld og auðskilin og mögulegt er til að hvaða endurskoðandi sem er gæti sagt til um hvort fyrirtæki falli í þenna hóp eða ekki – þetta er sérstaklega mikilvægt til að öll fyrirtæki sitji við sama borð hvort sem þau almennt kalla sig nýsköpunarfyrirtæki, sprotafyrirtæki, hátæknifyrirtæki eða bara eitthvað allt annað.

Í öðru lagi er einnig vert að skoða hvort við getum lært eitthvað af fjármálaóveðrinu sem hefur geisað yfir undanfarin ár. Í kjölfar bankahrunsins hefur með réttu verið gríðarlega rík krafa í samfélaginu um gegnsæi og aukið upplýsingaflæði í viðskiptalífinu. Bent hefur verið á að almenningur hafi ekki setið við sama borð og stjórnendur stærri fyrirtækja þegar kemur að upplýsingum um raunverulega stöðu þeirra hvort sem um var að ræða banka, stærri fyrirtæki eða sjóði sem almenningi var boðið að fjárfesta í.

Í nýsköpunarfrumvarpinu sem nú er orðið að lögum er almenningur á svipaðan hátt hvattur til að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum – óskráðum félögum sem til eru afar litlar opinberar upplýsingar og regluverk um s.s. varðandi meðferð innherjaupplýsinga. Til að mynda hefur almennur lítill hluthafi litla möguleika á að vita af því þegar framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækis selur alla sína hluti. Almenningur hefur í raun litla sem enga möguleika á að sækja sér upplýsingar um þessi fyrirtæki aðrar en þær sem stjórnendur þeirra matreiða sjálfir og ákveða að láta í té. Að sama skapi hefur almenningur litlar forsendur til að byggja fjárfestingarákvörðun sína á öðru en „sölumennsku“ stjórnenda þessara nýsköpunarfyrirtækja.

Að sama skapi getur slíkt fyrirkomulag verið mjög slæmt fyrir stjórnendur sprotafyrirtækja. Að vera með hundruð mjög lítilla hluthafa sem eigendur að sama fyrirtækinu getur étið upp gríðarlegan tíma og fjármagn sem fer í upplýsingagjöf og samskipti við marga litla eigendur – tíma og fjármagni sem hefði betur verið varið í þróun og sölu á góðri vöru. Með þessu fyrirkomulagi hefur því í raun verið búinn til nýr grár markaður með hluti í óskráðum félögum sem hefur mikla galla bæði fyrir almenna fjárfesta sem og nýsköpunarfyrirtæki.

Til að tryggja betri upplýsingagjöf, meira gegnsæi og dreifðari áhættu á fjárfestingum almennings í nýsköpunarfyrirtækjum er nauðsynlegt að sami skattaafsláttur verði veittur almenningi fyrir að fjárfesta í sérstökum sjóðum sem fjárfesta í þessum geira. Með því að búa til slíka fagfjárfestingasjóði traustra aðila sem stýra fjármunum margra lítilla hluthafa er tryggð mun betri upplýsingagjöf og áhættudreifing á fé almennings. Slíkir sjóðir yrðu virkir fjárfestar, þ.e. fulltrúar þeirra myndu sitja í stjórnum þeirra nýsköpunarfyrirtækja sem fjárfest er í og myndu þannig hafa miklum mun betri aðgang að upplýsingum en hinn almenni litli hluthafi gæti nokkurn tímann haft.

Með því að opna fyrir slíka fagfjárfestingasjóði er mun líklegra en ella að góður árangur verði af nýju lögunum. Auk þess er líklegt að traust almennings á nýsköpunarfyrirtækjunum verði mun betra til lengri tíma litið heldur en ef núverandi lög standa óbreytt og einn svartur sauður úr röðum nýsköpunarfyrirtækja verður til þess að margir einstaklingar tapi sínu fé og missa trúna á sambærileg fyrirtæki.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)