Hugsum í lausnum, kjósum Vöku!

Vaka leggur áherslu á að Stúdentaráð sé í senn virkt framkvæmdarafl og öflugt þrýstiafl. Jafnvægi milli þess að nýta kraft og þekkingu stúdenta til þess að framkvæma hagsmunamál fyrir stúdenta er lykilatriði í hagsmunabaráttu stúdenta, sérstaklega á erfiðum tímum þar sem fjármagn er ekki á hverju strái.

Í dag er seinni kjördagur í hinum árlegu Stúdentaráðskosningum við Háskóla Íslands. Kosið er til Stúdentaráðs og Háskólaráðs að þessu sinni og í fyrsta skiptið er kosið rafrænt, á UGLU.

Undanfarið ár hefur Vaka leitt starf Stúdentaráðs. Án þess að fara oforðum um ástandið sem ríkt hefur í samfélaginu, liggur fyrir að árið hefur ekki verið auðvelt. Engu að síður hefur Stúdentaráði tekist að standa vörð um grundvallar hagsmuni stúdenta og nú þegar verið er að gera starfsárið upp liggur í augum uppi að hagsmunum stúdenta er best borgið þegar Vaka leiðir starf Stúdentaráðs. Stúdentaráð hefur komið mörgum mikilvægum hagsmunamálum í gegn á árinu, settar voru á sumarannir til að koma til móts við atvinnuleysi stúdenta, námslánin hækkuðu, vanefndaálag á skrásetningargjöldin var niðurfellt, réttindaskrá stúdenta var endurútgefin, komið var á fót sérstöku neyðarnúmeri fyrir nýnema, upphitað strætóskýli var opnað á háskólasvæðinu og nú verða í fyrsta sinn rafrænar kosningar þannig að fleiri stúdentar geta tekið þátt í stúdentaráðskosningum.

Vaka er 75 ára félag, sem barist hefur fyrir hagsmunum stúdenta alla tíð. Vaka leggur áherslu á að starf Stúdentaráðs snúist um hagsmunabaráttu en ekki pólitík. Vaka leggur áherslu á að Stúdentaráð sé í senn virkt framkvæmdarafl og öflugt þrýstiafl. Jafnvægi milli þess að nýta kraft og þekkingu stúdenta til þess að framkvæma hagsmunamál fyrir stúdenta er lykilatriði í hagsmunabaráttu stúdenta, sérstaklega á erfiðum tímum þar sem fjármagn er ekki á hverju strái.

Í ár er í fyrsta skiptið í sögu Stúdentaráðs kosið rafrænt, á Uglu, innri vef Háskóla Íslands. Vaka hefur alla tíð lagt mikið upp úr því að stúdentar taki þátt í Stúdentaráðskosningum og að Stúdentaráð starfi raunverulega í umboði nemenda. Vaka lofaði því í síðustu kosningum að koma á rafrænum kosningum til þess að auðvelda stúdentum að nýta kosningaréttinn. Það er einlæg von okkar Vökuliða að þessi nýjung muni leiða til aukinnar kosningaþátttöku í Stúdentaráðskosningunum. Þegar upp er staðið er mikilvægast af öllu að Stúdentaráð starfi í umboði og þágu nemenda.

Hagsmunabarátta stúdenta er nú mikilvæg sem aldrei fyrr: aldrei hefur verið jafn mikilvægt og nú að Stúdentaráð sé virkt framkvæmdarafl, hugsi í lausnum og vinni fyrst og síðast að hagsmunum stúdenta við Háskóla Íslands. Aldrei hefur verið jafn mikilvægt að Vaka leiði starf Stúdentaráðs.

Í dag er sem fyrr segir seinni kjördagur í hinum árlegu Stúdentaráðskosningunum. Vaka sækist eftir umboði nemenda við Háskóla Íslands til þess að leiða starf Stúdentaráðs, en með framkvæmdargleðinni sem einkennir félagið er ég sannfærð um að hagsmunabarátta stúdenta sé í góðum höndum.