Bábiljur ársins II – Krónan er að bjarga okkur

Önnur bábilja sem margir trúa á er að það sé sérstakt ánægjuefni fyrir Ísland að vera með íslensku krónuna sem gjaldmiðil. Hversu góður er gjaldmiðill sem þarf reglulega innpsýtingu fjármagns til að halda lágu gildi sínu og er auk þess varinn af gjaldeyrishöftum sem setja öll alþjóðaviðskipti í uppnám.

Undanfarin ár og í aðdraganda bankahrunsins var mikil umræða um hvort það gengi upp að Ísland ræki sinn eigin gjaldmiðil á floti innan um aðra gjaldmiðla heimsins. Því miður var umræðan háð því að margir vildu láta kreddur og pólitíska hagsmuni ráða frekar en yfirvegaða umræðu um málið. Til eru þeir sem trúa í mikilli einlægni á þá hugmynd að íslenska ríkið sé vel til þess fallið að gefa út alþjóðlegan gjaldmiðil í opnu hagkerfi. Þeir sáu ekki ástæðu til að skipta um gjaldmiðil. Meiri skaða gerðu þeir sem vilja nýjan gjaldmiðil en trúa umfram allt á Evrópusambandið og áttuðu sig á því að breytingar á skipan gjaldeyrismála myndu jafnframt taka frá þeim helsta trompið við að sannfæra þjóðina um inngöngu í Evrópusambandið. Margir þessara aðila gerðu allt sem þeir gátu til þess að sannfæra fólk um að eina leiðin til að skipta út krónunni væri að ganga í Evrópusambandið.

Hæst náði vitleysan þegar 32 hagfræðingar birtu grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Einhliða upptaka er engin töfralausn“. Greinin var innlegg ætlað til þess að þrýsta á ríkisstjórnina (sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn) að sækja um Evrópusambandsaðild og til þess var reynt að beita þeirri aðferð að fjarlægja alla aðra raunhæfa möguleika og láta þá hljóma ótrúverðuga (eins og hjarðhegðun hafi ekki þá þegar verið búin að gera nægilega mikinn skaða). Fyrir vikið hefur lítið borið á umræðu um gjaldmiðlamálin að undanförnu. Flestir líta svo á að við eigum enga aðra úrkosti en að notast við krónuna í fyrirsjáanlegri framtíð og eru þeir til sem telja að við núverandi aðstæður sé það í raun hið besta mál.

Íslendingar standa nú frammi fyrir því að búið er að sækja um aðild að Evrópusambandinu en litlar líkur eru á að það verði samþykkt. Og jafnvel þótt það gerist munu mörg og löng ár líða áður en Íslendingum verður náðarsamlega leyft að taka upp evruna. Íslenska krónan er ennþá gjaldmiðillinn hér á landi en gengi hennar er haldið uppi með gjaldeyrishöftum og reglulegum inngripum Seðlabankans sem sólundar erlendum lánum til þess að styrkja gengið. Þeir útlensku bankar sem sitja uppi með íslenskar krónur eru tilbúnir til að láta þær af hendi fyrir 15-30% lægra verð heldur en fæst fyrir þær í Seðlabanka Íslands. Samt er erfitt að losna við þær því – ótrúlegt en satt – þá mega íslenskir útflytjendur ekki selja evrurnar sínar í útlöndum og flytja krónurnar heim. Ísland er því í þeirri stöðu að taka ekki við sínum eigin gjaldmiðli nema að uppfylltum ströngum skilyrðum. Við þessi skilyrði virðast sumir halda í þá von að krónan öðlist á ný trúverðugleika í augum umheimsins.

Og eigum við þá ekki bara að bíða róleg þangað til umheimurinn öðlast svo mikla trú á íslenska gjaldmiðlinum að gengið rjúki upp og óhætt verði að aflétta gjaldeyrishöftunum? Hlýtur það ekki að fara að gerast? Eða getur verið að það hafi gerst þegar við fengum lánin frá AGS? Eða gerðist það þegar við sóttum tvisvar um aðild að ESB?

Núverandi staða krefst þess að þeir sem hyggja á fjárfestingu á Íslandi þurfa fyrst að afla sér undanþágu frá gjaldeyrishöftum og jafnvel, eins og nýleg dæmi sanna, tryggingu gegn skattahækkunaráráttu ríkisstjórnarinnar. Vinsamlegast réttið upp hönd þeir sem halda að þetta sé gott viðskiptaumhverfi til framtíðar?

Tilraunir íslenska ríkisins til að halda úti sérstökum gjaldmiðli ganga ekki samhliða því að hafa opið fyrir fjármagnsflutninga. Fyrir vikið er um tvennt að velja. Að loka hagkerfinu og gera tilraun í þjóðernislegum sjálfsþurftarbúskap – eða að horfast í augu við hið augljósa og leyfa notkun annarra gjaldmiðla á Íslandi. Þetta er hægt að gera og því fylgja nokkrar áhættur, en allt það er skárra heldur en að horfa upp á að á Íslandi þurfi menn sérstakar undanþágur til að geta tekið þátt í alþjóðlegri samkeppni, að ríkið sólundi milljarðatugum í að halda uppi gervigengi á krónunni og að almenningur muni samt sem áður – fyrr en síðar – þurfa að horfa upp á stórkostlega hækkun á verði innfluttrar vöru. Einhliða upptaka annars gjaldmiðils er eina raunhæfa lausnin fyrir Ísland og allir meintir kostir þess að hafa krónuna um þessar mundir myndu koma fram í því að skiptigengið yrði ákaflega lágt og þar með helst tímabundið samkeppnisforskot íslenskra útflutningsfyrirtækja. Með þeirri aðgerð yrði auk þess algjörlega komið í veg fyrir að frekari tilraunir íslenskra stjórnmála- og embættismanna skapi annað eins ójafnvægi og tjón eins og hinar misheppnuðu tilraunir í peningamálastjórnun undanfarinna ára hafa haft í för með sér.

En einhvern veginn virðast sumir hafa myndað slík tilfinningatengsl við íslensku krónuna að það er nánast sama hvaða staða kemur upp. Alltaf er hægt að finna einhverja ástæðu fyrir því að hún sé þrátt fyrir allt góð og gild. Steingrímur J. Sigfússon sagði til að mynda í gær: „Það horfa allir á það sem veikleika [að halda í krónuna] en gleyma hinu að við vissar aðstæður getur það skipt sköpum fyrir lönd að koma sér í gegnum erfiðleika. Það er enginn vafi á því að það sem er að hjálpa okkur mjög mikið er að útflutnings- og samkeppnisgreinar búa við hagstæð skilyrði og það hleypur kraftur í þær við þessar aðstæður og það skiptir okkur afar miklu máli,“ segir Steingrímur.

Þetta minnir á orð Ronalds Reagan um að ríkið fótbrjóti menn og rétti þeim svo hækju og ætlist til þakklætis. Lágt gengi krónunnar um þessar mundir er auðvitað gott fyrir útflytjendur alveg eins og hátt gengi var slæmt fyrir þá fyrir nokkrum misserum. En best væri auðvitað að vera laus við þessar sveiflur og geta einbeitt kröftum sínum að því að framleiða vörur sem einhverjir vilja kaupa jafnvel þótt verð þeirra sé ekki óraunverulega lágt vegna gjaldeyrissveiflna. Hefur einhver heyrt forsvarsmenn Össurar þakka sérstaklega fyrir íslensku krónuna?

Og þá er ekki úr vegi að velta fyrir sér þætti íslensku krónunnar í ofvexti bankanna. Íslenska krónan er misheppnaðasta útflutningsvara í sögu Íslands og þótt víðar væri leitað. Útrás íslensku krónunnar olli því að til landsins streymdu peningar því fjárfestum var talin trú um að þetta væri slíkur töfragjaldmiðill sem virtist alltaf halda verðgildi sínu þótt vextir rykju upp úr öllu valdi. Peningarnir sem streymdu inn þessa leið áttu stóran þátt í þeirri ofþenslu sem varð í útlánum hér á landi. Íslenska krónan átti stóran þátt bæði í því að blása út efnahag bankanna en líka í því að gera stöðu þeirra vonlausa þegar bankakreppan í heiminum skall á. Ef íslensku bankarnir hefðu haft alþjóðlegan gjaldmiðil sem starfrækslumynt hefði til dæmis verið auðveldara að flytja starfsemi þeirra til annarra landa þegar ljóst varð að íslenski seðlabankinn ætti ekki roð í að uppfylla það hlutverk sem ætlast var til af honum sem lánveitandi til þrautavara. Eins hefðu þeir átt auðveldara með að afla sér fyrirgreiðslu annars staðar.

Þeir sem vilja halda í krónuna benda á að sveigjanleiki gjaldmiðilsins sé mikilvægur – og þeir sem vilja dreifa málinu á dreif virðast alltaf telja að tímasetningin sé óheppileg. Vitaskuld væri tímasetning slíkrar aðgerðar mikilvæg. Því nær „eðlilegu gengi“ sem endurspeglar verðmætasköpun í landinu þeim mun betra. Um þetta má endalaust deila en sannast sagna á ég mjög erfitt með að ímynda mér að á nokkrum tíma hefði verið verri hugmynd að skipta út gjaldmiðlinum heldur en að koma þjóðinni í þá stöðu sem hún er nú í, með gjaldeyrishöft og ótrúverðugan gjaldmiðil sem getur með litlum fyrirvara sett úr skorðum allan heilbrigðan rekstur í landinu.

Einhliða upptaka annars gjaldmiðils er möguleg (hagfræðingarnir 32 sögðu meira að segja að hún væri einföld). Í slíkri aðgerð felst áhætta, en langtímaáhrif þess að tryggja viðskiptaumhverfinu á Íslandi frið frá gjaldeyrishöftum og ofurvöxtum er áhættunnar virði. Krónan er því ekki að bjarga okkur heldur er hún ennþá að skapa vandræði og halda aftur af eðlilegum alþjóðaviðskiptum og raunverulegri verðmætasköpun í landinu.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.