Bábiljur ársins III – Útrásin var slæm

Það er fátt sem ekki er rifist um þessi misserin. En eitt er það sem fáir virðast mæla á móti um þessar mundir – það er að útrásin hafi verið slæm. En var útrásin virkilega slæm?

Eftir hrun bankanna virðist hafa skollið á kapphlaup í samfélaginu milli þeirra sem hafa völd og áhrif að magna upp óánægju, reiði – og jafnvel hatur – og reyna að beina því að öllum öðrum en sjálfum sér. Vinstri menn vilja kenna Sjálfstæðisflokknum um allt. Íhaldsmenn vilja kenna „útrásarvíkingum“ um allt. Útrásarvíkingarnir vilja kenna Davíð Oddssyni um allt. En enginn virðist telja það ómaksins vert að reyna að lægja ófriðaröldurnar. Þó ætti öllu sæmilega skynsömu fólki að vera ljóst að raunverulegir hagsmunir Íslands felast í því að betri og göfugri tilfinningar en biturð og hefndarþorsti stjórni sálarlífi þjóðarinnar.

Í þessu árferði er fátt sem allir eru sammála um. Það er rifist um hverjum þetta allt sé helst að kenna. Hvort Seðlabankinn eða FME hafi staðið sig verr. Hvort það eigi að húðstrýkja útrásarvíkinga opinberlega eða fyrir luktum dyrum. En nánast allir virðast vera sammála um það – opinberlega að minnsta kosti – að útrásin hafi verið ákaflega slæm.

Fólk hneykslast yfir öllu sjálfstraustinu sem áður virtist koma okkur langt – og það heitir dramb sem áður var kallað bjartsýni. Fátt er meira niðurlægjandi fyrir opinberar persónur heldur en þegar grafin eru upp ummæli sem lýstu góðum vonum en virðast núna vera barnaleg þvæla – tóm vitleysa og stælar. Það hefur meira að segja verið gefin út heil bók til þess að núa bjartsýni og jákvæðni fólks þeim um nasir („Þeirra eigin orð í útrásinni“ eftir Óla Björn Kárason). Allir sem „vöruðu við útrásinni“ þykjast í dag býsna klárir – svona eins og heimsendaspámaður í hamfarakvikmynd sem fagnar því að flóðbylgja skelli á borginni og sanni þar með að hann hafi haft rétt fyrir sér.

Það að vera „útrásarvíkingur“ er nánast eins og að vera stríðsglæpamaður í umræðunni og töluvert hefur borið á því að menn ræði uppgjör við „útrásina“ með tilvísan til þess hvernig gert var upp við aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku – eða jafnvel nasismann í Þýskalandi. Eins ósmekklegt það er – og lítilsvirðandi gagnvart fórnarlömbum þessarar illsku – þá sýna þessar samlíkingar að reiðin ristir djúpt. Og eins og Jón Vídalín sagði forðum þá er reiður maður vitlaus – en hvað skyldi þá segja um reiða þjóð? Ekki er til frjórri jarðvegur fyrir öfgar, tortryggni og þröngsýni heldur en reiði – og sagan geymir fjölmörg sorgleg dæmi um samfélög sem hafa tapað sér í heift þannig að allt sem er fallegt og uppbyggilegt hafi fallið í skugga mannvonsku, hefndarþorsta og heimsku.

Sókn íslenskra fyrirtækja til annarra landa var að sjálfsögðu hvorki glæpsamleg né heimskuleg í eðli sínu. Þvert á móti lukkaðist margt vel. Fjölmörg kaup Íslendinga á fyrirtækjum erlendis skiluðu sér hratt og vel aftur til hluthafa. Þetta á þó fyrst og fremst við það sem gerðist í upphafi útrásarinnar. Þar fóru fremst Baugur og Actavis. Stjórnendur Baugs höfðu aflað sér slíkrar yfirburðaþekkingar og kunnáttu í verslunarrekstri að þeir áttu fullt erindi til þess að sækja á stærri markaði heldur en Ísland. Enda virðst sem stærstu fjárfestingar Baugs í þeim geira hafi lukkast prýðilega (kaupin á Iceland verslunarkeðjunni borguðu sig til dæmis upp á einu ári). Hið sama má segja um Actavis sem byggði upp eitt stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi á grunni góðrar þekkingar á Íslandi. Kaup Össurar í útlöndum, sem byggðust á áratugareynslu og þekkingu í gerð stoðtækja, efldu fyrirtækið mjög. Kaup Bakkavarar á Katsouris borguðu sig upp á þremur árum. Meira að segja kaup Kaupþings á FIH og Singer&Friedlander virðast hafa verið skynsamleg. Norski bankinn sem Glitnir keypti – og þurfti að selja á útsöluprís í bankakrísunni – hefur margfaldast í verði síðan. Marel byggði á vísinda- og tækniþekkingu til þess að efla starfsemi sína víða um heim og hefur staðið sig í samkeppni við önnur alþjóðleg fyrirtæki á sínu sviði.

Öll þessi fyrirtæki voru bundin við örsmáan heimamarkað áður en bankarnir stækkuðu og gerðu þeim kleift að fá fyrirgreiðslu sem dugði til þess að sækja á nýja markaði. Samhliða þessu varð til ýmis konar þekking, bæði innan greinanna og í alþjóðaviðskiptum, sem ekki var áður til staðar á Íslandi. Útrás þessara fyrirtækja var vel heppnuð.

En þessi vöxtur nokkurra íslenskra fyrirtækja, ásamt nánast ótæmandi aðgangi íslensku bankanna að erlendu fjármagni um tíma, gerði það að verkum að forsjáin vék smám saman algjörlega fyrir kappseminni. Þá fór í gang eins konar Casino-útrás og hermikrákubisness. Fyrirtæki á borð við FL Group voru ekki í eiginlegri útrás í þeim skilningi að þar væri byggt á áratuga þekkingu og velgengni á heimamarkaði – þekkingu sem gæti nýst annars staðar í heiminum. Stjórnendur þeirra fyrirtækja fóru af stað með fulla vasa fjár og útblásnar hugmyndir um eigin getu til þess að veðja á velgengni fyrirtækja sem þeir höfðu lítið vit á (Hámark niðurlægingarinnar í þessari tegund útrásar var þegar einn helsti viðskiptamógúll landsins fékk ekki einu sinni fund með forstjóra fyrirtækis sem hann hafði keypt stóran hlut í. Forstjórinn var úti að ganga með hundinn sinn – Fór út með hundinn, þykir leitt með fundinn)

Önnur fyrirtæki, eins og Eimskip (Innovate) og 365 (Wyndeham), virðast hafa farið út í alþjóðleg fyrirtækjakaup einkum til þess að eigendur og stjórnendur fyrirtækjanna litu ekki út fyrir að vera algjörir aular í samanburði við þá sem þegar voru farnir af stað. Þeir keyptu fyrirtæki án þess að rannsaka þau nægilega eða skilja rekstur þeirra. En þetta átti allt að vera hægt að yfirvinna með íslenskri snilld og seiglu. Í þessu var drambið orðið óhóflegt.

Það sem gleymdist var að á bak við vöxt góðra fyrirtækja þarf að vera raunveruleg þekking og hæfni sem ekki verður til í Excel skjölum fjármálaspekúlanta heldur við að reka verslanir, framleiða lyf eða matvæli, sinna þörfum kröfuharðra viðskiptavina um langt árabil.

Útrásin var því í eðli sínu langt frá því að vera slæm. Gullátið, drambið og vitleysan sem náði tökum á henni undir það síðasta var hins vegar eitraður kokteill. En það þýðir ekki að afskrifa þurfi útrásina alla í sögunni sem eina samfellda fýluferð. Ísland er örsmár markaður og það er fullkomin heimska að ætla að ala fólk upp í þeirri trú að öllum þeim sem hér stunda viðskipti ætti að duga að halda sig heima. Þeir sem vilja gera orðin „útrás“ og „útrásarvíkingur“ að einhverjum skammaryrðum eru jafnframt að hefta möguleika komandi kynslóða til þess að skapa sér viðunandi framtíð. Ný tegund atvinnustarfsemi sem hefur burði til þess að keppa á alþjóðavettvangi þarfnast þess að virðing sé borin fyrir þeirri viðleitni að sækja út fyrir landsteinana til þess að vinna nýja markaði. Til þess þarf að taka áhættu og sætta sig við að hún gangi ekki alltaf upp. Framtíðin mun vonandi ekki geyma slíkt óhóf og vitleysu sem varð undir það síðasta – en það er líka ill tilhugsun ef Íslendingar geta ekki aftur tekið þátt í alþjóðlegum viðskiptum fullir sjálfstrausts og verið tilbúnir til þess að taka áhættu til að vinna stóra sigra.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.