Bábiljur ársins I – Byrjum á að skera niður í utanríkisþjónustunni

Á næstu dögum birtast nokkrar greinar um sumt af því sem oft er sagt en stenst kannski ekki nánari skoðun – eða má í það minnsta deila um. Í fyrstu greininni er fjallað um hina algengu kröfu um að fyrst af öllu skuli skera niður í utanríkisþjónustunni þegar sparað skal.

Þegar útgjöld ríkisins eru gagnrýnd er nánast sjálfkrafa byrjað á því að benda á bruðlið í utanríkisþjónustunni. Þetta er reyndar að miklu leyti rétt því utanríkisþjónustan hefur lengi liðið fyrir það að vera eins konar dagvistunarheimili fyrir fyrrverandi flokksgæðinga sem þurfa stöðugar tekjur og þægilega innivinnu. Þá hafa misheppnuð frumhlaup eins og framboð í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kostað mikið og um leið ausið vatni á myllu þeirra sem gagnrýna utanríkisþjónustuna.

Utanríkisþjónustan er þægilegra skotmark en flest annað í ríkisrekstrinum fyrir nokkurra hluta sakir. Mér dettur í hug tvær líklegar ástæður.

Í fyrsta lagi er mjög áberandi þegar skipaðir eru sendiherrar á pólitískum forsendum, það eru menn sem allir þekkja og um það er fjallað í öllum fjölmiðlum og á því hneykslast í flestum kaffitímum um land allt. Þegar vitlausar ráðningar eiga sér stað annars staðar er ekki eins víst að nokkur taki eftir því þar sem starfsþeginn er ekki frægur og minni glamúr yfir starfinu.

Í öðru lagi er það ennþá þannig á Íslandi að ferðir og langdvalir í útlöndum teljast til sérstakra lífsgæða. Það að sitja í flugvél og hanga á flugstöðum virðist enn þann dag í dag hafa yfir sér einhvern ævintýrablæ meðal hluta þjóðarinnar og hjá fjölmiðlum. Ætli þetta sé ekki eitthvað sem rekja má til þeirra tíma þegar utanlandsferðir voru slíkur munaður að fáir gátu leyft sér hann og sjaldan. Það eimir því enn eftir af þeirri hugmynd að allar utanlandsferðir séu eins og sólarlandaferðir Íslendinga með Sunnu fyrir þrjátíu árum. Byrji á því að sturta niður einum ódýrum og sterkum á Leifsstöð liggja svo á ströndinni í sandölum, drekka bjór, leika með bolta og horfa á ber brjóst. Þetta má skýra af því að við búum á kaldri eyju sem erfitt er að ferðast frá og að afturhaldsamt og forpokað stjórnmálakerfi hefur haldið ýmsum lífsins gæðum frá fólki, eða gert þau svo fokdýr að það hefur ekki verið hægt að njóta þeirra nema í útlöndum. Þetta er úrelt viðhorf. Ferðalög frá Íslandi eru óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að eiga í samstarfi við aðrar þjóðir, hvort sem það er í viðskiptum, menningu eða stjórnmálum – nema fólk sjái virkilega í hyllingum að breyta Íslandi í einhvers konar tilraunastöð sjálfsþurftarbúskapar þar sem fólk lifir á engu öðru en heimagerðum matvælum, handverki og stolti yfir menningarlegri sérstöðu.

Það hefur verið nægt tilefni til að benda á ýmislegt í rekstri utanríkisþjónustunnar sem hefði átt að fara betur. Það má hins vegar spyrja hvort önnur starfsemi ríkisins kæmi eitthvað betur út ef hún væri sett undir sama hatt. Er ekki peningum sóað í óþarfa út um allt í ríkiskerfinu – óþarfar stöður í stofnunum, útþensla ríkisstofnanna sem hafa nánast frjálsar hendur við að skapa sjálfum sér ný verkefni og svo framvegis. Utanríkisþjónustan líður svo fyrir þennan útlandakomplex og fyrir vikið er ósköp þægilegt að gala „sparnaður í utanríkisþjónustunni“ þegar farið er fram á hugmyndir um sparnað.

Annar söngur sem hefur heyrst mjög á síðustu misserum er væl yfir hverri einustu krónu sem ríkið ver til að kaupa ýmis konar sérfræðiráðgjöf frá útlöndum. Fjallað er í fréttum um kostnað við lögfræðiálit, ráðningu sérfræðinga og jafnvel útgjöldum við að þurfa að borga flug undir erlendan sérfræðing sem situr í stjórn Seðlabanka Íslands. Hvers lags afdalamennska er það? Er ekki augljóst að slíkur kostnaður er dropi í hafið miðað við þá hagsmuni sem eru í húfi? Ætlar Ísland að vera eins og Bjartur í Sumarhúsum sem keyrir bú sitt í kaf en getur huggað sig við þá staðreynd að hann hafi þó náð að gera það alveg sjálfur og óstuddur?

Í þeim hremmingum sem Ísland hefur gengið í gegnum eftir fall bankanna hefur þörfin fyrir öfluga og fagmannlega utanríkisþjónustu aldrei verið augljósari. Fámenn þjóð, sem á allt sitt undir samskiptum við aðrar þjóðir, þarf að rækta samskipti sín við stjórnmálamenn og embættismenn af meira kappi en aðrir. Þetta þekkja sumar aðrar fámennar þjóðir vel, svo sem eins og Malta og Kýpur. Ísland virðist hins vegar hafa á að skipa of veikburða utanríkisþjónustu til að koma málstað sínum á framfæri, jafnvel þegar yfirþyrmandi hagsmunir þjóðarinnar eru í húfi.

Starfi góðrar utanríkisþjónustu má líkja við starf vitavarðar. Oftast blikkar vitinn án þess að nokkur verði var við það. Mörg ár geta liðið á milli þess að vitinn verði einhverjum að gagni. En jafnvel þótt ekkert skip sigli framhjá hættulegum kletti í langan tíma þýðir það ekki að hægt sé að fórna vitanum með þeim rökum að hann sé ekkert notaður. Og það sem meira er – þegar skip siglir á áttina að ströndinni í illviðri þá er of seint að byggja vitann og skipið keyrir beint upp í grjótið.

Utanríkisþjónusta þarf að byggjast á því að embættismenn hennar vinni árum og áratugum saman að því að afla tengsla meðal manna um heim allan. Alls óvíst er að nokkru sinni komi til þess að þessi tengsl verði að gagni. En þegar óvæntir atburðir verða þá getur skilið á milli feigs og ófeigs að geta tekið upp símann og hringt beint í áhrifafólk annars staðar í heiminum og fengið tækifæri til að kynna málstað sinn bæði formlega og óformlega. Góð mannleg samskipti og persónuleg tengsl eru eina raunhæfa leiðin til að bregðast við slíkum aðstæðum – og þeim er ekki hægt að rigga upp með engum fyrirvara þegar allt er komið í óefni.

Málstaður Íslands til dæmis í Icesave deilunni og samskiptum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn virðist ekki hafa komist til skila til líklegra bandamanna okkar í Evrópu. Þetta þekkja þeir sem hafa átt samskipti við þingmenn og embættismenn í Evrópu. Málið er svo smátt í samhengi hlutanna að litlar líkur eru á því að almennir þingmenn í Evrópu ómaki sig á því að kynna sér það sérstaklega. Þegar óveðrið vegna þessara mála skall á fóru utanríkisþjónustur Bretlands, Hollands og Evrópusambandsins í yfirsnúning við að tryggja samstöðu án þess að Íslandi gæti rönd við reist. Leikurinn var ójafn og kannski tapaður fyrirfram – en því miður virðist nánast eins og engar tilraunir hafi verið gerðar til þess að fara óformlegar leiðir til þess að byggja upp stuðning og skilining á sjónarmiðum og stöðu Íslands.

Vel smurð utanríkisþjónusta hefði átt að setja saman skothelda kynningu á málinu og sjónarhorni Íslands og fara í skipulagða herferð til að koma því á framfæri sem víðast. Íslendingar hefðu átt að fara beint inn í þingflokka í Evrópu, boða fundi með blaðamönnum og heimsækja valdamikla embættismenn um leið og málið kom upp. Kostnaður við þetta hefði hlaupið á tugum eða hundruðum milljóna króna en augljóst mátti vera að slíkur tilkostnaður væri smámunir miðað við hagsmunina sem voru í húfi.

Engin leið er að vita hversu góðri eða slæmri niðurstöðu slíkar aðgerðir hefðu skilað. Við vitum hins vegar að það sem gerðist í staðinn var að fljótlega eftir að málið kom upp voru andstæðingar okkar í deilunni búnir að semja söguna, segja hana og þar með gera alla baráttu okkar miklu erfiðari.

Þörf Íslands á öflugri utanríkisþjónustu má líkja við þörf sumra annarra þjóða við hervarnir. Ísland er herlaust land og sparar því kostnað sem víða nemur á bilinu 2 til 4 prósent af landsframleiðslu. Það þýðir að jafnvel þótt Ísland verði yfir 20 milljörðum króna á ári til að tryggja hagsmuni sína erlendis með diplómatískum leiðum kæmist það vart nálægt þeim kostnaði sem önnur ríki eyða í hervarnir. Þetta er umtalsvert meira en þeir 4 til 5 milljarðar sem nú er varið í rekstur sendiráða Íslands og 1,5 milljarður sem fer í þátttöku okkar í alþjóðastofnunum. Svo ekki sé talað um þá tug og hundruð milljarða sem hætta er á að falli á íslensku þjóðina ef Icesave málið fer á versta veg – og þann kostnað sem kann að verða ef viðskiptakjör Íslands versna vegna þeirrar deilu.

Einn af þeim fjölmörgu lærdómum sem draga má af gjörningaveðri síðustu missera ætti að vera mikilvægi þess að stofna til og viðhalda traustum tengslum utanríkisþjónustunnar við embættismannakerfi, fjölmiðla og stjórnmálamenn þeirra þjóða sem við eigum í samskiptum við. Niðurskurður í þessum efnum getur reynst okkur dýrkeyptur.

En það er líka dýrkeypt ef ekki verða gerðar nauðsynlegar breytingar á því hvernig utanríkisþjónustan er rekin. Of mikið er um pólitískar sendiherraskipanir á kostnað embættismanna sem hafa alið allan sinn starfsaldur í þágu íslensku utanríkisþjónustunnar. Með því að taka utanríkisþjónustuna alvarlega og skilja mikilvægi þess að hún sé til staðar þegar hagsmunum okkar er ógnað er hægt að gera hana að öflugum málsvara íslenskra hagsmuna þegar á þarf að halda.

Auðvitað er óverjandi sóun til staðar í utanríkisþjónustunni eins og víða annars staðar. En það að heimta að niðurskurður á því sviði sé settur í sérstakan forgang núna er eins og að heimta að láta rífa vita sem stendur á stapa daginn eftir að skip strandaði þar vegna þess að vitinn var bilaður.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.