Heiðarlegri skattheimta

Eins og flestir hafa líklegast orðið varir við hefur ríkisstjórnin á prjónunum að gera stórstígar breytingar á bæði umfangi og eðli skattheimtu á Íslandi; flötum skatti verður varpað fyrir róða, þrepaskipt skattkerfi tekið upp og skattbyrðin almennt hækkuð mikið. Hvort sem þetta mun reynast slíkt óheillaspor og nú er útlit fyrir eða ekki, þá ætti ríkisstjórnin að nýta þessa breytingahrinu til að gera skattheimtuna jafnframt „heiðarlegri“.

Eins og flestir hafa líklegast orðið varir við hefur ríkisstjórnin á prjónunum að gera stórstígar breytingar á bæði umfangi og eðli skattheimtu á Íslandi; flötum skatti verður varpað fyrir róða, þrepaskipt skattkerfi tekið upp og skattbyrðin almennt hækkuð mikið. Hvort sem þetta mun reynast slíkt óheillaspor og nú er útlit fyrir eða ekki, þá ætti ríkisstjórnin að nýta þessa breytingahrinu til að gera skattheimtuna jafnframt „heiðarlegri“.

Á Íslandi leggjast ansi margir mismunandi skattar á launagreiðslur. Umfram tekjuskatt og útsvar, sem flestir launþegar verða helst varir við, eru vinnuveitendur skyldaðir til að greiða almennt tryggingagjald, atvinnutryggingagjald, gjald í Ábyrgðarsjóð launa v. gjaldþrota og markaðsgjald; samtals 8,35 prósent af greiddum launum frá og með næsta ári. Síðastnefndu gjöldin, sem sameiginlega kallast tryggingagjald, eru hálfgerðir bakdyraskattar. Þeir leggjast nefnilega að nafninu til á vinnuveitendur en ekki launþega, þrátt fyrir að áhrif þeirra séu hin nákvæmlega sömu á hvorn veginn sem er.

Til útskýringar getum við ímyndað okkur Lárus launþega, mann með meðallaun eða 370 þúsund krónur á mánuði. Lárus fjargviðrast reglulega yfir því við matarborðið heima hjá sér hvað tekjuskattur og útsvar er hátt á Íslandi og vildi oft óska að hann fengi að halda stærri hluta tekna sinna eftir skatta. Lárus tæki þó líklegast fyrst kast þegar hann áttaði sig á því að ef ekki væri fyrir tryggingagjaldið væri vinnuveitandi hans tilbúinn að semja við hann um allavega 30.895 krónum hærri laun en 370 þúsundin sem hann fær.

Þetta sannar sig sjálft, enda endurspeglar það raunverulegan kostnað vinnuveitandans við að hafa Lárus í vinnu, þegar launin og tryggingagjaldið eru talin saman. Þannig hefur 8,35 prósenta tryggingagjald sömu áhrif og 7,7 prósenta tekjuskattur – kjaraskerðing launþegans er sú nákvæmlega sama í báðum tilvikum að öðru jöfnu.

Þá spyr maður sig af hverju sú leið sé farin að skipta sköttunum niður á launþega annarsvegar og vinnuveitendur hinsvegar þegar það er einfaldara, skilvirkara og gegnsærra að innheimta þá alla í einni lotu og sem eina sameinaða prósentu. Vonast stjórnmálamenn til að launþegar átti sig ekki á kjaraskerðingunni sem þeir verða fyrir þegar skatturinn er innheimtur með þessum hætti?

Það er ekki nema eðlilegt að áhrif skattahækkana og annarra ákvarðana sem stjórnvöld taka séu kjósendum sem skýrust. Skref í þá átt væri að sameina alla skatta sem leggjast á launagreiðslur í eina prósentutölu og kalla hana sínu rétta nafni; tekjuskatt. Aðeins þannig finna þeir sem bera skattbyrðina áhrif hennar á eigin skinni.

Það er gegnsæ skattheimta, og miklum mun heiðarlegri en bakdyraskattur af þeim toga sem tryggingagjaldið er.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)