Þegar þjóðamorð eru lögleidd

Síðustu ár hafa bókstafstrúarmenn innan vissra safnaða í Bandaríkjunum verið að senda predikara sína til Afríkuríkisins Úganda. Nú í sumar fóru þrír hatursmenn með ein skilaboð í för. Hvað var þeirra málstaður? Að hægt væri að lækna samkynhneigð. Hver var afleiðingin? Hatur á nýju stigi.

Síðustu ár hafa bókstafstrúarmenn innan safnaða í Bandaríkjunum verið að senda predikara sína til Afríkuríkisins Úganda. Nú í sumar fóru þrír hatursmenn með ein skilaboð í för. Hvað var þeirra málstaður? Að hægt væri að lækna samkynhneigð. Hver var afleiðingin? Hatur á nýju stigi.

Þessir gervivísindamenn gengu á milli manna í Úganda og spúðu yfir þá hatri í nafni trúarinnar. Þrátt fyrir algera vankunnáttu í sálfræði, læknisfræði, líffræði og félagsfræði titluðu þeir sig sérfræðinga og pöpullinn hlustaði agndofa á. Eftir að þessir þrír geðsjúklingar yfirgáfu landið settust ráðamenn og trúarleiðtogar niður til að finna lausn á því, sem að sögn útlendinganna, var helsta vandamál landsins. Og hvert var vandamálið? Nú, auðvitað samkynhneigð.

Lausnin var svo lagafrumvarp sem er nú í umræðum á þingi Úganda. Í þeim er samkynhneigð gerð ólögleg og refsingarnar eru allt frá dauðadómi og „niður í“ lífstíðarfangelsi fyrir að stunda kynlíf með einstklingi af sama kyni. Sá sem styður samkynhneigð fjárhagslega getur átt yfir höfði sér allt að 7 ára fangelsi. Sá sem segir ekki til einstaklings sem er samkynhneigður má eiga von á 3 ára fangelsisdómi.

Mál þetta teygir arma sína út um hina sóðalegu öfgatrúarhópa Bandaríkjanna. Meðal þeirra sem hafa verið viðriðnir málið eru 6 þingmenn, predikarinn Rick Warren (sem talaði á setningu Obama sem forseta) og leynilega trúarfélagið „The Family“. Hver stjórnmálamaðurinn á fætur öðrum reynir nú hins vegar að afneita þessu Afríkulandi til að bjarga sínu eigin skinni. Í fyrstu voru yfirlýsingarnar vægar eins og: „Ég skipti mér ekki af stjórnmálaástandi í öðrum ríkjum.“ En nú eru menn orðnir harðorðari eftir því sem málið vekur meiri athygli.

Það er sláandi hvað svona haturs predikarar geta haft mikil áhrif og hvernig þeir hrökklast svo undan þegar afleiðingarnar verða ljósar. Ótrúlegast er hvernig þeim virðist í raun vera alveg sama þangað til að almenningur fer að heimta svör. Hvernig getur siðmenntað land þolað svona þegar einfeldningar mála sig sem sérfræðinga í nafni haturs og trúar? Við megum heldur ekki gleyma að svipaða menn er hægt að finna hér á landi. Þetta dæmi sýnir bara hvað getur gerst ef þeir fá hljómgrunn í samfélaginu.

Það verður líka að segjast undarlegt hve lítið hefur verið fjallað um þetta mál í fréttum hérlendis. Svíar hafa ákveðið að hætta gefa þróunarhjálp til Úganda sem er skref í rétta átt. Við getum ekki setið aðgerðalaus á meðan svona hatur fær að blómstra. Eitthvað hlýtur að vera hægt að gera.

Latest posts by Einar Leif Nielsen (see all)

Einar Leif Nielsen skrifar

Einar Leif hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2008.