Computer says no

Árlega koma tugir flóttamanna hingað til lands. Þrátt fyrir að landið hafi á sínum tíma verið byggt af fólki sem hraktist frá öðrum löndum hingað til lands og tók sér hér búsetu, þá höfum við farið þá leið í okkar löggjöf og framkvæmd í málefnum flóttamanna hér á landi að hafa landið nánast lokað. Afar fáar umsóknir ná í gegn, flestar þeirra eru sendar til umfjöllunar í öðrum löndum en þær sem ná í gegn er í flestum tilfellum hafnað.

Lífsins gæðum er misskipt. Því höfum við Íslendingar fengið að kynnast undanfarin misseri en þó er það svo að lífsgæði okkar og möguleikar eru enn meðal þess sem best gerist í heiminum. Þar kemur bæði til að hér er velmegun nokkuð mikil og að annars staðar í heiminum er mikið af fólki sem býr við miklu verri aðstæður.

Þegar aðstæður eru erfiðar er mannlegt að reyna að komast burt og leita að betra lífi annars staðar í heiminum. Af þeim sökum er mikið flæði af flóttamönnum og hælisleitendum sem leitar ásjár á Vesturlöndum. Afleiðing af þessari þróun er sú að ríki í Evrópu hafa komið sér upp reglum um hvernig taka eigi á málefnum hælisleitenda, þar á meðal samskiptareglum milli ríkjanna. Til dæmis hefur sú regla verið mótuð með Dyflinnar-reglugerðinni svokölluðu að hafi flóttamaður upphaflega lent í landi A og komið sér þaðan til lands B, þá geti síðarnefnda landið alltaf sent flóttamanninn til baka til fyrra landsins, sem er þá ábyrgt fyrir því að taka umsókn flóttamannsins til umfjöllunar og komast að niðurstöðu í málinu. Þessi regla var tekin upp hér á landi í 46. gr. laga nr. 96/2002, um útlendinga og kveður á um að vísa megi flóttamanni frá ef krefja má annað ríki um að taka við viðkomandi.

Í athugasemdum með frumvarpinu er hins vegar áréttað að hér sé um heimild en ekki skyldu að ræða: „Rétt er þó að taka fram að þótt ekki sé skylt að veita þessum flóttamönnum hæli er það ávallt heimilt. Meta verður hverju sinni hvort undanþágu skuli beita.“

Eins og gefur að skilja er álagið mismikið eftir einstökum þjóðum. Því sunnar í Evrópu sem þjóðir eru þeim mun algengara er þær séu fyrsti viðkomustaður flóttamanna og hælisleitenda og að sama skapi er sjaldgæfara að flóttamenn fljúgi beint til norðlægari landa álfunnar.

Í því ljósi er athyglivert hvernig íslensk stjórnvöld hafa túlkað áðurnefnda Dyflinnar-reglugerð og ákvæði 46. gr. útlendingalaganna. Sú framkvæmd hefur myndast hér á landi að endursending flóttamanna er orðin meginreglan og ár hvert er fjöldi flóttamanna endursendur frá Íslandi.

Fæstar þessara endursendinga vekja mikla athygli. Þó hefur á rúmu ári vaknað mikil umræða um málefni tveggja einstaklinga sem átti að senda úr landi á grundvelli þessa ákvæðis, þ.e. þeirra Noordin Alazawi frá Írak og Paul Ramses frá Kenýa en báðir höfðu þeir verið hér á landi í töluverðan tíma áður en ákveðið var að senda þá burt og taka umsókn þeirra fyrir í upprunalandi, eins og það heitir á tæknimálinu.

Í báðum tilfellunum var því borið við að íslensk stjórnvöld væru eingöngu að fara að lögum og reglum. Eins og framangreint lagaákvæði og útskýringar í athugasemdum frumvarpsins bera með sér er hins vegar engin skylda að senda flóttamenn til upprunalandsins. Um er að ræða heimild en ekki skyldu og sé horft til landfræðilegrar legu Íslands samanborið við t.d. lönd sunnar í álfunni er augljóst að til okkar leita í grunninn miklu miklu færri flóttamenn en til Grikklands, Spánar eða Ítalíu.

Frá árinu 2001 til 2007 bárust 494 umsóknir um hæli hér á landi, samkvæmt upplýsingum á vef Útlendingastofnunar. Aðeins um þriðjungur þeirra var tekinn til efnislegrar meðferðar á þessu tímabili, um 38% umsókna voru sendar til baka á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar og um 28% umsókna voru dregnar til baka. Af þeim 165 umsóknum sem teknar hafa verið til efnismeðferðar frá 2001 til 2007 hefur Útlendingastofnun synjað 88% þeirra. Hér er um þvílíkt nálarauga að ræða að landið er nánast lokað fyrir flóttamönnum.

Þáverandi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason gerði afar vel í því í fyrra að bjarga máli Paul Ramses fyrir horn eftir að Útlendingastofnun hafði tekið þá ákvörðun að vísa honum úr landi. Það var reyndar sjálfstætt umhugsunarefni hvernig ráðist var gegn ráðherranum sjálfum í því máli, á grundvelli ákvörðunar sem undirstofnun tók og að sama skapi hve litla athygli það fékk að ráðherrann þáverandi beitti sér einmitt fyrir því að málið yrði endurskoðað.

Í tilfelli Noordin Alazawi þá fékk Írakinn ungi að vita það með dagsfyrirvara að hann yrði sendur til Grikklands og að mál hans yrði tekið fyrir þar í landi. Grísk stjórnvöld hafa fengið á sig gagnrýni fyrir þær aðstæður sem flóttamönnum eru búnar. Sú gagnrýni hefur fyrst og fremst beinst að aðstæðum flóttamanna sem koma að landamærum Grikklands en síður að þeim sem eru áframsendir til landsins, að því er fram kemur í skýrslu sem dómsmálaráðuneytið vann um málið í sumar. Staðreyndin er hins vegar sú að mikill fjöldi umsókna berst grískum stjórnvöldum og möguleikar þeirra á að taka við fólki og vinna úr þeim beiðnum sem berast eru takmarkaðir. Aðbúnaður þar hefur verið gagnrýndur.

Það er því ekki að ástæðulausu að spurt er hvers vegna íslensk stjórnvöld hafa vanið sig á þessa harðlínuafstöðu gagnvart formsatriði á borð við það hvar umsóknin verði tekin fyrir. Mikilvægt er að hafa í huga að það að taka umsókn fyrir segir ekkert til um hvort hún verði samþykkt. Könnun á þeirri hlið málsins er allt annar hlutur. Eftir stendur hins vegar spurningin hvers vegna heimild útlendingalaga til að vísa málum frá Íslandi til landa sem eru undir miklu álagi og þar sem aðstæður eru verri en hér. Þeirri spurningu er ekki nóg að svara með því að segja að íslensk stjórnvöld fari að lögum og reglum.

Þeir flokkar sem standa að núverandi ríkisstjórn hafa gjarnan státað sig af því að fylgja mannréttindum í hvívetna. Þegar á hólminn er komið er hins vegar tekin upp harðlínuafstaða gagnvart flóttamönnum, raunar svo hörð að Mannréttindadómstóll Evrópu sá ástæðu til að kveða upp bráðabirgðaúrskurð í máli Noordin Alazawi á dögunum og afturkalla þannig ákvörðun Útlendingastofnunar.

Ísland var á sínum tíma byggt af fólki sem lagði upp í leit að betra lífi og raunar hafa atburðir undanfarinna missera gert það að verkum að fjöldi Íslendinga vill nú freista gæfunnar annars staðar í heiminum. Viðhorfið núna er orðið þannig að flóttamönnum sem leita hingað er ýtt burt á grundvelli tæknilegra atriða en umsóknum þeirra sem sleppa í gegn er hafnað. Við eigum að gera betur því þær tilfinningar sem ýta fólki hvaðanæva að úr heiminum af stað standa okkur nærri.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.