Ung var ég kommúnisti

– fer ekki saman að vera skapandi og hægrisinnaður? –

Af hverju er sál mín sem eitt sinn var iðandi af spenningi og sköpunarkrafti allt í einu orðin beigelituð og bæld? Hvenær villtist ég af leið hressleika og flipps og ráfaði úr Grjótaþorpi inn í Garðabæ, táknmynd fyrir samfélag hægrisinna þar sem ég hef andlega dvalið síðustu ár með nýtt gildismat, aðrar áherslur og fálkatattú á upphandleggnum?

Ég hitti gamla skólasystur úr grunnskóla í Hagkaupum um daginn. Sú rak upp stór augu þegar hún sá mig, þótti ég hafa breyst talsvert og eftir stutt spjall um hvað við værum að gera í dag minnkaði undrunin síst. Þessi skólasystir mín er miskunnarlaust heiðarlega týpan og tilkynnti mér þess vegna beint í fésið að henni þætti leiðinlegt að heyra að ég hefði ,,yfirgefið listirnar”, ég hefði nú alltaf verið svo helvíti skapandi og það væri leiðinlegt að sjá hvernig hefði farið fyrir mér, lögfræðinema í hlutastarfi hjá banka.

Þar sem ég stóð andspænis henni í Hagkaupum Garðatorgi að kvöldlagi og hlustaði á það sem er líklega heiðarlegasta persónugagnrýni sem ég hef hlotið í langan tíma, varð ég skyndilega óþægilega meðvituð um kellingarlegu pilsdragtina mína, háhæluðu skóna og körfuna mína með sokkabuxnapari, sushibakka og mýkingarefni. Skyndilega leið mér eins og miðaldra manneskju fastri í líkama ungrar konu. Hvar höfðu dagar lífs míns lit sínum glatað, hvenær varð umhverfi mitt pastellitað og fataskápurinn allur í grátónaskalanum? Af hverju er sál mín sem eitt sinn var iðandi af spenningi og sköpunarkrafti allt í einu orðin beigelituð og bæld? Hvenær villtist ég af leið hressleika og flipps og ráfaði úr Grjótaþorpi inn í Garðabæ, táknmynd fyrir samfélag hægrisinna þar sem ég hef andlega dvalið síðustu ár með nýtt gildismat, aðrar áherslur og fálkatattú á upphandleggnum?

Ég er ekki sú eina, og engan veginn augljósasta dæmið. Frægur maður sagði eitt sinn að allar viti bornar manneskjur væru kommúnistar á unglingsárunum og hægrimenn það sem eftir er lífs. Og þá er komið að því sem mér finnst áhugaverðasti vinkillinn á þessari umræðu. Hvað gerist sem veldur þessum umsnúningi hjá fólki? Eru það gáfurnar sem toga mann til hægri, á sama tíma og hjartað kólnar og unggæðingshátturinn bráir af manni? Þroskast maður virkilega upp úr kommúnismanum?

Eftir að hafa gengið hina klassísku Vesturbæjarleið með endastöð í MR, hef ég kynnst nokkuð breiðri fylkingu fólks og finnst ég geta flokkað það unga fólk sem átti eftir að feta veginn til Valhallar síðar meir í tvo flokka; Þá sem voru aldir upp við Flokkstryggð og pólitíska meðvitund frá blautu barnsbeini, fengu frjálshyggjuna með móðurmjólkinni. Þetta voru snyrtilegu börnin í bekknum, sem horfðu á barnatímann á Stöð tvö og fengu kókópöffs um helgar. Hins vegar voru það þeir sem ekki komu frá því sem kalla mætti rammpólitísk heimili, ligeglad börnin sem voru ómálaðir strigar,höfðu félagshæfnina að vopni með dass af áhrifagirni.

Þegar þessi börn lentu hvert í annars félagsskap var einungis ein útkoma, hægrisannfæringin smitaði út frá sér, og úr varð einn stór hópur Flokkstryggra ungmenna. Þegar í menntaskóla var komið var oftast búið að gera drög að hernaðaráætlun fyrir framtíðina, félagsmálarúnkið hófst og skilin milli hópa breikkuðu. Ákveðnir hlutir virðast hafa segulmagn á hægri menn, það heyrði til undantekninga ef ung íhaldshjörtu náðu ekki sækja sér afþreyingu í annaðhvort ræðukeppnir eða nemendafélagsstjórnir, ungliðahreyfingar eða Dale Carnegie. Og er það vel. En það þýðir ekki að þessi sömu hjörtu hafi undir eins gefið æskugalsann upp á bátinn. Því þær manneskjur sem ég lýsi hér að ofan og ég komst í kynni við á menntaskólaárunum og frameftir, eru oftar en ekki þær galsafyllstu og hugmyndaríkustu sem ég hef kynnst, og sannast þannig að það fer raunverulega saman að vera skapandi og vera Sjálfstæðismaður.

Nú fýkur áreiðanlega í þann eina vinstrimann sem mun lesa þetta greinarkorn mitt, (ef einhver er) finnst ég sé heilaþvegin Garðbæingasleikja með áróðurskenndan og illa skrifaðan texta sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Þess vegna skal ég rökstyðja þessa fullyrðingu mína á einstaklega listrænan hátt og sýna fram á að hægrisinnar geta verið skapandi bæði í leik og starfi. Pólitík er nefnilega eitt af því mest skapandi sem hægt er að taka sér fyrir hendur. Ef við brjótum hlutverk og dagleg störf stjórnmálamanna niður í grunninn þá fást þeir við ræðumennsku, mannleg samskipti og skriftir. Þeir skrifa handritin að hinum ótrúlegustu spennusögum sem gerast í raunveruleikanum, leggja drög að fléttum sem toppa hvaða þriller sem er og spila manntafl sem Bobby Fischer hefði ekki getað upphugsað í sínum sturlaða huga.

Að loknum vinnudegi skipta margir sjálfstæðismenn svo pressuðu jakkafötunum út fyrir rifnar gallabuxur og leyfa sér að spila með hljómsveitinni sinni, spila kubb eða dansa ballett. Þannig hef ég aldrei fundið hvöt hjá mér til þess að hætta að semja barnalög á gítar, dansa eða haga mér reglulega eins og kengþroskaheftur einstaklingur eftir að ég gekk í Sjálfstæðisflokkinn, né heldur hafa vinir mínir úr þeirri átt hvatt mig til að láta af því. Það fer prýðisvel saman að leika sér og lesa Moggann. Engin ástæða er til að vinstrimenn í þjóðfélaginu hafi einkarétt á því að meta góða tónlist, fara á málverkasýningar og kvikmyndahátíðir. Leika sér, spila á hljóðfæri og stunda Kaffibarinn.

Vörumst að flokka fólk eins og sauðfé, það er ekki samasemmerki milli vatnsgreiddra lubba og sálarfátæktar.

Latest posts by Guðrún Sóley Gestsdóttir (see all)