Enginn veit hvað átt hefur…

„Og ég sem hélt að allt væri orðið svo gott í Suður-Ameríku… en þá er bara vatns-og rafmagnsskortur og stríð í uppsiglingu!“ Þessi orð lét hollensk vinkona mín falla síðastliðinn mánudag en daginn áður var rafmagnið tekið af borginni okkar, Manta, og sama dag bað Hugo Chavez, forseti Venesúela, þjóð sína um að vígbúast.

„Og ég sem hélt að allt væri orðið svo gott í Suður-Ameríku… en þá er bara vatns-og rafmagnsskortur og stríð í uppsiglingu!“ Þessi orð lét hollensk vinkona mín falla síðastliðinn mánudag en daginn áður var rafmagnið tekið af borginni okkar, Manta, og sama dag bað Hugo Chavez, forseti Venesúela, þjóð sína um að vígbúast.

Vegna mikilla þurrka í fjallahéruðum Ekvador er rafmagn skammtað til íbúa landsins og er því rafmagnslaust hjá heimilum og fyrirtækjum í nokkra klukkutíma á dag. Forsetinn, Rafael Correa, hefur beðið þjóðina um að fara sparlega með bæði vatn og rafmagn og mun til að mynda skemmtistöðum verða lokað klukkan tólf á miðnætti, alla daga vikunnar, næstu tvo mánuði í orku-sparnaðarskyni. Minnir þetta óneitanlega á skilaboð sem Hugo Chavez sendi þjóð sinni fyrr í haust: vegna vatnsskorts skyldi fólk ekki vera lengur en þrjár mínútur í sturtu og láta það vinsamlegast eiga sig að syngja á meðan. Hvers vegna? Jú, vegna þess að syngjandi fólk í sturtu gleymir sér frekar og þar með fer vatnið til spillis.

Ef til vill er ekki sanngjarnt að nefna þá í sömu andrá, Correa og Chavez, því sá fyrrnefndi kemst ekki með tærnar þar sem sá síðarnefndi hefur hælana þegar kemur að undarlegum stjórnarháttum. Í grunninn eru þeir þó skoðanabræður og pólitískir samherjar. Má til dæmis leiða líkum að því að ef til stríðs kemur milli Venesúela og Kólumbíu þá mun Correa ekki hjálpa og styðja nágrannaþjóð sína í norðri heldur félaga sinn Chavez. Ekvadorar vonast þó til þess að forsetinn láti stríðið afskiptalaust enda af nógu að taka heima fyrir.

Þrátt fyrir að það sé ekki sambærilegt kemst ég ekki hjá því að bera heimaland mitt og ástandið þar saman við ástandið hér í Ekvador. Hér býr tæplega helmingur þjóðarinnar undir fátæktarmörkum, lágmarkslaun eru um 150 dollarar á mánuði, meirihluti stúlkna eignast sitt fyrsta barn fyrir 18 ára aldur og flestir enskukennarar í menntaskólum landsins geta varla bjargað sér á ensku (!), svo fáein dæmi séu tekin. Atvinnuleysi er ávísun á fátækt þar sem atvinnuleysisbætur þekkjast ekki hér og stjórnkerfið er svo gerspillt að ef til dæmis nýr borgarstjóri kemst til valda mega allir þeir sem starfa hjá sveitarfélaginu óttast um vinnu sína. Hjá stjórnmálamönnunum snýst nefnilega allt um það að koma vinum og vandamönnum þægilega fyrir, hvort sem viðkomandi fær einhvers konar stjórnunarstöðu hjá hinu opinbera eða „bara“ vinnu á einum af leikskólum borgarinnar.

Vissulega blæs ekki byrlega fyrir Íslendinga um þessar mundir en enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, eins og ég hef komist að á síðustu vikum. Því ráðlegg ég buguðum samlöndum mínum að hugsa örlítið út fyrir kassann og muna að Ísland er háþróað samfélag sem hefur alla burði til þess að komast klakklaust upp úr öldudal kreppunnar. Ég get að sama skapi ekki hugsað þá hugsun til enda hvernig færi fyrir Ekvador lenti landið í álíka efnahagsþrengingum.

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.