Fagmennska í fjölmiðlum

Fáar tuggur eru orðnar jafn slitnar og bragðdaufar eins og umræðan um fjölmiðla, þó svo að hún verði aldrei útrunninn. Það viðfangsefni virðist kynda hressilega undir þorra þjóðarinnar sem hefur myndað sér skoðun á hverjum og einum miðli, fólkinu sem mannar stéttina og hlutverki fjölmiðla yfirleitt. Ljóst má telja að ástæðan fyrir því að þetta viðfangsefni sé slík ótæmandi uppspretta ástríðufullra deilna sé sú að fjölmiðlar hafa gríðarlegt vald á höndum sér.

Fáar tuggur eru orðnar jafn slitnar og bragðdaufar eins og umræðan um fjölmiðla, þó svo að hún verði aldrei útrunninn. Það viðfangsefni virðist kynda hressilega undir þorra þjóðarinnar sem hefur myndað sér skoðun á hverjum og einum miðli, fólkinu sem mannar stéttina og hlutverki fjölmiðla yfirleitt. Ljóst má telja að ástæðan fyrir því að þetta viðfangsefni sé slík ótæmandi uppspretta ástríðufullra deilna sé sú að fjölmiðlar hafa gríðarlegt vald á höndum sér.

Margir hafa gengið svo langt að sjá fjölmiðla fyrir sér sem handhafa fjórða ríkisvaldsins, eins konar eftirlitsaðila gagnvart hinum valdhöfunum. Þannig gegna þeir þrýsti- og gagnrýnihlutverki sem kallað hefur verið endurskoðunarvald almennings. Þeir eru hlekkurinn á milli almennings og annarra valdhafa, gjallarhorn í höndum ráðamanna þjóðarinnar og sinna þannig mikilvægu hlutverki í lýðræðissamfélögum sem krefjast í æ ríkari mæli aukins gagnsæis, með áherslu á hlutleysi, birtingu og fagmennsku. En þyki vafasamir stjórnarhættir við lýði innan hinna þriggja skilgreindu greina ríkisvaldsins, er nokkuð ljóst að íslenskir fjölmiðlar sprengi alla skala í þeim efnum. Skrumskæling þeirra á mörgu því sem gerist í samfélaginu er með ólíkindum og skáldaleyfi blaða- og fréttamanna fyrir löngu síðan farið að þykja sjálfsagður hlutur. Það sem á sér stað á Alþingi, í ráðuneytunum eða hjá öðrum valdhöfum í þjóðfélaginu er marínerað rækilega í hlutdrægum pottum miðlanna áður en það er borið á borð fyrir almenning. Í framhaldi er svo kröftum stjórnmálamanna sóað í að leiðrétta misvísandi umfjöllun eða berjast gegn helberri rangtúlkun spunameistarana sem sitja við stjórnvölinn á fjölmiðlum, hvort heldur um er að ræði fjölmiðla í ríkis- eða einkaeign.

Sennilega er erfitt, nánast ómögulegt að uppræta þennan skrípaleik, sömu sögu er að segja um heim allan og eðli málsins samkvæmt er ógerlegt að skapa fjölmiðil sem er samkvæmt allra skilgreiningu fullkomlega hlutlaus, á sama tíma og hann uppfyllir kröfur um að vera beinskeyttur og gagnrýninn. En við megum ekki yfirgefa þá hugsjón með öllu, og nú er þörf á nýrri innspýtingu inn í fjömiðlaflóru landsins.
Nærtækt er að gera ráð fyrir að starfsmenn miðlanna séu einfaldlega afsprengi stjórnenda sinna, eigendum og ristjórum fylgja blaðamenn af sama sauðahúsi, og forystukindurnar í þeirri hjörð hafa í fjöldamörg ár verið heldur dapurlegar, með örfáum undantekningum þó. Ef við tökum hugmyndina um fjölmiðla sem handhafa fjórða ríkisvaldsins skrefinu lengra og lítum á þær kröfur sem hafa orðið æ háværari upp á síðkastið, og ekki að ósekju, um sérfræðiþekkingu á hverju sviði stjórnsýslunnar – má ganga út frá sömu forsendum þegar kemur að fjölmiðlum. Að sjálfsögðu er ekki réttmætt að gera þær kröfur að hver og einn blaðamaður hafa sérmenntun í takmörkuðu efnissviði sem honum er falið að fjalla um, en samt sem áður má spyrja sig hvort fólki með takmarkaða eða enga þekkingu eða menntun í þeim viðfangsefnum sem það fjallar um sé treystandi til þess að vera tengiliður almennings inn við aðra valdhafa. Nóg hefur verið talað um heimspekinginn í viðskiptaráðuneytinu og dýralækninn í fjármálaráðuneytinu, en það er aðeins til að strá salti í sárin að láta tengiliðinn við þessa stjórnendur vera skammarlaust hlutdrægar bleyður, eins því miður stundum vera raunin.

Það er stórhættulegt að vanmeta áhrifamátt fjölmiðla. Dæmin sýna hvernig þeir geta stjórnað almenningsáliti eins og strengjabrúðumeistarar með því að tilnefna blóraböggla sem hafa aflað sér persónulegrar óvildar við þennan eða hinn eigandann og aflífað viðkomandi á opinberum vettvangi, þvingað til afsagna eða meiriháttar breytinga. Þetta vald geta þeir nýtt sér á tvo vegu, annars vegar sem eftirlitsaðili með stjórnsýslunni, verkfæri almennings til endurskoðunar á því sem fram fer á Alþingi, rétt eins og dómstólar hafa endurskoðunarvald yfir löggjafanum eða nýtt sér það til áðurnefndra persónulegra hefndaraðgerða eða lágkúrulegra óverðskuldaðra árása, en þá er lýðræðisleg forsendan brostin og þeir þvert á móti farnir að vinna gegn almannahagsmunum.

Þó svo að einhverju leyti sé mögulegt fyrir hinn almenna borgara að vera sinn eigin heimildamaður, og treysta engu sem birt er í miðlunum, þá hafa flest okkar hvorki tíma né tækifæri til að standa í eilífri pílagrímsför í leit að sannleikanum á pöllum Alþingis eða sem fluga á veggjum ráðuneytanna, við einfaldlega lesum blöðin með morgunkaffinu, skoðum vefmiðlana í vinnunni og kvöldfréttir við matarborðið. Þetta gera flestir með gagnrýnum huga og eru fulkomlega meðvitaðir um hlutdrægni þeirra sem flytja fréttirnar, en það er spurning hversu mikla viðleitni eiga þurfa að sýna tilað rýna í dulmálskóðaðar meiningar fréttamanna eða sjá í gegnum rykskýin sem reynt að slá í augu okkar.

Eins og áður kemur fram eru rómantískar ídealistahugmyndir um fullkomlega hlutausa fjölmiðla fjarstæðukenndar og geta aldrei orðið að veruleika, en við getum þó reynt að þokast í átt að því takmarki með því að skapa blaða- og fréttamönnum betra starfsumhverfi. Eins og staðan er í dag lækkar krafan um framleiðni í undirmannaðri stétt gæðastig allrar umfjöllunar, flestir blaðamenn hafa til dæmis hvorki þann tíma né fjármagn sem þyrfti til að vinna tímafreka rannsóknarvinnu, þeir þurfa að þóknast hlutdrægum yfirmönnum og lúta óskráðum reglum á sama tíma og þeir þurfa að takast á við sífellda togstreitu milli krafna um áreiðanleika annars vegar og hver nær að vera fyrstur með fréttirnar hins vegar, að ógleymdum lúsarlaununum sem þessari mikilvægu starfsstétt er boðið upp á. Þessu verður að breyta, og frekari úrbætur gætu til að mynda verið að gera hertari ráðningarkröfur, launahækkun og að tryggja sjálfstæði þeirra gagnvart eigendum. Nýtt frumvarp til fjölmiðlalaga sem Katrín Jakobsdóttir kynnti á dögunum og fjallað hefur verið um hér á Deiglunni er hænuskref í rétta átt þar sem áhersla er frekar lögð á hugguleg hugtök eins og ,,ritstjórnarlegt sjálfstæði” þegar mun veigameiri þáttur í yfirhalningu fjölmiðla á Íslandi er þörfin á regluverki í tengslum við eignarhald fjölmiðla.

Latest posts by Guðrún Sóley Gestsdóttir (see all)