LÍN

Margir Íslendingar eiga það sameiginlegt að hafa leitað á náðir Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) í gegnum tíðina til þess að framfleyta sér meðan þeir hafa gengið menntaveginn. Hluti þeirra hafa vafalaust á einhverjum tímapunkti þurft að hafa samskipti við LÍN og því miður heyrast yfirleitt frekar slæmar sögur en góðar af slíkum samskiptum.

Margir Íslendingar eiga það sameiginlegt að hafa leitað á náðir Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) í gegnum tíðina til þess að framfleyta sér meðan þeir hafa gengið menntaveginn. Hluti þeirra hafa vafalaust á einhverjum tímapunkti þurft að hafa samskipti við LÍN og því miður heyrast yfirleitt frekar slæmar sögur en góðar af slíkum samskiptum. Greinahöfundur er einn af þeim fjölmörgu Íslendingum sem hafa þurft að nýta sér þjónustu LÍN í gegnum árin, fyrst þegar undirrituð stundaði nám á Íslandi fyrir nokkrum árum og nú við nám erlendis. Fyrri reynsla af samskiptum við LÍN var öll til fyrirmyndar, enda engin vandamál sem komu upp. Nú hef ég því miður allt annað en góða sögu að segja frá liðsemi LÍN. Fyrir næstum fjórum árum útskrifaðist ég sem byggingartæknifræðingur og hef síðan þá unnið í byggingarbransanum. Eins og flestir vita var meira en nóg að gera í þeim geira, þar til fyrir rétt um ári síðan. Þessar nýju aðstæður hvöttu til að skoða möguleikann að hefja nám að nýju, nú er ég í mastersnámi í Þýskalandi.

Það er ýmislegt sem þarf að huga að þegar flutt er til annars lands, en aldrei hefði mér dottið í hug að á endanum væri LÍN sá þáttur sem setti strik í reikninginn. Uppi er sú staða, að af þeim rétt rúmum 800€ sem ég hef í framfærslu á mánuði munu, næstu fimm mánuði, um 20% fara í það að greiða niður eldri námslán.

Hvernig stendur á þessu? Jú, eftir tveggja ára námshlé, byrja lántakendur að greiða niður sín námslán. Tvisvar á ári skal greiða til sjóðsins, í mars er það föst greiðsla og í september tekjutengd greiðsla sem miðast við tekjur fyrra árs. Umrædda tekjutengda afborgun er sú greiðsla sem lánasjóðurinn krefur mig um að greiða, eins og alla aðra fyrrum námsmenn. Þetta skal ég greiða þrátt fyrir að ég sé í fyrsta lagi, námsmaður, í öðru lagi hafa verið sagt upp störfum og í þriðja lagi verið með tekjufall upp á mun meira en 30% milli áranna 2008 og 2009. Þessar þrjár aðstæður eru einmitt nefndar sem réttmætar ástæður til niðurfellingar á afborgun samkvæmt reglum LÍN en þó fell ég ekki í neinn fyrirskrifaðan hóp. Hví? Námsmenn geta fengið frestun á afborgun, en aðeins ef þeir hafa stundað nám á vorönn árið 2009. Atvinnulausir frá niðurfellingu á afborgun, en aðeins ef þeir hafa verið atvinnulausir í fjóra mánuði og að lokum fá þeir sem verða fyrir meira en 30% tekjuskerðingu milli ára einnig niðurfellingu, en þá gilda reiknireglur LÍN, tekjur ársins 2009 eru uppreiknaðar út árið og miðaðar við tekjur ársins 2008.

Ég fell ekki inn í neinn af þessum flokkum þrátt fyrir að uppfylla öll grunnskilyrðin, án smáa letursins. Eftir margar heimsóknir til LÍN og eftir að hafa fengið neitun við umsóknum mínum samkvæmt öllum þremur leiðunum, var mér bent á síðasta valkostinn, senda formlegt bréf, með rökstuddu máli á stjórn LÍN. Þetta gerði ég og nú, rúmum 5 vikum síðar, fékk ég loks svar. Stjórn LÍN sendi bréf þess efnis að beiðni minni væri hafnað þar sem skilyrði samkvæmt reglum sjóðsins væri ekki uppfyllt.

Ástæðan fyrir þessari grein minni er ekki að óska eftir samúð vegna míns máls heldur til að vekja athygli á óliðsemi LÍN. Ég á allra síðasta valkostinn eftir, sem ég hyggst auðvitað nýta mér, að kæra úrskurð stjórnarinnar til málskotsnefndar. Að það muni bera árangur, tel ég ólíklegt en þó má alls ekki gefast upp.

Mikið hefur verið fjallað undanfarið um LÍN og þá lágu framfærslu sem námsmenn þurfa að lifa við. Nýverið var framfærslan hækkuð vegna þrýsting frá námsmönnum, skref í rétta átt, en ennþá eiga námsmenn að geta lifað ódýrar heldur en atvinnulausir. Einnig er námsmönnum gert erfiðara fyrir að vinna með námi, til að hafa það ögn betra, þar sem tekjuskerðing var aukin gríðarlega í nýju lögunum.

Að hefja nám á ný eftir nokkurra ára hlé er nógu stórt verkefni, án þess að þurfa að nota 20% ráðstöfunartekna í að endurgreiða eldri námslán. Ég efast ekki um að margir aðrir séu í sömu sporum og ég, miðað við allan þann fjölda fólks sem hefur misst vinnuna undanfarið og þann fjölda sem hafið hefur nám á ný. Ég vil því hvetja alla þá fjölmörgu námsmenn, heima sem erlendis, að láta ekki deigan síga og halda áfram að þrýsta á LÍN þar til kjör námsmanna og þjónusta LÍN verður ásættanleg.

Latest posts by Erla Margrét Gunnarsdóttir (see all)