Hvað er að frétta?

Eins og sakir standa fylgist ég ekki af ákafa með umræðunni á Íslandi; ég læt dvöl mína í Ekvador koma í veg fyrir það. Í rúman mánuð hef ég hvorki séð fréttatíma í íslensku sjónvarpi né hlustað á útvarpsfréttir. Vefmiðlana les ég lauslega; fyrirsagnirnar grípa helst augað og það er ansi sérstakt að fylgjast jafnyfirborðskennt með og raun ber vitni. Hins vegar fæ ég það alltaf á tilfinninguna við skimlesturinn að ástandið heima hafi lítið breyst til batnaðar á því tæpa ári sem liðið er frá bankahruninu.

Eins og sakir standa fylgist ég ekki af ákafa með umræðunni á Íslandi; ég læt dvöl mína í Ekvador koma í veg fyrir það. Í rúman mánuð hef ég hvorki séð fréttatíma í íslensku sjónvarpi né hlustað á útvarpsfréttir. Vefmiðlana les ég lauslega; fyrirsagnirnar grípa helst augað og það er ansi sérstakt að fylgjast jafnyfirborðskennt með og raun ber vitni. Hins vegar fæ ég það alltaf á tilfinninguna við skimlesturinn að ástandið heima hafi lítið breyst til batnaðar á því tæpa ári sem liðið er frá bankahruninu.

Gott dæmi um tiltölulega óbreytt ástand voru ekki-fréttir af löngum ríkisstjórnarfundi í liðinni viku og sameiginlegum þingflokksfundi stjórnarflokkanna. Í kjölfarið á þeim fundi átti að halda blaðamannafund en hætt var við hann og lítið sem ekkert fékkst uppgefið um hvað væri að frétta af stjórnarheimilinu. Ef til vill er það vegna þess að það er ekkert gott að frétta.

Það er örugglega hundleiðinlegt að vera ráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Slæmu fréttirnar eru endalausar og góðu fréttirnar teljandi á fingrum annarrar handar. Vissulega er ekki skemmtilegt að vera sjaldan í aðstöðu til þess að boða eitthvað gott, og þó að fólki leiðist almennt neikvæð og niðurdrepandi umræða um skattahækkanir og niðurskurð, þá vill þjóðin fá að vita hvað er verið að gera til þess að bæta hag heimilanna og fyrirtækjanna. Að auki væri gaman að fá að vita hvað er að gerast í ríkisbönkunum þremur en litlar sem engar fréttir berast þaðan. Háfleyg loforð stjórnarflokkanna um „að hafa allt upp á borðum“ hafa fokið burt með haustvindinum, a.m.k. ef marka má blaðamannafundinn á þriðjudaginn sem aldrei var haldinn.

Í öðrum fréttum frá Íslandi var það helst í vikunni að Davíð Oddsson er nýr ritstjóri Morgunblaðsins. Einhverjir gleðjast eflaust en fleiri virðast ætla að sneiða framhjá blaðinu og vefsíðu þess til að mótmæla því að fyrrverandi forsætisráðherrann fari nú með völdin á ritstjórninni. Fyrir mig, sem fylgist með úr fjarlægð, þýðir ráðning hans bara eitt: Nýja Ísland verður ekki svo frábrugðið Gamla Íslandi því það síðasta sem þjóðfélagið þarf núna eru nýjar en kunnuglegar skotgrafir.

Svo það er þá að frétta að heiman: ríkisstjórnin svíkur loforðin og getur lítið sem ekkert gert fyrir heimilin og fyrirtækin og Davíð Oddsson er mættur aftur til leiks. Veturinn framundan verður vafalítið viðburðaríkur svo að þeim sem fylgist af ákafa með mun ekki leiðast. Ég mun hins vegar halda skimlestrinum áfram og vona að á næstu vikum og mánuðum verði eitthvað í íslenskum fréttum sem „meikar sens“.

Latest posts by Sunna Kristín Hilmarsdóttir (see all)

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Sunna Kristín hóf að skrifa á Deigluna í mars 2009.