Spennandi og erfiðir tímar

Það eru bæði spennandi og erfiðir tímar framundan í stjórnmálum. Þeir eru spennandi því ákvarðanir stjórnvalda á næstu mánuðum munu skipta sköpum um það Ísland sem rís upp úr boðaföllum undanfarinna mánaða og það aðhald sem stjórnvöldum verður veitt er mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Þeir eru erfiðir af nákvæmlega sömu ástæðu. Ofan á það leggst síðan að ungt fólk hefur upp til hópa misst trúna á Sjálfstæðisflokkinn og stefnu hans.

Það eru bæði spennandi og erfiðir tímar framundan í stjórnmálum. Þeir eru spennandi því ákvarðanir stjórnvalda á næstu mánuðum munu skipta sköpum um það Ísland sem rís upp úr boðaföllum undanfarinna mánaða og það aðhald sem stjórnvöldum verður veitt er mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Þeir eru erfiðir af nákvæmlega sömu ástæðu. Ofan á það leggst síðan að ungt fólk hefur upp til hópa misst trúna á Sjálfstæðisflokkinn og stefnu hans.

Það er því ljóst að ábyrgðin sem hvílir á herðum fólksins sem tekur að sér forystu í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, er mikil. Það þarf jafnt að veita stjórnvöldum það aðhald sem nauðsynlegt er svo uppbygging samfélagsins verði með heppilegasta hætti, svo og að sannfæra ungt fólk um að þær hugsjónir frelsis og mannréttinda sem ungir sjálfstæðismenn sameinast um eru þess virði að berjast fyrir.

Ég býð mig fram til formanns Heimdallar ásamt frábærum hópi fólks, því við erum spennt að takast á við þessi stóru verkefni og treystum okkur til að standa undir þeirri ábyrgð sem þeim fylgir.

Ég hef undanfarin tvö ár unnið sem framkvæmdastjóri þingflokks sjálfstæðismanna og þar af leiðandi fylgst náið með stjórnmálaumræðu í landinu. Það er nánast sama hvert litið er; umræðan er á neikvæðum nótum og hörð gagnrýni og niðurrif meira áberandi en jákvæðni og uppbyggilegt aðhald. Þessu vilja ég og meðframbjóðendur mínir breyta og tala til ungs fólks á uppbyggjandi nótum. Eitt af því sem er hvað sterkast við stefnu hægrimanna er sá sköpunarkraftur og frumkvæði sem hugmyndir um frelsi og frjálst framtak felur í sér og á þessi gildi eigum við að leggja áherslu á.

Því vil ég fyrir mína hönd og frambjóðenda minna biðja um þinn stuðning í Heimdallarkosningum á næstkomandi miðvikudagskvöld og hlakka til að sjá þig á kjörstað.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.